Pabbi alkóhólisti
stelpa
17
Ég vil ekkert vesen er bara að pæla hvernig maður getur gengið í það að reyna að koma pabba sínum í skilning um að hann sé alkóhólisti og sé búinn að vera það rosalega lengi án þess að viðurkenna vandamálið.
Þegar ég var í grunnskóla var með strítt útaf þessu ( það hefur bara styrkt mig núna) en ég vil samt ekki að litlu frændsystkini mín þurfi að horfa uppá þetta og jafnvel að þau verið fyrir stríðni útaf þessu. Það vil ég alls ekki en þetta er bara pæling.
Komdu sæl
Umboðsmaður barna vill endilega benda þér á göngudeild SÁÁ í Efstaleiti. Þar er hægt að fá ráðgjöf um það hvernig best er að snúa sér í svona aðstæðum, sjá t.d. hér.
Einnig má benda á Al-Anon fjölskyldudeildirnar en það eru samtök ættingja og vina alkóhólista sem deila reynslu sinni, styrk og vonum svo þeir megi leysa sameiginlega vandamál sín. Vefsíðan er www.al-anon.is.
Yfirleitt er best að vera hreinskilin og ræða málin eins og þau horfa við manni sjálfum. Ef þú treystir þér til þess gætir þú því prófað að fá pabba þinn til að setjast niður með þér og sagt honum frá áhyggjum þínum og eigin upplifunum. Þú gætir líka fengið einhvern annan fullorðinn sem þú treystir til að vera með ykkur á „fundinum.“
Ef frændsystkini þín sýna merki um vanlíðan vegna drykkjunnar gæti verið góð hugmynd að þú eða foreldrar þeirra myndu ræða við þau og útskýra að hann sé fullorðinn maður sem þurfi að taka ábyrgð á sjálfum sér og viðurkenna vandamál sitt ef það er til staðar. Þau eiga ekki að fá það á tilfinninguna að þau beri einhverja ábyrgð á ástandinu.
Að lokum vill umboðsmaður benda þér á ráðgjöfina hjá Fjölskyldumiðstöðinni.
Gangi þér vel.
Kveðja frá umboðsmanni barna