Þyngd
strákur
15
Góðan dag. Ég er ad spá hvað er meðalþyngd 13-18 ? Ég er 67,5 kg og margir tejla mig feitan, vonandi fæ ég svar a næstunni.
Komdu sæll.
Takk fyrir fyrirspurnina þar sem þú ert að velta fyrir þér líkamsþyngd 13–18 ára. Það er gott hjá þér að leita til umboðsmanns barna með þetta því margir deila áhyggjum þínum af sinni eigin líkamsþyngd. Þyngd er í raun mjög einstaklingsbundin og fer það m.a. eftir hæð hvers og eins hver kjörþyngdin á að vera.
Oft er notaður BMI stuðull til hliðsjónar á því hvar fólk stendur þyngdarlega séð. Stuðullinn reiknar út hlutfallið á milli hæðar og þyngdar, þannig að sá sem er hærri yfirleitt þyngri en sá sem er lágvaxnari. Það er líka ýmislegt sem getur haft áhrif á þyngd eins og vöðvamassi, sem er þyngri en fita, og einnig geta sumir einstaklingar verið með óvenju þung bein. Þannig að þú ættir ekki að vera að einblína of mikið á líkamsþyngd þína eingöngu. Nánar um BMI á þessari heimasíðu.
Heilsan og líðan skiptir miklu máli og allir ættu að gera sitt besta til að tileinka sér holla og heilbrigða lífshætti með því að borða fjölbreytta og holla fæðu. Best er að borða reglulega yfir daginn (morgunmat, hádegismat og kvöldmat auk 2 – 3 millibita á hverjum degi), draga úr sykri og borða hollt. Regluleg hreyfing er að sjálfsögðu mikilvæg, hún er góð fyrir líkama og sál og lætur fólki líða betur. Svo má ekki gleyma því að hvíld er líka mikilvægur þáttur í heilsu.
Kær kveðja frá umboðsmanni barna.