Mér líður alveg hræðilega!
stelpa
12
Mér líður alveg hræðilega! Stundum langar mig bara til þess að drepast og koma aldrei aftur! Mér líður t.d. ekki vel í skólanum, vinkonur mínar eru ekki alveg eins og ég vonaðist, ég er farin að forðast þær! Og ef að ég fer t.d. í sumarbúðir dæma stelpurnar mig áður en að þær kynnast mér, og ég verð þá eiginlega ein heila viku ! Hvað á ég að gera ?
Komdu sæl
Það er mjög leiðinlegt að heyra að þér líði svona illa. Ef þú ert ekki búin að segja foreldrum þínum frá líðan þinni í skólanum, skaltu endilega gera það sem fyrst. Þau bera ábyrgð á velferð þinni og þekkja þig örugglega best.
Þú skalt einnig láta umsjónarkennarann þinn vita af ástandinu. Umsjónarkennarinn á, samkvæmt lögum, að hjálpa nemendum að leysa úr persónulegum vanda. Kannski getur líka verið gott að ræða við námsráðgjafann í skólanum, en hann/hún hjálpar einnig nemendum með persónuleg mál. Námsráðgjafinn gæti e.t.v. leiðbeint þér hvað væri gott fyrir þig að gera í sambandi við vinkonurnar og hann/hún getur örugglega rætt við þig um ýmsar leiðir til að styrkja sjálfsmyndina og eignast nýja félaga. Kannski er hægt að gera eitthvað til að bæta bekkjarbraginn, þ.e. gera samskiptin í bekknum betri til að öllum líði betur. En þá þarf umsjónarkennarinn að vita af því að þér líður illa.
Rauði krossinn er með hjálparsímann 1717 sem er opinn allan sólarhringinn. Þegar þér lður illa getur þú hringt þangað og rætt við starfsfólk hjálparsímans í trúnaði.
Að sjálfsögðu getur þú líka alltaf skrifað eða hringt hingað ókeypis til umboðsmanns barna (síminn er 800 5999). Hér átt þú fullan trúnað.
Vona að ástandið batni.
Kær kveðja frá umboðsmanni barna