Mega tveir 13 ára krakkar hafa kynmök???
strákur
13
Mega tveir 13 ára krakkar hafa kynmök???
Komdu sæll
Það segir hvergi beint í lögum að unglingar þurfi að hafa náð ákveðnum aldri til að mega stunda kynlíf. Hins vegar er ákvæði í almennum hegningarlögum, þar sem segir að það sé refsivert að stunda kynlíf með einstaklingi sem er yngri en 15 ára. Þetta lagaákvæði miðar fyrst og fremst að því að vernda börn og unglinga fyrir misnotkun sér eldra fólks, sem vill nýta sér þroska- og reynsluleysi barnanna.
Þetta segir í lögunum, en það er síðan annað mál, að enginn ætti að byrja að stunda kynlíf með öðrum fyrr en hann er tilbúinn til þess sjálfur og gerir sér grein fyrir afleiðingum þess andlega og líkamlega.
Ef þig vantar upplýsingar um kynlíf, kynheilbrigði og getnaðarvarnir þá ættir þú að hafa samband við skólahjúkrunarfræðinginn í skólanum þínum. Hann / hún getur líka frætt þig um áhættuna sem fylgir óábyrgu kynlífi.
Svo er vert að benda á frábæra síðu félags læknanema um forvarnarstarf, www.astradur.is. Þú skalt endilega kíkja á þá síðu. Svo getur þú spurt “Ástráð” um hvað sem er sem við kemur kynlífi, getnaðarvörnum og kynsjúkdómum.
Í sambandi við kynlíf unglinga er mikilvægt að hafa í huga að hver og einn ræður yfir líkama sínum sjálfur og enginn annar hefur rétt til að ákveða hvað gert er við líkama þeirra. Einnig er mikilvægt að börn og unglingar tileinki sér virðingu fyrir sjálfum sér og öðrum. Einstaklingur sem þekkir verðleika sína og býr yfir nægilegri sjálfsvirðingu til að setja mörk og sætta sig ekki við hvað sem er, á auðveldara með að sneiða hjá óæskilegri kynlífsreynslu.
Kveðja frá umboðsmanni barna