Mega kennarar hóta nemendum?
strákur
15
Mega kennarar hóta nemendum?
Komdu sæll.
Samkvæmt 12. gr. grunnskólalaga ber kennurum sem og öðru starfsfólki skólans að gæta kurteisi, nærgætni og lipurðar í framkomu sinni gagnvart nemendum. Kennurum ber þannig ávallt að koma fram við nemendur sína af virðingu og er því aldrei ásættanlegt að þeir hóti þeim.
Sömuleiðis eiga nemendur að koma fram við kennara og aðra starfsmenn skólans af virðingu. Samkvæmt 14. gr. grunnskólalaga ber nemendum að hlíta fyrirmælum kennara og starfsfólks grunnskóla í öllu því sem skólann varðar, fara eftir skólareglum og fylgja almennum umgengnisreglum í samskiptum við starfsfólk og skólasystkin Kennurum ber að sjá til þess að halda uppi aga og tryggja að nemendur fylgi skólareglum. Kennarar geta því veitt nemendum áminningu, til dæmis þannig að þeir áminni nemanda að ef hann hætti ekki að haga sér illa í tíma, þá verði hann sendur til skólastjóra.
Ef kennarinn þinn er að hóta þér ættir þú endilega að segja foreldrum þínum frá því og jafnvel ræða við skólastjórann. Þú getur einnig leitað til námsráðgjafans í skólanum.
Kær kveðja frá umboðsmanni barna