Mega foreldrar taka af mér síma og tölvu?
strákur
13
Geta foreldrar mínir bannað mér að nota símann minn og spjaldtölvuna mína ? Þau vilja að ég geri ýmsa hluti heima og í skólanum (á veturna) og hóta mér stanslaust að þau ætli að að taka þessi tæki af mér ef ég geri ekki eins og þau segja mér að gera.
Komdu sæll
Þú átt almennt að ráða sjálfur yfir eigum þínum. EN það er þó hlutverk foreldra að setja reglur á heimilum og þeim ber líka að grípa inn í skaðlega hegðun barna sinna. Ef foreldrar þínir telja að eina leiðin til að tryggja velferð þína sé að taka tækin af þér tímabundið þá mega þeir það .
Foreldrar þínir ættu almennt ekki að taka af þér tæki og tól sem þú átt. Hér erum við að tala um hluti sem þú hefur fengið að gjöf eða þú hefur keypt þér sjálfur. Foreldrar þínir bera samt ábyrgð á þér og eiga að hugsa um það sem er best fyrir þig. Stundum eiga börn erfitt með að hafa stjórn á tölvu- og netnotkun þannig að þau eru kannski marga klukkutíma að horfa á þætti, myndbönd eða spila leiki og eru þá stundum farin að missa tengslin við vini, standa sig illa í skólanum, sofa ekki á nóttunni eða hugsa illa um sig sjálf. Ef svo er í þínu tilviki mega foreldrar þínir takmarka aðgang þinn að þessum tækjum. Þau geta t.d. breytt netáskriftinni þannig að þú komist minna á netið.
Foreldrar þínir eiga ekki að taka af þér eigur þínar nema í undantekningartilfellum og þá til þess að vernda þig. Þau ættu því yfirleitt ekki nota það sem refsingu eða umbun að taka af þér eða afhenda þér hluti sem þú átt sjálfur. Foreldrar þínir geta þó sett ákveðnar reglur á heimilinu, t.d. um þann tíma sem þú mátt horfa á sjónvarp eða spila leiki. Foreldrar þínir eiga þó helst að setja þessarr reglur í samráði við þig. Hérna er spurning og svar um heimilisstörf og hversu mikið er rétt að biðja börn um að gera heima.
Aldur þinn skiptir þarna líka máli. Foreldrar yngri barna hafa í raun meira leyfi til að taka eigur af börnum sínum til að vernda þau en eftir því sem börn eldast ættu þau að geta borið meiri ábyrgð sjálf.
Það gæti verið gott að ræðs þessi mál við foreldra þína. Kannski getið þið saman sett reglur um þessi mál sem þið eruð öll sátt við.
Kær kveðja frá umboðsmanni barna