Mega foreldrar ráða hverja ég á samskipti við, hvort ég fer í menntaskóla o.fl?
strákur
16
Foreldrar mínir hafa nýlega bannað mér að hafa samskipti við eldri stráka eftir að hafði farið í sleik við strák yfir 20 ára (já ég er hommi) inn á salerni á kaffihúsi. Geta foreldrar mínir bannað mér slíkt? Ef svo er, af hverju?
Mega foreldrar mínir að neyða mig til þess að segja þeim frá mínu einkalífi? Mega þau jafnvel skipa mér að fara í menntaskóla og banna mér að velja braut þar? Þetta er það sem þau gera mér. Ég verð meira að segja að tilkynna þeim hversu mikinn lausan pening á ég. Mér finnst þetta brjóta mitt frelsi mjög mikið. Lokaspurning: Mega þau þetta??
Komdu sæll
Unglingsárunum fylgir oft mikið álag og stundum eru foreldrar og unglingar ekki sammála um hvað er best fyrir unglinginn og hver geta hans er til að bregðast við ólíkum aðstæðum sem kunna að koma upp.
Börn eiga rétt á friðhelgi einkalífs en í því felst að þau eiga rétt á að njóta friðar um einkahagi, eiga trúnaðarsamskipti við aðra og ráða almennt yfir lífi sínu og líkama. Sú staðreynd að forsjá þeirra er í höndum foreldra setur sjálfstæðum rétti þeirra til að njóta friðhelgi einkalífs þó skorður enda ber foreldrum skylda til að vernda börn sín. Eftir því sem börn verða eldri er eðlilegt að þessi réttur til friðhelgi einkalífs verði ríkari og unglingarnir sjálfir hafi meira um einkamál sín að segja.
Foreldrar þínir bera ábyrgð á velferð þinni. Þeim ber því að ráða persónulegum högum þínum í samræmi við það sem þau telja þér fyrir bestu en þeim ber jafnframt að hlusta á þig og taka réttmætt tillit til skoðana þinna og óska. Það er því ekki hægt að svara spurningunni um það hvort foreldrar þínir megi banna þér að eiga samskipti við eldri stráka með jái eða neii. Þetta verður að meta í hverju tilviki fyrir sig. Þar sem þú ert orðinn 16 ára er þó eðlilegt að þú ráðir því að miklu leyti sjálfur hverja þú umgengst.
Foreldrar þínir geta ekki neytt þig til að segja frá því sem þú vilt halda fyrir sjálfan þig. Það er alltaf gott að vera hreinskilinn og reyna að ræða málin í rólegheitum til að byggja upp traust og koma í veg fyrir misskilning og leiðindi.
Varðandi skólann þá telur umboðsmaður barna að unglingar ættu sjálfir að fá að ráða hvað þeir gera að loknum grunnskóla. Eðlilega vilja foreldrar hafa áhrif á þetta val enda ber þeim að stuðla eftir mætti að því að barn þeirra fái menntun og starfsþjálfun í samræmi við hæfileika þess og áhugamál. Er því æskilegt að foreldrar og börn reyni að komast að niðurstöðu sem allir eru sáttir við. Foreldrar þínir geta þó ekki stjórnað því hvaða námsbraut þú velur þér.
Varðandi fjármál þá er það alveg á hreinu að þú ræður sjálfur hvernig þú notar þann pening sem þú hefur unnið þér inn sjálfur eða fengið að gjöf. Um þetta er fjallað í lögræðislögum.
Það er alltaf gott að ræða málin og því vill umboðsmaður benda þér á námsráðgjafann í skólanum. Einnig er þér velkomið að koma á skrifstofu umboðsmanns barna eða hringja í síma 800 5999.
Gangi þér vel.
Kveðja frá umboðsmanni barna