Mega foreldra banna mér að fara út?
Mega foreldrar mínir banna mér að fara út úr húsi af því að þau föttuðu að ég tek i vörina og drekk?
Spurning frá 17 ára strák. Mega foreldrar mínir banna mér að fara út úr húsi af því að þau föttuðu að ég tek i vörina og drekk? Þau vissu með drykkjuna.
Hæ og takk fyrir tölvupóstinn.
Börn eiga rétt á því að tjá sig í öllum málum sem varða þau sjálf og foreldrum ber að hlusta á og taka tillit til skoðana barna eftir aldri og þroska þeirra. Þar sem þú ert orðinn 17 ára á skoðun þín að hafa mikið vægi. Foreldrar bera samt mikla ábyrgð þegar kemur að velferð barna þeirra. Foreldrar eiga að vernda börn og leiðbeina þeim ef þau eru t.d. að sýna áhættuhegðun eða eiga erfitt með að sýna ábyrgð. Þegar einhver sem er 17 ára er að drekka áfengi þá eru það aðstæður sem foreldrar eiga að hafa áhyggjur af og eiga að skipta sér af. Þá mega foreldrar setja strangari reglur til að vernda börnin eða koma í veg fyrir að þau geri eitthvað sem er skaðlegt fyrir þau.
Nú vitum við ekki mikið um aðstæður þínar og getum því ekki svarað því með einföldu svari hvort foreldrar þínir megi banna þér að fara út en til þess að bæta samskiptin og reyna að finna lausnir er mjög mikilvægt að þið ræðið málin og að þú segir foreldrum þínum frá því sem þú ert tilbúinn að gera til þess að fá þau til þess að treysta þér. Stundum getur verið gott að fá einhvern annan fullorðinn með sér til þess að eiga erfitt samtal við foreldra.
Gangi þér sem allra best.
Kær kveðja frá umboðsmanni barna