Mega börn fara ein til sálfræðings?
Geta börn leitað sér sjálf aðstoðar hjá sálfræðing?
Viðtöl við sálfræðinga eða annað fagfólk getur skipt sköpum fyrir barn og líðan þess. Þeir sem eru orðnir 16 ára mega fara sjálfir til sálfræðings eða fá tíma á heilsugæslustöð. Þeir sem eru yngri ættu að mati umboðsmanns barna líka að geta leitað ráðgjafar og aðstoðar hjá sálfræðingum eða öðru heilbrigðisstarfsfólki, án þess að foreldrar komi þar að. Þeir foreldrar sem fara með forsjá þurfa þó að veita samþykki sitt ef fagfólk telur þörf á einhverskonar meðferð, svo sem greiningu eða lyfjagjöf.
Sálfræðingar, eins og aðrir heilbrigðisstarfsmenn, eiga að gæta trúnaðar við þau börn sem leita til þeirra. Það eru þó ákveðnar upplýsingar sem þeim ber að veita foreldrum barna yngri en 16 ára. Samkvæmt 25. gr. laga um réttindi sjúklinga nr. 74/1997 á það meðal annars við um upplýsingar um:
- heilsufar, þar á meðal læknisfræðilegar upplýsingar um ástand og batahorfur,
- fyrirhugaða meðferð ásamt upplýsingum um framgang hennar, áhættu og gagnsemi,
- önnur hugsanleg úrræði en fyrirhugaða meðferð og afleiðingar þess ef ekkert verður aðhafst,
- möguleika á að leita álits annars læknis eða annarra heilbrigðisstarfsmanna eftir því sem við á um meðferð, ástand og batahorfur.
Frá 16 ára aldri eru börn sjálfstæðir þjónustuþegar heilbrigðiskerfisins. Er því ljóst að börn geta að minnsta kosti leitað sér aðstoðar hjá sálfræðingi án samþykkis foreldra þegar þau hafa náð þeim aldri.
Um samþykki fyrir nauðsynlegri meðferð er fjallað í 26. gr. laga um réttindi sjúklinga nr. 74/1997. Þar segir að foreldrar sem fara með forsjá skuli veita samþykki fyrir nauðsynlegri meðferð barns yngra en 16 ára en börn skuli eftir því sem kostur er höfð með í ráðum og alltaf ef þau eru 12 ára eða eldri. Þó að sálfræðiþjónusta geti í einhverjum tilvikum falið í sér nauðsynlega meðferð í skilningi laganna þarf hún ekki endilega að gera það. Ættu börn undir 16 ára aldri því að geta fengið ráðgjöf hjá sálfræðingum eða öðru heilbrigðisstarfsfólki, án aðkomu foreldra. Getur það til dæmis átt við í þeim tilvikum sem börn vilja ræða viðkvæm málefni sem þau treysta sér ekk til þess að ræða við foreldra. Sálfræðingar þurfa þó að sjálfsögðu að meta hvort ástæða sé til að hafa samband við barnavernd, en þeir sem fagmenn bera sérstaka tilkynningarskyldu samkvæmt barnaverndarlögum.
Það eru reyndar ekki allir sammála þessu og telja sumir að börn yngri en 16 ára megi ekki leita til heilbrigðisstarfsfólks, eins og sálfræðinga, nema með leyfi foreldra. Umboðsmaður barna telur það ekki í samræmi við réttindi barna.
Samkvæmt Barnasáttmálanum eiga börn á öllum aldri sjálfstæðan rétt til trúnaðar af hálfu opinberra starfsmanna. Í almennum athugasemdum Barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna um 12. gr. Barnasáttmálans er fjallað um þennan rétt í athugasemd 101. Í lauslegri þýðingu segir þar að aðildarríki þurfa að innleiða lög og reglugerðir sem tryggja börnum rétt til heilsufarsráðgjafar og aðstoðar í trúnaði án samþykkis foreldra, óháð aldri barns, þegar þörf er á vegna öryggis eða velferðar barns. Börn geta haft þörf á slíkri ráðgjöf, t.d. þegar þau hafa reynslu af ofbeldi eða vanrækslu á heimili sínu, hafa þörf á ráðgjöf um getnaðarvarnir eða þegar börn og foreldrar eru ekki sammála um aðgang barna að heilbrigðisþjónustu. Rétturinn til ráðgjafar og aðstoðar er óháður aldri til að veita samþykki í heilbrigðismálum og ætti ekki að vera takmarkaður með aldursmörkum. Þess má geta að umboðsmaður hefur í nokkur ár bent á mikilvægi þess að öll börn hafi aðgang að sálfræðiþjónustu á heilsugæslustöðvum, sjá t.d. frétt hér frá 12. apríl 2012.
Samkvæmt 12. gr. laga um réttindi sjúklinga nr. 74/1997 og 17. gr. laga um heilbrigðisstarfsmenn nr. 35/2012 skal starfsmaður í heilbrigðisþjónustu gæta fyllstu þagmælsku um allt það sem hann kemst að í starfi sínu um heilsufar sjúklings, ástand, sjúkdómsgreiningu, horfur og meðferð ásamt öðrum persónulegum upplýsingum. Þetta ákvæði á að sjálfsögðu við um börn þó að foreldrum barna yngri en 16 ára skuli veittar allar nauðsynlegar upplýsingar um heilsufar þess og þjónustu í boði. Þagnarskyldan nær þó ekki til atvika sem starfsmanni í heilbrigðisþjónustu ber að tilkynna um samkvæmt ákvæðum barnaverndarlaga nr. 80/2002. Verði starfsmaður var við að barn hafi verið vanrækt, beitt einhvers konar ofbeldi eða stefni eigin velferð í hættu ber honum eða yfirmanni hans að tilkynna það barnaverndarnefnd.