Mega 12 ára sofa saman
Ég er 12 ára stelpa og er byrjuð á túr, mér langar að sofa hjá kærastanum mínum við erum bæði til búin en ég er hrædd um að verða ólétt.
Spurningin í heild sinni: Ég er 12 ára stelpa og er byrjuð á túr mér langar frekar mikið að sofa hjá kærastanum mínum (sem sagt að hafa samfarir) við erum bæði til búin en ég er hrædd um að verða ólétt. Get ég orðið ólétt svona ung? Hvað þarf maður að vera gamall/gömul til þess að mega kaupa getnaðavarnir? Þarf maður að vera orðin ákveðið gamall/gömul til þess að mega stunda kynlíf?
Svar umboðsmanns barna:
Hæ og takk fyrir tölvupóstinn. Það er flott hjá þér að leita þér upplýsinga, það er mikilvægt fyrsta skref.
Það segir hvergi í lögum að unglingar eigi að hafa náð ákveðnum aldri til að meta stunda kynlíf. Það er samt þannig að það er ólöglegt að stunda kynlíf með barni sem er yngri en 15 ára, en þetta er til þess að vernda börn fyrir misnotkun eldri einstaklinga sem vilja nýta sér að börn eru ekki með nægilega mikla lífsreynslu eða þroska.
Það mikilvægasta til að hafa í huga er að enginn ætti að byrja að stunda kynlíf með öðrum fyrr en hann eða hún er tilbúinn til þess og getur gert sér grein fyrir afleiðingum þess andlega og líkamlega. Það ætti heldur enginn að þrýsta á einhvern að byrja að stunda kynlíf, ef hann eða hún er ekki tilbúin/n.
Enginn ætti að byrja að stunda kynlíf með öðrum fyrr en hann eða hún er tilbúinn til þess og getur gert sér grein fyrir afleiðingum þess andlega og líkamlega.
Þar sem þú ert byrjuð á blæðingum þá getur þú orðið ófrísk þó svo að þú sért svona ung en þú getur líka smitast af kynsjúkdómum. Það er mikilvægt fyrir þig að fá góðar upplýsingar um kynlíf, sambönd og getnaðarvarnir. Þú getur t.d. talað við skólahjúkrunarfræðinginn í skólanum þínum eða fengið upplýsingar hjá heilsugæslunni þar sem þú býrð.
Það er líka mikilvægt að vita að hver og einn ræður yfir líkama sínum sjálfur og enginn annar hefur rétt á að snerta mann eða fá mann til snerta sig. Það er mikilvægt að þekkja sjálfan sig, og að sýna sjálfum sér og öðrum virðingu, með því að gera ekki neitt sem manni líður ekki vel með í sambandi, eða gera eitthvað sem öðrum líður ekki vel með. Virðing og væntumþykja er það mikilvægasta í sambandi og auðvitað að geta talað saman og sýnt hvort öðru skilning.
Það er mismunandi hvað maður þarf að vera orðinn gamall til þess að mega kaupa getnaðarvarnir, smokka má t.d. hver sem er kaupa, en aðrar getnaðarvarnir eins og t.d. pilluna, sem þarf að fá hjá lækni getur maður fengið þegar maður er 12 ára, en þá fá foreldrar að vita um það.
Annars er það þannig að 12 ára börn eru ekki tilbúin til þess að stunda kynlíf, og þess vegna ættir þú ekki að flýta þér. Þið ættuð miklu frekar að njóta þess að vera kærustupar, að kynnast betur, og njóta þess að vera hrifin hvort af öðru. Það er nægur tími til þess að stunda kynlíf seinna, þegar þú hefur náð meiri þroska ert tilbúin og veist hvað þú vilt.
Góðar kveðjur frá umboðsmanni barna