Mamma er ósanngjörn
stelpa
14
Ég á heima hjá mömmu en mér finnst hún mjög óréttlát við mig :( ég vildi spurja hvort að pabbi geti ekki gefið mér leyfi fyrir gistingum eða þannig hlutum því mamma er ömurlega leiðinleg við mig og segir nei við öllu og ég meina öllu hún kallar mig leiðinlegum nöfnum og fleira svo getur pabbi ekki gefið mér leyfi fyrir gistingum eða bara fengið að flytja til hans.
Komdu sæl
Það er leitt að heyra að samskiptin heima fyrir séu erfið. Að sjálfsögðu eiga foreldrar ekki að koma illa fram við börn sín.
Börn eiga rétt á því að tjá sig í öllum málum sem varða þau sjálf og foreldrum ber að hlusta á og taka tillit til skoðana barna eftir aldri og þroska þeirra. Þar sem þú ert orðin 14 ára á skoðun þín að hafa mikið vægi. Foreldrar bera samt mikla ábyrgð þegar kemur að velferð barna sinna. Foreldrar eiga að vernda þau ef þau eru t.d. að sýna áhættuhegðun eða eiga erfitt með að sýna ábyrgð. Þá mega foreldrar setja strangari reglur til að vernda börnin eða grípa inní það sem þau eru að gera.
Nú vitum við ekki mikið um aðstæður þínar og get því ekki ráðlagt þér meira eða haft álit á því hvort það sé réttlátt eða óréttlátt að þú megir ekki gista annars staðar en heima hjá þér. Þegar þú ert hjá mömmu þinni getur hún sett reglur um það hvort þú megir gista með vinum eða vinkonum, að teknu tilliti til vilja þíns og aðstæðna. Pabbi þinn getur ekki gefið leyfi fyrir slíku nema þegar þú ert hjá honum.
Varðandi það hvort þú getir fengið að flytja til pabba þíns þá geta foreldrar þínir komist að samkomulagi um að breyta búsetustað þínum. Foreldrar þínir eiga að hlusta á þig og taka tillit til vilja þíns en þeir verða að bera ábyrgð á ákvörðun um heimili og hvernig umgengni er.
Samskiptavandi milli þín og mömmu þinnar virðist vera aðalvandinn. Til þess að bæta samskiptin er mikilvægt að þið ræðið málin. Ef þú treystir þér ekki til að ræða við hana ein gætir þú fengið einhvern annan fullorðinn sem þú treystir til að vera með þér. Svo getur líka verið gott að leita til einhvers utanaðkomandi. Á höfuðborgarsvæðinu er hægt að leita til Fjölskyldumiðstöðvarinnar en þar er hægt að fá ókeypis ráðgjöf vegna ýmissa mála svo sem samskiptavanda. Einnig bjóða mörg sveitarfélög upp á ráðgjöf fyrir fjölskyldur.
Ef þú þarft frekari upplýsingar er þér velkomið að hafa aftur samband eða hringja í gjaldfrjálst símanúmer 800-5999.
Með kveðju frá umboðsmanni barna