Má ekki gista með kærasta
stelpa
16
Ég er 16 ára stelpa og er búin að vera í sambandi með strák í hálft ár, en ég hef aldrei gist með honum og okkur langar svo mikið að gista en foreldrar mínir banna mér það? Geta þau gert það?
Komdu sæl
Þar sem þú ert orðin 16 ára átt þú rétt á því að ráða miklu um það hverja þú umgengst og hvenær. Foreldrar þínir fara þó með forsjá yfir þér þar til þú verður 18 ára, eins og kemur fram í 28. gr. barnalaga. Það þýðir að foreldrar þínir bera ábyrgð á þér og geta sett þér ákveðnar reglur, svo sem um það hvort og þá hvenær þú mátt gista með kærasta þínum.
Þó að foreldrar þínir geti sett slíkar reglur ber þeim þó líka að hlusta á þig og taka tillit til vilja þíns, en í 6. mgr. 28. gr. barnalaga segir:
Foreldrum ber að hafa samráð við barn sitt áður en málefnum þess er ráðið til lykta eftir því sem aldur og þroski barnsins gefur tilefni til. Skal afstaða barns fá aukið vægi eftir því sem barnið eldist og þroskast.
Það gæti verið góð hugmynd fyrir þig að ræða við foreldra þína og segja þeim hvernig þér líður. Eflaust eru foreldrar þínir að hugsa um hagsmuni þína og hafa góða ástæðu fyrir því að banna þér að gista með kærasta þínum. Getur því líka verið mikilvægt fyrir þig að hlusta á sjónarmið þeirra.
Gangi þér vel!
Kær kveðja frá umboðsmanni barna