Má ég stunda kynlíf
Hvað get ég gert til þess að komast yfir fyrrverandi annað en að gera hann afbrýðissaman og má ég stunda kynlíf ?
Hæhæ ég er 12 ára stelpa á þrettánda ári .
Þó að ég segi sjálf frá þá finnst mér ég vera mjög þroskuð andlega og líkamlega og ég er ný búin að segja upp kærastanum mínum og langar mér mjög mikið bara að gleyma honum (við höfum ekki stundað kynlíf) og finna annan betri og stunda kynlíf með einhverjum öðrum . Mér finnst ég vera tilbúin til þess að stunda kynlíf andlega og líkamlega og ég er tilbúin að taka öllum afleiðingum. En spurningin er hvað get ég gert til þess að komast yfir fyrrverandi annað en að gera hann afbrýðissaman og má ég stunda kynlíf ?
Hæ.
Það segir hvergi beint í lögum að unglingar þurfi að hafa náð ákveðnum aldri til að mega stunda kynlíf. Hins vegar er ákvæði í almennum hegningarlögum, þar sem segir að það sé refsivert að stunda kynlíf með einstaklingi sem er yngri en 15 ára. Þetta lagaákvæði miðar fyrst og fremst að því að vernda börn og unglinga fyrir misnotkun eldra fólks. Ef þetta lagaákvæði er brotið getur refsing orðið fangelsisvist. Lækka má refsingu eða láta hana falla niður, ef gerandi og þolandi eru á svipuðum aldri og þroskastigi.
Þetta segir í lögunum, en það er síðan annað mál, að enginn ætti að byrja að stunda kynlíf með öðrum fyrr en hann er tilbúinn til þess sjálfur og gerir sér grein fyrir afleiðingum þess andlega og líkamlega.
Ef þig vantar upplýsingar um kynlíf og getnaðarvarnir þá ættir þú að hafa samband við skólahjúkrunarfræðinginn í skólanum þínum. Hann getur líka frætt þig um áhættuna sem fylgir óábyrgu kynlífi. Þú getur líka fengið upplýsingar hjá heilsugæslunni þinni.
Í sambandi við kynlíf unglinga er mikilvægt að hafa í huga að hver og einn ræður yfir líkama sínum sjálfur og enginn annar hefur rétt til að ákveða hvað gert er við líkama þeirra. Einnig er mikilvægt að börn og unglingar tileinki sér virðingu fyrir sjálfum sér og öðrum. Einstaklingur sem þekkir verðleika sína og býr yfir nægilegri sjálfsvirðingu til að setja mörk og sætta sig ekki við hvað sem er, á auðveldara með að sneiða hjá óæskilegri kynlífsreynslu.
Það getur verið gaman að vera í sambandi en það er líka frábært að vera það ekki. Það er erfitt að hætta í sambandi og þá getur verið gott að fá stuðning frá vinum þínum, vinkonum og fjölskyldu.
Gangi þér vel.