Líður mjög illa
stelpa
12
Hæ, mér líður eins og allir hati mig og stundum langar mig bara að deyja þetta er ömurlegt t.d um daginn var ég send kl 6 og fékk ekkert að borða og grét mig í svefn HJÁLP
Komdu sæl.
Mikið ertu dugleg að leita þér hjálpar. Það er slæmt að þér líði svona illa og að þér líði eins og allir hati þig og að þig langi að deyja. Það er mjög alvarlegt að líða svona illa og því mikilvægt að þú talir við einhvern sem fyrst til að fá hjálp. Þú verður að fá aðstoð við að hugsa fram á veginn og sjá björtu hliðarnar á lífinu, því að þó að þér líði illa í dag og finnist allt vera vonlaust, þá verður lífið ekki alltaf svona.
Foreldrar þínir bera ábyrgð á líðan þinni og vernd og því mikilvægt að leita fyrst til þeirra ef þú getur og biðja þau um hjálp. Ef þú vilt ekki eða treystir þér ekki til að tala við foreldra þína gætir þú reynt að tala við einhvern annan fullorðinn sem þú treystir vel, t.d. ömmu, afa eða einhvern í skólanum þínum, s.s. umsjónarkennara, námsráðgjafa, skólahjúkrunarfræðing eða annan sem þú treystir.
Á Barna- og unglingageðdeild Landspítalans (BUGL) vinnur fólk sem hjálpar krökkum sem líður svo illa að þau vilja deyja eða skaða sig. Þú getur ekki leitað þangað sjálf heldur þurfa foreldrar þínir að gera það með þér. Síminn þar er 543 4300. Það eru líka aðrar leiðir til að hjálpa börnum eins og þér, t.d. sálfræðingar og barnaverndin en þeir fullorðnu verða að vera með í því.
Einnig bendir umboðsmaður þér á hjálparsíma Rauða krossins en númerið þar er 1717 sem þú skalt endilega nýta þér. Þangað getur þú hringt ókeypis þegar þér líður illa, alveg sama hvað klukkan er. Þar getur þú rætt þín mál við hlutlausan aðila. Að sjálfsögðu getur þú líka alltaf skrifað eða hringt ókeypis til umboðsmanns barna í síma 800-5999.
Til að auðvelda þér að opna á þetta vandamál við foreldra þína gætir þú prentað þetta svar út og sýnt þeim.
Gangi þér vel.
Kveðja frá umboðsmanni barna