Kynlíf 15 og 25 ára
strákur
15
Halló mig langaði að spyrja hvort að 25 ára gamall gaur megi stunda kynlíf með 15 ára stelpu ef að hún vill það.... ég og vinur minn hafa verið í miklum rökræðum með þetta og mig langaði til að fá svar...
Komdu sæll
Í almennum hegningarlögum (3. málsgrein 202. greinar) segir að hver sem með blekkingum, gjöfum eða á annan hátt tæli ungmenni yngra en 18 ára til samræðis eða annarra kynferðismaka skuli sæta refsingu, sem getur orðið 4 ára fangelsi. Þessu ákvæði er ætlað að vernda unglinga fyrir fólki sem vill notfæra sér þroska- og reynsluleysi þeirra.
Ef stelpan væri yngri en 15 ára þá myndi 1. málsgrein 202. greinar almennra hegningarlaga eiga við en þar segir að það sé refsivert að hafa samræði eða önnur kynferðismök við barn, yngra en 15 ára.
Til að skoða þetta betur skuluð þið skrolla niður á 202. gr. almennra hegningarlaga hér.
Þetta segir í lögunum, en það er síðan annað mál, að enginn ætti að byrja að stunda kynlíf með öðrum fyrr en hann er tilbúinn til þess sjálfur og gerir sér grein fyrir afleiðingum þess andlega og líkamlega.
Auðvitað eru fullt af unglingum að stunda heilbrigt kynlíf þar sem ánægja, samþykki og jafnrétti er haft að leiðarljósi. En eftir því sem kynlíf verður sýnilegra og umræðan opnari fá unglingar meiri óbeina fræðslu í gegnum fjölmiðla, t.d. netið. Ekki eru allir sammála um gæði þessarar fræðslu og margir telja hana fela í sér ranghugmyndir um hvað teljist heilbrigt kynlíf – siðferðislega séð.
Það munar yfirleitt mjög miklu á reynslu og þroska 15 og 25 ára einstaklinga og í raun myndi mörgum eflaust þykja óeðlilegt að 25 ára einstaklingur sýni 15 ára barni kynferðislegan áhuga.
Ef ykkur vinina vantar upplýsingar um kynlíf og getnaðarvarnir þá ættuð þið að hafa samband við skólahjúkrunarfræðinginn í skólanum ykkar. Hann / hún getur líka frætt ykkur um áhættuna sem fylgir óábyrgu kynlífi.
Hér eru einnig upplýsingar og slóðir ýmissa aðila og samtaka sem veita upplýsingar um kynheilbrigði, líkamann og sambönd.
Kveðja frá umboðsmanni barna