Hvenær má ég keyra bíl?
strákur
15
Hvenær má ég keyra bíl?
Komdu sæll
Ökunám getur hafist þegar krakkar hafa náð 16 ára aldri. Fyrsta skrefið í ökunáminu er að velja ökukennara og spyrja hann hvernig náminu sé háttað og um allt það sem nauðsynlegt að sé á hreinu áður en þú hefur námið. Mismunandi er hversu marga ökutíma nemandinn þarf en algengur tímafjöldi er á bilinu 19 - 24 tímar.
Á bóklegum námskeiðum eða í ökuskólum er farið yfir grundvallaratriði er snerta skilning á umferðinni, helstu umferðarreglur, umferðarmerki, umferðarsálfræði, verkefni unnin o.fl. Einnig er aðstoðað við undirbúning ökuprófs. Lengd námskeiða er 24 kennslustundir og er þeim gjarnan skipt í fyrri hluta (Ö1) og seinni hluta (Ö2). Ætlast er til að fyrri hlutinn sé tekinn fyrir æfingaaksturinn með leiðbeinanda og sá seinni áður en farið er í skriflega prófið.
Æfingaakstur (eða leiðbeinandaþjálfun) er í raun viðbótarþjálfun umfram kennslu ökukennarans. Ökukennari ákveður hvenær ökuneminn og leiðbeinandinn getið hafið æfingaakstur. Eftir æfingaaksturinn tekur ökukennarinn aftur við og undirbýr ökunemann fyrir ökuprófið.
Ökuprófið samanstendur af krossaprófi, munnlegu prófi og akstursprófi. Þegar ökuneminn hefur staðist allt þetta þá má hann fá ökuskírteini. Um það segir í umferðarlögum:
48. gr. Enginn má stjórna bifreið eða bifhjóli nema hann hafi til þess gilt ökuskírteini sem ríkislögreglustjórinn gefur út. Ökumaður skal hafa skírteinið meðferðis við akstur og sýna það, er löggæslumaður krefst þess. Ríkislögreglustjórinn getur falið sýslumönnum og lögreglustjórum að annast útgáfu ökuskírteina.
Veita má ökuskírteini þeim, sem:
a. er fullra 17 ára,
b. sér og heyrir nægilega vel og er að öðru leyti nægilega hæfur andlega og líkamlega, og
c. hefur hlotið kennslu löggilts ökukennara og sannað með prófi að hann hafi næga aksturshæfni og nauðsynlega þekkingu á ökutækinu og meðferð þess og umferðarlöggjöf.Neita má þeim um ökuskírteini, sem háður er notkun ávana- og fíkniefna eða annarra sljóvgandi efna eða er ekki nægilega reglusamur. Bera má ákvörðun um þetta undir dómstóla samkvæmt reglum 68. gr. a. almennra hegningarlaga.
Allar frekari upplýsingar um ökunám, ökuréttindi og umferðaröryggi færð þú hjá Umferðarstofu, .
Kær kveðja frá umboðsmanni barna