Hvað er kynferðisofbeldi?
Við höfum fengið nokkur erindi sem varðar kynferðisofbeldi þar sem spurt er um hvað sé kynferðislegt ofbeldi og hvað gerist ef hinn aðilinn upplifir það ekki sem ofbeldi.
Það eiga allir rétt á því að fá að hafa sinn líkama í friði og að fá sjálfir að velja, hvort einhver snertir mann. Það má enginn snerta mann án leyfis en börn eiga alls konar mannréttindi eins og t.d. réttinn til þess að fá vernd gegn öllum tegundum ofbeldis. Hér getur þú lesið meira um mannréttindi barna.
Á vefsíðunni 112.is er hægt að finna ýmsar upplýsingar um kynferðisofbeldi en þar kemur þetta meðal annars fram:
Kynferðisofbeldi er það þegar einhver fær þig til að gera eitthvað kynferðislegt sem þú vilt ekki gera, káfar á þér eða áreitir þig á kynferðislegan hátt.
Ef þú hefur orðið fyrir kynferðisofbeldi er alltaf best að tala við einhvern sem þú treystir, það getur t.d. verið foreldrar þínir, umsjónarkennari, skólahjúkrunarfræðingur, námsráðgjafi eða annar fullorðinn sem þú treystir vel. Þá geta börn og fullorðnir alltaf haft samband við 1717 (hjálparsíma Rauða krossins) eða haft samband við 112 í gegnum síma eða vefspjall.
Frekari upplýsingar um kynferðisofbeldi er einnig að finna á vefsíðunni Sjúkást.is. Þar hafa þau tekið saman nokkra punkta um hvað er kynferðislegt ofbeldi og hvað hægt er að gera ef þú hefur orðið fyrir kynferðisofbeldi.
Þá bendum við á Sjúkt spjall, sem er nafnlaust netspjall fyrir ungmenni af öllum kynjum yngri en 20 ára og vilja ræða meðal annars áhyggjur af samböndunum sínum, samskiptum eða ofbeldi. Þar eru starfandi ráðgjafar sem eru þjálfaðir af Stígamótum og veita aðstoð, stuðning og upplýsingar um ýmislegt sem tengist samskiptum og ofbeldi. Spjallið er algjörlega nafnlaust og á þínum forsendum.
- Vefsíða: https://sjukast.is/sjuktspjall/
Stígamót eru samtök sem veita meðal annars aðstoð fyrir fólk sem hefur verið beitt kynferðisofbeldi. Hins vegar taka þau ekki á móti börnum í viðtöl en þangað geta hins vegar allir allir geta leitað þangað eftir ráðgjöf. Nánari upplýsingar er að finna á vefsíðu Stígamóta.
Vonandi svarar þetta einhverju en ef þú telur þig hafa orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi er alltaf best að ræða sem fyrst við einhvern fullorðinn sem þú treystir og getur aðstoðað þig við næstu skref.