Hrædd við fósturföður
stelpa
16
mér líður illa að vera heima og finnst það óþæginlegt, aðalástæðan því ég er hrædd við fósturföður minn vegna mikilla rifrilda milli okkar á seinasta ári.
Hann hefur alveg síðan ég var lítil öskrað mikið og verið reiður, var nálægt því að lemja mig einu sinni, held það eina sem stoppaði hann var að hann vissi hvað gæti gerst ef hann hefði í alvöru gert það. Er þetta nóg ástæða til að gera eitthvað í málinu, eða ætti ég bara að reyna að vera vinur hans?
Ég veit hann er hættur að öskra á mig núna því þetta gerðist allt á seinasta ári en mér líður samt illa í kringum hann og er hrædd að vera skilin ein eftir í húsinu með honum.
Komdu sæl
Það er leiðinlegt að heyra hvað þér líður illa að vera heima hjá þér. Þú átt rétt á því að líða vel á þínu heimili og það er alveg ástæða til að gera eitthvað í málinu.
Það fyrsta sem að þú gætir gert er að ræða við mömmu þína í rólegheitunum og sagt henni hvernig þér líður. Það getur vel verið að hún gerir sér ekki grein fyrir því hvernig þér líður og með því að ræða málin saman væri hægt að finna lausn sem að hentar öllum. Hún gæti ef til vill rætt málin við fósturföður þinn. Ef þér finnst erfitt að tala við mömmu þína ættir þú að biðja einhvern sem þú treystir að vera viðstaddan þegar þið ræðið saman. Þú getur líka leitað til námsráðgjafa í skólanum þínum eða umsjónarkennara (ef þú ert í skóla) með ýmis konar persónuleg mál sem þig vantar ráðgjöf í.
Ef þetta virkar ekki þá gætir þú rætt við barnaverndarnefndina í þínu sveitarfélagi. Barnavernd aðstoðar fjölskyldur barna sem þola ofbeldi heima hjá sér eða búa við óviðunandi uppeldisaðstæður. Hér getur þú séð lista yfir barnaverndarnefndir.
Ef þér líður mjög illa getur þú líka hringt í Hjálparsíma Rauða krossins, 1717, sem er gjaldfrjáls sími og er opinn allan sólarhringinn fyrir þá sem þurfa aðstoð i ýmsum málum.
Ef að þú ert með frekari spurningar eða vilt ræða málin eitthvað frekar er þér velkomið að hringja í síma 800-5999 (gjaldfrjálst númer) og ræða við einhvern starfsmann umboðsmanns barna.
Gangi þér vel.
Kær kveðja frá umboðsmanni barna.