Heimilisstörf
Stelpa
15
Má foreldri hóta að þú fáir ekki kvöldmat heima og föt ef þú gerir ekki nógu oft heimilisstörfin?
Hæ hæ.
Í stuttu máli er svarið nei, foreldrar mega ekki hóta börnum og neita þeim um mat eða föt ef þau sinna ekki heimilisstörfum nógu vel.
Foreldrar bera ábyrgð á börnum sínum til 18 ára aldurs. Það þýðir meðal annars að foreldrar eiga að sjá börnum sínum fyrir mat, fötum, húsnæði og öðru sem er nauðsynlegt fyrir börnin. Foreldrar eiga líka að sýna börnum umhyggju og virðingu og vernda það fyrir hvers kyns andlegu og líkamlegu ofbeldi og annarri vanvirðandi háttsemi. Það þýðir meðal annars að foreldrar geta ekki neitað barni um mat eða fatnað enda er það hluti af okkar grunnþörfum.
Eftir því sem börn eldast og þroskast er eðlilegt að þau fái aukið svigrúm til þess að ráða ákveðnum hlutum sjálf en því fylgir jafnframt aukin ábyrgð. Það getur því verið eðlilegt að unglingar hjálpi til heima fyrir eins og að aðstoða við heimilisstörfin og fleira. Hins vegar á ekki að leggja of mikla ábyrgð á börn og unglinga. Auk þess er aldrei réttlætanlegt að hóta því að barn fái ekki mat eða fatnað ef það sinnir ekki heimilisstörfum.
Ég mæli með því að þú ræðir málin við foreldra þína og bendir þeim á þessi sjónarmið. Ef þér finnst þú hafa of mörg verkefni á heimilinu gæti verið gott að ræða það við foreldra þína í rólegheitum og þá getið þið vonandi komist að samkomulagi sem allir eru sáttir við.
Gangi þér vel!