Hávaði í foreldrum
Mega foreldrar hafa hávaða um kvöldinn svo maður getur ekki sofnað og kenni mér um að ég sef ekki nógu mikið og öskra á mig þegar ég bendi þeim á það að það er ekki gott.
Hæ.
Takk fyrir póstinn. Það er mikilvægt að foreldrar geti talað við börnin sín án þess að öskra, það eru ekki góð samskipti, og það líður engum vel með það að láta öskra á sig. Maður á að geta bent fjölskyldunni sinni á svona hluti þannig að það sé hlustað á mann og tekið mark á því sem maður er að segja og manni sé sýndur skilningur. Þannig að það er að sjálfsögðu ekki gott að samskiptin séu svona. Það er líka mjög mikilvægt að börn og unglingar fái nægan svefn og hvíld, þannig að þau hafi orku fyrir skólann, tómstundir, vini og fjölskyldu. Foreldrar eiga auðvitað að leyfa börnum að sofa og hvílast, jafnvel þó svo að það þýði að foreldrar þurfi að hafa hljótt á kvöldin.
Er kannski einhver sem gæti aðstoðað þig við að ræða við foreldra þína um þessa hluti, það er oft gott að hafa einhvern fullorðinn með sér þegar maður þarf að ræða við foreldra um svona hluti, kannski áttu góða ömmu eða afa, frænku eða frænda, fjölskylduvin eða einhvern annan, sem þú treystir og sem gæti hjálpað þér að ræða við foreldra þína í rólegumheitum, svo að þú getir sagt þeim að þú þurfir að fá svefnfrið og að þú verðir að geta talað við þau, án þess að þau öskri á þig, því það láti þér líða illa.
Hafðu endilega samband við okkur aftur ef þú vilt og gangi þér sem allra best.
Kær kveðja frá skrifstofu umboðsmanns barna