Getur pabbi neytt mig í meðferð?
stelpa
16
Getur pabbi minn neytt mig í meðferð? Hann er sannfærður um það að ég sé orðin háð grasi en ég er það alls ekki og reyki það mér bara til skemmtunar en ekki af því að það er til þess að svala einhverri langþráðri löngun. Getur hann neytt mig í meðferð ef þetta er ekki neitt svakalegt vandamál?
Komdu sæl
Það er mjög skaðlegt fyrir þig að reykja gras, þó þú gerir það bara þér til skemmtunar. Þó þú sért kannski ekki orðin háð grasi núna er mikil hætta á að þú verðir háð því ef þú heldur áfram neyslu. Heilinn á þér er enn að þroskast og hafa öll vímuefni því alvarleg og neikvæð áhrif á andlega og líkamlega heilsu þína og þroska. Er því eðlilegt að pabbi þinn hafi áhyggjur af því að þú sért að reykja kannabis og vilji gera allt sem hann getur til að hjálpa þér að hætta .
Hér eru nokkrir linkar ef þú vilt kynna þér áhrif kannabis á heilsu.
En hérna er svarið við spurningu þinni:
Þar sem foreldrar þínir bera ábyrgð á velferð þinni til 18 ára aldurs geta þeir sett ákveðnar reglur á heimilinu. Pabbi þinn getur því, í samráði við barnaverndarnefnd, ákveðið að ákveðin meðferð skuli fara fram innan heimilisins.
Þar sem þú ert orðin 16 ára þarft þú hins vegar almennt að veita samþykki þitt fyrir meðferð utan heimilis, t.d. á meðferðarheimili. Ef það er hins vegar talið að þú sért að stefna heilsu þinni í verulega hættu með neyslu þinni getur barnavernd þó úrskurðað um að það eigi að vista þig á meðferðarheimili gegn vilja þínum. Áður en slík ákvörðun yrði tekin ættir þú alltaf rétt á að segja skoðun þína og það ætti að taka tillit til hennar í samræmi við aldur þinn og þroska.
Umboðsmaður barna mælir með því að þú ræðir við pabba þinn og heyrir hvað hann hefur að segja. Kannski getið þið komist að samkomulagi um að þú fáir einhverja aðstoð, án þess að þurfa að fara á meðferðarheimili.
Að lokum:
Það er hægt að gera svo rosalega margt sér til skemmtunar annað en að reykja hættuleg vímuefni. Umboðsmaður vonar að þú sjáir hvað þú sjálf græðir mikið á því að hætta að reykja gras og finnir þér aðrar leiðir til að skemmta þér. Það er margt í boði. Þú getur skoðað hvað hentar þér best í samráði við pabba þinn.
Ef þú vilt ræða málið nánar skaltu endilega hringja í síma 800-5999 (gjaldfrjálst).
Gangi þér vel!
Kær kveðja frá umboðsmanni barna