Forsjárhyggja og foreldravald
strákur
15
Mér finnst að lögin eiga ekki að ráða hvenær maður fer heim til sín, það ætti bara að vera foreldrar sem ráða því og ef maður vill ekki vera hjálm þá ætti maður bara að ráða því sjálf(ur)... Kannski bara að segja manni frá áhættunni um að vera ekki með hjálm í skólum og leyfa manni að ráða sjálfur. Ég ætti að ráða hvort ég setji hjálm á hausinn á mér þótt hjálmurinn getur varið mig frá varanlegum skaða eða dauða... Það þarf alltaf að setja lög um það sem tengist unglingum og börnum. Örugglega af því fólkið sem gerir lögin heldur að maður geti ekki passað sig sjálfur... Og afhverju eru barnaverndarlög? Afhverju eru ekki sömu lög fyrir alla?
Komdu sæll
Foreldrar eða þeir sem fara með forsjá barna bera ábyrgð á velferð þeirra til 18 ára aldurs. Í því felst mikil ábyrgð. Almennt er talið að foreldrar hafi rétt til að ákveða hvers konar uppeldi þeir veita börnum sínum og að of mikil íhlutun í málefni þeirra geti verið andstæð grundvallarreglum um sjálfsákvörðunarrétt einstaklings og friðhelgi einkalífs, sbr. 71. gr. stjórnarskrárinnar. Þú nefnir útivistartímann og hjálmnotkun sem dæmi um lagareglur þar sem þú telur forsjárhyggju stjórnvalda vera of mikil.
Eins og Barnasáttmálinn gerir ráð fyrir er mikilvægt að það sé viðurkennt að börn séu þjóðfélagshópur sem þurfi sérstaka vernd umfram hina fullorðnu.
Í 3. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar segir jafnframt: „Börnum skal tryggð í lögum sú vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst.”
Flestir eru sammála því að mikilvæga stoð og jafnframt aðhald fyrir foreldra sé að finna í ákvæðum, laga eins og t.d. barnaverndarlaga þar sem ákvæðið um útivistartímann er að finna, og umferðarlaga* þar sem segir að hjólreiðarmenn skuli vera með hjálm. Þessar reglur eru settar til að vernda fólk en ekki bara til að vera íþyngjandi fyrir börn og foreldra. Lögin eru ekki sett bara út í bláinn heldur byggja þau á rannsóknum og oft áratuga reynslu.
Þess ber að geta að lög sem sett eru til verndar fólki eiga ekki bara við um börn og unglinga. Umferðarlög eiga t.d. við alla í umferðinni, fullorðna sem börn. Einnig má nefna almenn hegningarlög sem virka kannski mjög íþyngjandi fyrir þá sem eru hneigðir að glæpum en þau eru líka mjög mikilvæg vernd fyrir hinn almenna borgara.
Auk verndar og umhyggju eiga börn auðvitað líka rétt á þátttöku í samfélaginu og að fá að segja sínar skoðanir og að það sé tekið tillit til þeirra í samræmi við aldur og þroska. Þessi réttur er m.a. tryggður í barnalögum (28. gr.), barnaverndarlögum (23., 25., 43. og 46. gr.), grunnskólalögum (17. gr.), lögum um réttindi sjúklinga (26. gr.) o.fl.
Kær kveðja frá umboðsmanni barna.
*Á grundvelli 72a. gr. umferðarlaga setti dómsmálaráðherra reglur nr. 631/1999 um notkun hlífðarhjálms við hjólreiðar barna.