Foreldrar öskra og lemja mann
Komdu sæll
Svarið er einfalt: Nei, það er ekki í lagi að foreldrar öskri á börn sín og lemji þau, alveg sama hversu slæm mistök börnin hafi gert. Það kallast ofbeldi og það má ekki undir neinum kringumstæðum beita börn ofbeldi. Samkvæmt barnalögum (28. grein) eiga foreldrar að vernda börn sín gegn líkamlegu og andlegu ofbeldi og annarri vanvirðandi háttsemi. Í því felst að sjálfsögðu að foreldrar mega ekki beita börn sín ofbeldi.
Stundum þurfa foreldrar að segja börnum sínum til, t.d. ef þau hafa gert eitthvað af sér eða vilja ekki hlýða. Það er gert til þess að börnin geri sér grein fyrir mistökum sínum og læri af þeim. En það á að koma fram við börn og unglinga af virðingu og það á ekki að öskra á þau. Það er nú stundum þannig að þegar fólki líður illa, þá bitnar það á öllum í kringum þá. Hræðsla og áhyggjur brjótast oft út í reiði. Ef foreldrar vita ekki hvar þú ert eða hvort allt er í lagi með þig, er eðlilegt að þeir séu áhyggjufullir og pirraðir. Foreldrar eru ekki endilega sérfræðingar í samskiptum.
Það mikilvægasta er því að þú látir foreldra þína vita hvernig þér líður vegna þessa. Það er alls ekki víst að þau geri sér grein fyrir því. Ef þú vilt ættir þú að leita til einhvers fullorðins sem þú treystir og biðja hann um að vera með þér þegar þú segir frá þessu. Ef ástandi breytist ekki við það að ræða málin þá getur þú líka rætt þetta við starfsfólk skólans þíns, t.d. umsjónarkennara (en umsjónarkennarar eiga að aðstoða nemendur með ýmis persónuleg mál jafnt sem það sem snýr að náminu), námsráðgjafa eða hjúkrunarfræðing.
Ef foreldrar þínir öskra oft á þig og lemja þig, þá þurfa þau líklega einhvers konar aðstoð við uppeldið. Barnaverndarnefnd hjálpar börnum sem búa við ofbeldi og vanrækslu og fjölskyldum þeirra. Þú getur sjálfur hringt í starfsmann barnaverndarnefndarinnar (t.d. með því að hringja í síma 112) og beðið hann að kanna aðstæðurnar heima hjá þér. Ef foreldrar þínir beita þig ofbeldi, á starfsfólk skólans sem verður þess vart að hafa samband við barnaverndarnefnd.
Kær kveðja frá umboðsmanni barna