Foreldra hóta að taka tæki ef einkunnir eru ekki góðar
Stelpa
14
Meiga foreldrar hóta að taka síma/tölvur/heyrnatól og fleira ef ég fæ ekki góðar einkannir á vorprófi? Ég viðurkenni að ég er ekki búin að vera dugleg að læra en það er vegna þess að mér líður mjög illa en ég vil ekki segja foreldrum mínum það því þau eru vandamálið! Mér finnst þau heldur ekki standa við bakið á mér. Alltaf ef ég segji mína skoðun og hún er ekki eins og þeirra þá rífast þau við mig og gera lítið úr minni skoðun!! Er þetta eðlileg hefðun a foreldrum? Eru allir foreldrar svona leiðinlegir?
Hæ hæ.
Það er leitt að heyra hvað þér líður illa. Foreldrar bera ábyrgð á börnunum sínum til 18 ára aldurs en foreldrar og börn eiga að koma vel fram við hvort annað og sýna hvort öðru virðingu. Foreldrar geta sett reglur á heimilinu sem börnum ber að fara eftir en foreldrar eiga líka að hlusta á börnin sín og taka tillit til skoðana þeirra. Það er mikilvægt að til að samskiptin á heimilinu gangi vel að láta vita ef þér líður illa með eitthvað á heimilinu. Það væri því best fyrir þig að ræða við foreldra þína og segja þeim frá hvernig þér líður því það er ekkert endilega víst að þau geri sér grein fyrir líðan þinni. Í framhaldinu gætu þið reynt að komast að samkomulagi sem allir eru sáttir við.
Ef þú villt ekki tala einn við foreldra þína þá gæti verið gott að vera búinn að ræða við einhvern annan fullorðinn sem þú treystir og getur verið með þér að tala við foreldra þína. Það gæti til dæmis verið amma þín eða afi, frænka eða frændi eða einhver annar sem þú treystir og gæti aðstoðað þig.
Stundum ef samskiptin eru orðin erfið og fólki líður illa á heimilinu og geta ekki leyst málin sjálf getur verið gott að fá hjálp frá einhverjum öðrum. Í mörgum sveitarfélögum er í boði fjölskylduráðgjöf þar sem fjölskyldum er hjálpað með samskipti á heimilinu og hvernig gott er að tala við hvort annað.
Foreldrar þínir ættu almennt ekki að taka af þér tæki og tól sem þú átt. Hér erum við að tala um hluti sem þú hefur fengið að gjöf eða þú hefur keypt þér sjálfur. Foreldrar þínir bera samt ábyrgð á þér og eiga að hugsa um það sem er best fyrir þig. Stundum eiga börn erfitt með að hafa stjórn á tölvu- og netnotkun þannig að þau eru kannski marga klukkutíma að horfa á þætti, myndbönd eða spila leiki og eru þá stundum farin að missa tengslin við vini, standa sig illa í skólanum, sofa ekki á nóttunni eða hugsa illa um sig sjálf. Ef svo er í þínu tilviki mega foreldrar þínir takmarka aðgang þinn að þessum tækjum.
Við vonum að þetta svari þér einhverju en þér er alltaf velkomið að hafa samband aftur með því að svara þessum pósti eða hringja í okkur í síma 800-5999 (gjaldfrjálst númer). Við viljum einnig benda þér á vefsíðuna Áttavitinn en þar er hægt að senda spurningar um allt sem brennur á ungu fólki og fá ráðgjöf.
Gangi þér vel.
Kær kveðja frá umboðsmanni barna