Fermingarpeningar
Má pabbi taka allan fermingarpeninginn og setja inná bók án þess að ég samþykki?
Nú er ég að fara að fermast og ætla foreldrar mínir að halda sitthvora veisluna. Ég bý hjá/á lögheimili hjá mömmu en þau eru með sameiginlegt forræði. Pabbi er búinn að hóta því að hann ætli að taka allar fermingargjafirnar mínar sem ég fæ frá hans fjölskyldu og allan peninginn og leggja inn á læstan reikning.
Nú langaði mig að kaupa mér tölvu eftir fermingu og leggja rest inn á bók.
Mig langar því að spyrja, þar sem þessir peningar eru gjöf til mín, má pabbi taka allan peninginn og setja inná bók án þess að ég samþykki?
Sæll.
Börn eiga rétt á því að ráða yfir þeim peningum sem þau vinna sér inn sjálf eða fá að gjöf. Þó það sé alltaf gott að hlusta á ráðleggingar foreldra er lokaákvörðunin um það hvernig börn fara með sjálfsaflafé (það sem þau vinna sér inn sjálf eða gjafir) hjá börnunum sjálfum, nema um sé að ræða mikla fjármuni (meira en 500 þúsund krónur) eða ef barnið fer mjög illa með peningana. Þetta stendur í lögum.
Börn eru ófjárráða upp að 18 ára aldri og er meginreglan því sú að þau ráða ekki yfir fé sínu. Þó er að finna undantekningar frá þessari reglu í 75. gr. lögræðislaga. Börn ráða nefnilega sjálf yfir peningum sem þau hafa unnið sér fyrir eða fengið að gjöf, þ.m.t. peningar sem fermingarbörn fá að gjöf. Sá sem gefur þér gjöf getur gert það með ákveðnum skilyrðum, t.d. þannig að peningar skuli lagðir inn á bankabók til 18 ára aldurs eða bundið gjöfina skilyrði um að kaupa skuli ákveðinn hlut eða hluti.
Gangi þér vel.