Ferð til útlanda án foreldra
stelpa
16
Ég er 16 ára stelpa og verð 17 í júlí á þessu ári... Mér og kærastanum mínum (hann er að verða 17 líka) langar svo til útlanda... Ef leyfi foreldra er fyrir hendi megum við þá panta okkur ferð t.d. til sólarlanda og fara í hana án neins forráðarmanns?
Komdu sæl
Það er ekkert í lögum sem bannar börnum yngri en 18 ára að kaupa ferðir til útlanda.
Í 28. gr. barnalaga nr. 76/2003 segir m.a. að forsjá barns feli í sér rétt og skyldu fyrir forsjáraðila til að ráða persónulegum högum barnsins og gegna öðrum foreldraskyldum. Það að ráða dvalarstað barnsins er m.a. talið felast í því að ráða persónulegum högum þess og verður því að teljast eðlilegt að haft sé samráð við foreldra eða aðra forráðamenn, þegar börnum undir 18 ára aldri eru seldir farmiðar til útlanda.
Ef foreldrar ykkar beggja leyfa ykkur til að fara ein til útlanda ætti ekki að vera neitt því til fyrirstöðu að þið gerðuð það ef þið treystið ykkur til þess sjálf og gerið ykkur grein fyrir þeim hættum sem hugsanlega verða á vegi ykkar í ferðinni. Það eru foreldrar ykkar sem ráða þessu.
Kveðja frá umboðsmanni barna