Erfitt skap
strákur
13
Ég á í erfileikum með að stjórna skapinu. Getur þú hjálpað mér?
Komdu sæll
Það er gott hjá þér að leita til umboðsmanns barna með vandamál þitt. Því miður getur hann ekki hjálpað þér með þetta en vill benda þér á að tala um þetta við foreldra þína. Kannski þarft þú á aðstoð fagfólks að halda, t.d. sálfræðings. Það er fullt af krökkum sem fara reglulega til sálfræðings í lengri eða skemmri tíma, t.d. þegar þeir hafa gengið í gegn um erfitt tímabil eins og t.d. skilnað foreldra, flutning, veikindi eða aðra erfiðleika heima hjá sér.
Foreldrar þínir geta t.d. haft samband við félagsþjónustuna þar sem þið búið og beðið fólkið þar um að hjálpa ykkur eða benda á einhvern sem getur hjálpað. Einnig geta þau leitað til skólans þíns og athugað hvort skólasálfræðingurinn eða annar fagmaður geti aðstoðað í þessu máli.
Þú skalt endilega treysta foreldrum þínum til að hjálpa þér. Þau bera ábyrgð á velferð þinni og þurfa að vita hvað er í gangi hjá þér. Ef þér finnst erfitt að ræða þetta við foreldra þína vill umboðsmaður benda þér á að tala við námsráðgjafann í skólanum ef hann er til staðar eða hjúkrunarfræðinginn.
Þú ert greinilega klár strákur og kemur auga á hvert vandamál þitt er og vilt bæta þig. Þú sýnir mikið hugrekki að leita þér aðstoðar.
Gangi þér sem allra best.
Kær kveðja frá umboðsmanni barna.