Er vinkona sem reykir og drekkur slæmur félagsskapur?
stelpa
14
Foreldrar mínum finnst ein mjög góð vinkona min vera slæmur félagskapur. Hún reykir og drekkur en hún er mjög góð og skemmtileg. Málið er að mér finst hún ekki slæmur félagskapur, mamma segir að hún getur komið mér inni reykingar og drykkju er það satt?
Komdu sæl
Þú spyrð hvort vinkona þín geti haft þau áhrif á þig að þú byrjir að reykja og drekka. Því getur enginn svarað fyrir víst en vissulega er það viðurkennd staðreynd að vinahópurinn er stór áhrifavaldur á unglinga.
Það er algengt að foreldrar og unglingar séu ekki sammála um áhrif vina og vinkvenna. Það er vel skiljanlegt að þau hafi áhyggjur af þér ef þú ert mikið að umgangast þessa vinkonu þína þó að hún sé góð manneskja. Þau vilja þér örugglega allt hið besta.
Það er mjög misjafnt hve sterkir unglingar eru og hversu vel þeir þeir standast álag og þrýsting frá jafnöldrum og það er kannski erfitt fyrir foreldra að treysta loforðum og fögrum fyrirheitum barna sinna þrátt fyrir góðan vilja.
Í barnalögum nr. 76/2003 er fjallað um forsjárskyldur foreldra í 28. grein. Þar segir m.a:
Forsjá barns felur í sér rétt og skyldu fyrir foreldri til að ráða persónulegum högum barns og ákveða búsetustað þess. Forsjárforeldri fer enn fremur með lögformlegt fyrirsvar barns.
...
Foreldrum ber að hafa samráð við barn sitt áður en málefnum þess er ráðið til lykta eftir því sem aldur og þroski barnsins gefur tilefni til. Skal afstaða barns fá aukið vægi eftir því sem barnið eldist og þroskast.
Það sem líklega er best að gera í stöðunni er að þú setjist niður með foreldrum þínum og þið ræðið málin. E.t.v. er möguleiki á að gera einhvers konar málamiðlun. Kannski myndi það hjálpa ef foreldrar þínir fengju að kynnast vinkonu þinni betur. Foreldrar þínir eiga að sjálfsögðu að taka réttmætt tillit til skoðanna þinna en þau eiga samt lokaorðið.
Gangi þér vel.
Kær kveðja frá umboðsmanni barna