Er að missa vini mína vegna vímuefnaneyslu minnar
stelpa
16
Hæhæ .. ég er í menntaskóla allt gengur vel en málið er ég á bestu vini sem hægt er að hugsa sér en núna er ég að flækjast inní allt annan félagshóp. Ég er byrjuð að vera aftur .. með fóki í dópi og núna er ég búin að falla. Ég var buin að vera edrú í 3 mánuði, bara reykja gras og svona en núna er þetta orðið alvarlegra og ég komin i sterkari efni en ég hafði áður verið í .. Þannig núna eru yndislegu vinirnir minir að fara frá mér útaf því þeir vilja ekki vera með svona ógeðslegri manneskju sem er á e-töflum og eitthvað en ég er svo hrædd að geta ekki hætt. Ég byrjaði i 8 bekk og núna er ég í 1. í menntó og er enn að þessu rugli. Geturu hjálpa? Kveðja,
Stelpan sem er góð í að missa vini sína
Komdu sæl
Mikið er gott að þú skulir vilja leita þér hjálpar. Þú átt rétt á aðstoð og stuðningi til að koma þér á réttan kjöl. Það eru ýmsar leiðir í boði en áður en þú leitar lengra vill umboðsmaður mæla með því að þú setjist niður með foreldrum þínum og leggir spilin á borðið. Þau bera ábyrgð á velferð þinni og eru í bestri stöðu til að hjálpa þér og beita sér fyrir þig. Ef þú einhverra hluta vegna treystir ekki foreldrum þínum til að taka þér vel getur þú að sjálfsögðu leitað þér hjálpar ein eða með stuðningi einhvers annars fullorðins sem vill þér vel. Hér að neðan eru taldir upp nokkrir kostir sem þú getur skoðað.
-
SÁÁ - Samtök áhugafólks um áfengisvandann
SÁÁ eru fjölmenn almannasamtök. Á heimasíðu þeirra, www.saa.is, er að finna upplýsingar um meðferðarúrræði. -
Barnaverndin
Barn sem byrjað er misnota áfengi, tóbak eða er orðið háð fíkniefnum þarf á aðstoð samfélagsins að halda. Hér er listi yfir barnaverndarnefndir landsins og upplýsingar hvernig er best að ná í starfsmenn þeirra. -
Heilsugæslustöðvar
Þú getur hringt í hjúkrunarfræðing hjá heilsugæslunni í þínu hverfi/bæjarfélagi eða komið á staðinn og fengið ókeypis ráðjöf. Athugaðu hvaða þjónusta er í boði fyrir börn og unglinga á heilsugæslustöðinni þinni. -
Hjálparsími Rauða krossins, 1717
Hjálparsíminn 1717 er gjaldfrjáls og er opinn allan sólarhringinn fyrir þá sem þurfa aðstoð vegna depurðar, kvíða, þunglyndis, eða sjálfsvígshugsana. -
Starfsfólk skólans
Í menntaskólanum þínum er líklega starfandi nám- og starfsráðgjafi eða félagsráðgjafi. Þú getur leitað til hans með alls konar mál, s.s. vinavandamál og vímuefni. -
Tótalráðgjöfin
Tótalráðgjöfin er ætluð ungu fólki sem vantar aðstoð og ráðgjöf fagfólks til að leysa úr alls kyns vandamálum. Hægt er að hringja í síma 520 4600, koma (í Hitt húsið, Pósthússtræti í Reykjavík) eða senda tölvupóst á totalradgjof@totalradgjof.is. Allar nánari upplýsingar er að finna á heimasíðunni www.totalradgjof.is.
Gangi þér vel og mundu að treysta á sjálfa þig. Taktu ábyrgð á sjálfri sér og hugsaðu málið út frá þínum forsendum. Þeir sem treysta og trúa á sjálfa sig eru líklegri til að standast hópþrýsing og taka skynsamlegar ákvarðanir.
Kær kveðja frá umboðsmanni barna