Einelti í skóla og gagnrýnin vinkona
Komdu sæl
Já, að sjálfsögðu leggst það á sálina að fá sífelldar niðrandi athugasemdir um sjálfan sig. Það er hins vegar gott að þú skilur eðli málsins – það er ekkert að þér – heldur er það strákurinn sem leggur þig í einelti sem þarf að hugsa sinn gang. Þið þurfið bæði aðstoð.
Fyrst og fremst skalt þú reyna að fá foreldra þína til að setjast niður með þér og láta þá vita hvernig þér líður og að þú viljir fá aðstoð þeirra til að binda endi á eineltið. Þú (og foreldrar þínir) eigið að geta talað við umsjónarkennarann þinn og námsráðgjafann um svona persónuleg mál. Þeir geta tekið á eineltinu í samræmi við eineltisáætlun skólans. Allir skólar eiga að vera með eineltisáætlun. Flestir vinna eftir Olweusaráætluninni svokölluðu. Framkvæmdastjóri Olwesuarverkefnisins á Íslandi er Þorlákur H. Helgason. Hægt er að hafa samband við Þorlák í síma 894 2098 eða með því að senda tölvupóst á thorlakur@khi.is. Þeir sem hafa reynslu af einelti og líður illa í skólanum geta haft samband við hann. Einnig getur þú haft samband við ráðgjafa hjá Regnbogabörnum. Netfangið er jonpall@regnbogaborn.is og símanúmerið er 545 0100 eða 862 1105. Hér í Vegvísi er undirsíða um einelti með ýmsum fróðleik og upplýsingum um aðila sem geta aðstoðað þá sem hafa reynslu af því.
Þegar þér líður illa og finnst enginn skilja þig eða hlusta á þig getur þú svo alltaf hringt í hjálparsíma Rauða krossins 1717. Það kostar ekkert og það er svarað í hann allan sólarhringinn.
Gangi þér vel.
Kær kveðja frá umboðsmanni barna