Ein í fóstureyðingu 15 ára?
strákur
15
Má stelpa sem er alveg að verða 15 ára fara í fóstureyðingu án þess að foreldrar viti af því?
Uppfært í apríl 2024...
Breyting var lögum um þungunarrof árið 2019 og því á þetta svar um fóstureyðingu (þungunarrof) ekki við lengur.
Komdu sæll
Nei, stelpa sem er alveg að verða 15 ára getur almennt ekki farið í fóstureyðingu án þess að foreldrar hennar viti af því.
Í lögum um fóstureyðingar kemur fram að foreldrar eða forsjáraðilar þurfi að taka þátt í umsókn í fóstureyðingu með stúlku sem er yngri en 16 ára, nema sérstakar ástæður mæli gegn því. Þessar sérstöku ástæður geta til dæmis átt við ef það er ástæða til að halda að það geti verið mjög skaðlegt fyrir stelpuna að foreldrar hennar fái vitneskju um að hún sé ólétt.
Þó að foreldrar þurfi yfirleitt að vita af fóstureyðingu hjá stelpum sem eru ekki orðnar 16 ára telur umboðsmaður barna að lokaákvörðunin um það hvort hún fari í fóstureyðingu eða ekki eigi alltaf að vera hjá henni sjálfri.
Umboðsmaður barna mælir yfirleitt með því að stúlka sem heldur að hún sé ólétt tali við foreldra sína og fái aðstoð og leiðbeiningar hjá þeim. Ef hún treystir sér ekki til þess getur líka verið gott að ræða við einhvern annan fullorðinn sem hún treystir, til dæmis skólahjúkrunarfræðing.
Á Kvennasviði Landspítala — háskólasjúkrahúss starfa félagsráðgjafar sem veita símaráðgjöf alla virka daga kl. 9:00–10:00. Félagsráðgjafarnir veita fræðslu, stuðning og ráðgjöf varðandi þunganir, fóstureyðingar, kvensjúkdóma og félagsleg réttindi. Símanúmerið er 543–3600. Eftir kl. 10 er hægt að skilja eftir skilaboð í talhólfi. Hér á heimasíðu umboðsmanns barna má finna umfjöllun um kynlíf og sambönd, en þar er meðal annars að finna upplýsingar um hvert er hægt að leita til að fá nánari upplýsingar og ráðgjöf.
Endilega hafðu samband í síma 800-5999 (gjaldfrjálst) ef þú vilt frá frekari upplýsingar eða ert með fleiri spurningar.
Kær kveðja frá umboðsmanni barna