Ég og vinkona mín lentum í rifrildi
Stelpa
12
vinkona mín og ég lentum í smá rifrildi. við fórum til skólastjórans að reyna laga þetta því við töluðum ekki við hvor aðra. þegar við vorum þar sagði hún markt leiðinlegt. t.d. að ég væri leiðinleg við hana og pirrandi. það særði mig því að ég er frekar viðkvæm persóna. svo talaði kennarinn okkur um þetta og við ''leystum þetta'' ég er ennþá mjög sár og langar ekki að tala við hana. ég hef verið að berjast líka við kvíða og fynst ég stressast meira upp fyrir skólanum og öllu því útaf þessu. hvað á ég að gera?
Hæ hæ.
Það er alls ekki gott að þú finnir fyrir kvíða fyrir skólanum en það er gott hjá þér að leita þér aðstoðar. Það er ekki skemmtilegt að lenda í rifrildi við vinkonu sína. Í öllum samskiptum geta hins vegar komið upp snúin vandamál sem eru oftast vegna einhvers misskilning og í vináttu kynnist maður því að verða stundum fyrir vonbrigðum. Maður kynnist því hins vegar líka að jafna sig fljótt eftir vonbrigði og misskilning og að vinir sættast aftur.
Það er gott að þið rædduð við skólastjórann eftir að þið vinkonurnar rifust og líka gott að þið hafið náð að leysa málin ykkar á milli. Það er hins vegar leitt að heyra að þú sért ennþá sár út í vinkonu þína og langi ekki að tala við hana. Yfirleitt er alltaf besta leiðin til að leysa slík vandamál sú að ræða saman. Þú segir að kennarinn hafi líka rætt við ykkur og þið leyst málin en ef til vill var það ekki alveg nóg.
Ég mæli með því að þú ráðfærir þig við einhvern sem þú treystir og segir frá því hvernig þér líður, t.d. mömmu þína eða pabba. Þú skalt treysta því að þau hlusti á þig og leiðbeini þér. Svo gæti verið gott fyrir þig að ræða við einhvern sem þú treystir í skólanum og óska eftir aðstoð t.d. umsjónarkennara, námsráðgjafa eða skólahjúkrunarfræðing. Þessir aðilar geta líka vonandi hjálpað þér og vinkonu þinni að bæta samskiptin. Það er hægt að komast ansi langt með því að tala saman og komast að einhverju samkomulagi um að bæta samskiptin.
Gangi þér vel!
Kær kveðja frá umboðsmanni barna