Búið að henda mér út
strákur
15
Hvað get ég gert ef það er búið að henda mér út?
Komdu sæll
Í forsjá foreldra felst skylda þeirra til að tryggja bæði efnalega og andlega velferð barna sinna.
Foreldrum ber að sjá til þess að barn þeirra hafi fullnægjandi húsaskjól, fæði og klæði og að það búi almennt við þroskavænleg skilyrði. Þá ber foreldrum að annast barn sitt og sýna því umhyggju og virðingu og vernda það fyrir hvers kyns andlegu og líkamlegu ofbeldi og annarri vanvirðandi háttsemi. Í uppeldinu eiga foreldrar alltaf að hugsa um hagsmuni og þarfir barns síns og sýna því umhyggju og nærfærni.
Þó að sjálfræði barna aukist smám saman þangað til þau verða lögráða 18 ára þá ber börnum á unglingsaldri að fara eftir reglum heimilisins varðandi umgengni og samskipti. Best er auðvitað þegar börn og foreldrar geta verið sammála um þær reglur sem gilda á heimilinu.
Ef, af einhverjum ástæðum, þessi samvinna barna og foreldra gengur illa eða aðstæður eru ekki taldar boðlegar fyrir barnið þá getur barnaverndin komið að málum og hjálpað til. Fyrst með því að veita ráðgjöf og stuðning og ef það dugar ekki til þá finnur barnaverndin annað heimili fyrir börnin.
Hafðu endilega samband við barnaverndina þar sem þú býrð eða hafðu samband við umboðsmann barna á netfangið ub@barn.is og gefðu upp nafn, heimilisfang og segðu frá aðstæðum þínum og við tölum við barnaverndina.
Svo mælir umboðsmaður með því að þú reynir að hafa samband við einhvern annan fullorðinn sem þú treystir, t.d. námsráðgjafann í skólanum, kennara, fjölskylduvin, ættingja eða prest. Þú þarft að hafa einhvern fullorðinn til að ræða málin við og halla þér að.
Gangi þér vel.
Kær kveðja frá umboðsmanni barna