Bannað að gista með kærasta
strákur
17
Halló Mega foreldrar mínir banna mér að gista með kærastanum mínum þegar ég er alveg að verða 17 ára. Þau btw leyfðu bróðir mínum að gista með kærustunni sinni þegar hann var jafn gamall og ég er núna. En af því að ég er hommi þá leyfa þau mér það ekki. Má það?!?
Komdu sæll
Foreldrar fara með forsjá barna sinna til 18 ára aldurs. Í því felst meðal annars að foreldrar ráða persónulegum högum barna sinna, svo sem dvalarstað. Foreldrar eiga því lokaorðið um það hvort börn þeirra mega gista annars staðar en heima hjá sér. Foreldrar eiga þó að hlusta á börnin sín og skoðanir þeirra eiga að fá meira vægi eftir því sem börnin eldast og þroskast.
Þar sem þú ert að verða 17 ára átt þú að ráða mestu um þitt eigið líf. Þú átt því sjálfur að ráða því hverja þú umgengst og hverjum þú tengist nánum tilfinningaböndum. Foreldrar þínir geta því ekki skipt sér af sambandi þínu við kærasta þinn, nema þeir hafi einhverja ástæðu til að halda að sambandið stefni velferð þinni í hættu (t.d. ef hann er miklu eldri eða í neyslu). Þar sem þú býrð ennþá hjá foreldrum þínum þarft þú samt sem áður að virða þær reglur sem gilda á heimilinu. Á það meðal annars við um þá reglu að kærasti þinn (eða vinir/vinkonur) megi ekki gista hjá þér.
Þó að foreldrar þínir eigi lokaorðið um það hvar þú mátt gista og hver megi gista hjá þér er þeim sem fyrr segir skylt að virða skoðanir þínar og taka tillit til þeirra áður en þeir setja reglur um þessi mál. Reglurnar eiga einnig að vera sanngjarnar og taka mið af hagsmunum þínum. Foreldrum ber að leitast við að gæta jafnræðis milli barna sinna og er því ekki rétt að mati umboðsmanns barna að aðrar reglur gildi fyrir þig en bróður þinn, einungis vegna þess að þú ert samkynhneigður. Hins vegar geta stundum verið málefnalegar ástæður sem réttlæta mismunandi reglur fyrir systkini, til dæmis ef aðstæður þeirra eru ólíkar. Þannig geta foreldrar til dæmis litið til þess hversu lengi samband er búið að vara áður en þeir ákveða hvort kærasti eða kærasta megi gista.
Ef þér finnst foreldrar þínir koma öðruvísi fram við þig vegna þess að þú ert samkynhneigður eða þér finnst þau sýna fordóma með öðrum hætti gæti verið góð hugmynd að leita til ráðgjafa hjá Samtökunum 78. Samtökin bjóða meðal annars upp á fjölskylduviðtöl, sjá nánar hér.
Endilega hafðu samband í síma 800-5999 (gjaldfrjálst) ef þú þarft frekari aðstoð eða ert með fleiri spurningar.
Gangi þér vel!
Kær kveðja frá umboðsmanni barna