Átröskun og hegðunarvandamál
stelpa
12
Ég var að spá í hvort það væri staður fyrir krakka á mínum aldri til að vinna í vandamálum eins og átröskunum eða hegðunarvandamálum?
Komdu sæl.
Umboðsmaður barna vill byrja á því að segja að það er mjög gott hjá þér að leita aðstoðar. Það er mikilvægt að vinna sem fyrst í þessum málum því að átröskun getur verið mjög hættulegur sjúkdómur ef ekkert er gert. Einnig geta hegðunarvandamál haft alvarlegar afleiðingar ef ekki er unnið með þau.
Best væri fyrir þig að ræða við foreldra þína um þessi vandamál þar sem nauðsynlegt er að hafa stuðning þeirra í svona málum. Einnig gætir þú sjálf leitað til skólahjúkrunarfræðingsins í skólanum þínum. Hún gæti ef til vill hjálpað þér að ræða við foreldra þína ef þú átt erfitt með það og bent þér á hvað sé hægt að gera.
Fólk sem þjáist af átröskun geta leitað á ýmsa staði en þar sem þú ert 12 ára er mikilvægt að foreldrar þínir viti hvað þú ert að ganga í gegn um þar sem þau þurfa að styðja þig enda bera þau ábyrgð á því að þér líði vel. Það fyrsta sem að þú myndir líklega gera með foreldrum þínum er að leita til heilsugæslunnar í þínu hverfi, félagsþjónustunnar/þjónustumiðstöðvarinnar eða sálfræðiþjónustunnar í skólanum þínum. Þeir aðilar sem taka við þér þar meta síðan hvort ástæða sé til þess að vísa þér á barna- og unglingageðdeildar Landspítalans (BUGL). Á BUGL starfar svo sérstakt átröskunarteymi sem sér um greiningu og meðferð.
Þú getur líka rætt um hegðunarvandamálin við aðilana sem að ég hef þegar nefnt. Einnig getur þú haft samband við Barnageð í síma 695-5200 eða sent póst á barnaged@barnaged.is eða fengið foreldra þína til að hafa samband.
Að lokum bendi ég þér á hjálparsíma Rauða krossins en síminn þar er 1717 ef þér líður illa eða vilt tala við einhvern.
Ef þú ert með fleiri spurningar eða vantar frekari spurningar er þér velkomið að hafa samband aftur. Þú getur annað hvort svarað þessum tölvupósti eða hringt í síma 800-5999 (gjaldfrjálst).
Gangi þér vel.
Kær kveðja frá umboðsmanni barna