Ástfangin 12-13 ára?
stelpa
14
Er er hægt að vera ástfangin ef maður er aðeins 12-13 ára?
Komdu sæl
Almennt má gefa sér að sönn ást sé sterk óeigingjörn tilfinning til annarrar manneskju sem manni er annt um. Það er ekki hægt að útiloka að 12-13 ára börn geti verið ástfangin en á unglingsárunum er eðlilegt að upplifa allar tilfinningar mjög sterkar og því telja margir sig ástfangna eftir stutt kynni og rugla hugsanlega stundarhrifningu saman við ást. Alls kyns tilfinningar kunna líka að flækja málin, svo sem vaknandi kynhvöt, samviskubit eða pirringur vegna fjölskyldu og vina auk þess sem sjálfsmyndin á það til að rokka talsvert til. Aðalviðfangsefni unglingsáranna er annars að skapa sér sjálfsmynd: finna út hver maður er og hvert maður vill helst stefna. Þó að það sé hægt að læra margt með því að prófa sig áfram á mismunandi sviðum þá er heldur ekki sniðugt að flækja málin um of. Það getur e.t.v. skapað of mikið álag.
Það getur verið gaman að vera í sambandi en það er líka frábært að vera það ekki og njóta þess að vera með vinum, vinkonum og fjölskyldu. Þegar maður er aðeins 12-13 ára er nægur tími til að velta fyrir sér ástarsamböndum síðar.
Annars gæti verið fróðlegt að vita hvað sérfræðingar Vísindavefsins segja um þetta. Á www.visindavefur.is getur þú nálgast tölvupóstföng ritstjóra. Í þessu samhengi má benda á spurninguna Hvað er ást? Er hún mælanleg? sem Sigrún Júlíusdóttir prófessor í félagsráðgjöf svarar.
Kveðja frá umboðsmanni barna