Andlegt kynferðisofbeldi?
strákur
17
Mig vantar/langar að vita er til eitthvað sem heitir andlegt kynferðislegt ofbeldi?
Sæll
Kynferðislegt ofbeldi birtist á margvíslegan hátt. Ein tegund kynferðisofbeldis er kynferðisleg áreitni. Með kynferðislegri áreitni er átt við móðgandi eða særandi hegðun sem hefur slæm áhrif á sjálfsvirðingu þolanda. Yfirleitt er kynferðisleg áreitni ítrekuð eða til þess fallin að valda ótta. Kynferðisleg áreitni er ekki alltaf líkamleg heldur getur hún einnig falist í táknrænni hegðun eða mjög meiðandi orðbragði. Í raun getur því verið um nokkurs konar „andlegt kynferðislegt ofbeldi“ að ræða. Kynferðisleg áreitni varðar við refsingu samkvæmt 199. gr. almennra hegningarlaga.
Ef háttsemi telst ekki ítrekuð eða nægilega ógnandi til þess að teljast kynferðisleg áreitni, getur verið um að ræða brot gegn blygðunarsemi samkvæmt 209. gr. almennra hegningarlaga. Brot gegn blygðunarsemi getur meðal annars falist í tjáningu hugsana með klúru og óviðeigandi orðbragði.
Þú getur lesið nánar um kynferðisofbeldi á hér á aðalsíðu umboðsmanns barna.
Kær kveðja frá umboðsmanni barna