Að taka í vörina
Mega tannréttingarlæknar segja frá ef þeir sjá að ég hef verið að taka í vörina? Þurfa þeir leyfi frá mér?
Hæ og takk fyrir póstinn.
Stutta svarið er já, tannlæknir eða tannréttingalæknir má segja foreldrum þínum frá því ef hann lítur svo á að munntóbaksnotkun þín (að þú takir í vörina) sé mögulega skaðleg tannheilsu þinni. Hann þarf ekki að fá þitt leyfi til þess. Þetta kemur fram í lögum um réttindi sjúklinga en þar segir að sé sjúklingur (og þá er ekki bara verið að tala um sjúklinga heldur alla sem nota einhvers konar heilbrigðisþjónustu eins og að fara til tannlæknis) yngri en 16 ára skulu upplýsingar um heilsufar veittar foreldrum.
Þú virðist vera meðvituð um skaðsemi þess að nota munntóbak. Foreldrar þínir bera hins vegar ábyrgð á velferð þinni og heilsu og þú ættir því að íhuga að segja þeim frá þessari notkun. Viðbrögð þeirra gætu komið á óvart og ef til vill vita þau nú þegar af því að þú takir í vörina.
Og svo í lokin þá viljum við benda á að góð tannheilsa er nauðsynleg og því mikilvægt fyrir þig að fara reglulega til tannlæknis. Þú ættir því ekki að láta þetta stoppa þig í því að fara til hans.
Með góðri kveðju frá umboðsmanni barna