Barnvæn réttarvarsla

Greining á stöðu barna innan réttarkerfisins á Íslandi – löggjöf og framkvæmd í ljósi alþjóðaskuldbindinga

Frá umboðsmanni barna

Í þessari skýrslu er gerð grein fyrir úttekt um barnvæna réttarvörslu (e. Child-Friendly Justice) sem embætti umboðmanns barna hefur unnið að á liðnu ári. Hlutverk embættisins, samkvæmt lögum nr. 83/1994, er að bæta hag barna og standa vörð um hagsmuni, þarfir og réttindi þeirra, meðal annars með hliðsjón af Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og öðrum alþjóðlegum mannréttindasamningum. Þá ber umboðsmanni að stuðla að því að stjórnvöld og aðrir taki fullt tillit til réttinda, þarfa og hagsmuna barna. Í starfi sínu setur umboðsmaður fram ábendingar og tillögur um úrbætur sem varða málefni barna. Þá felst það einnig í hlutverki umboðsmanns að afla og miðla gögnum og upplýsingum um aðstæður barna og stöðu tiltekinna hópa barna hverju sinni í samvinnu við ýmsa aðila.

Úttektin sem hér er kynnt tekur til stöðu barna í réttarkerfinu og nær hún til málsmeðferðar á fyrsta stjórnsýslustigi hjá lögreglu, dómstólum, barnavernd, Útlendingstofnun og sýslumönnum. Gerð er grein fyrir alþjóðlegum skuldbindingum og lagalegri umgjörð, ekki síst í ljósi Barnasáttmálans.

Í skýrslunni eru jafnframt birtar niðurstöður könnunar sem send var til allra lögregluembætta landsins, héraðssaksóknara, ríkissaksóknara, dómstóla, barnaverndarþjónusta, Útlendingastofnunar, sýslumanna og Barna – og fjölskyldustofu, n.t.t. neyðarvistunar Stuðla og Barnahúss. Síðast enn ekki síst koma hér fram sjónarmið barna sem hafa reynslu af stjórnsýslunni og réttarkerfinu.

Embættið mun fylgja úttektinni eftir á næstu mánuðum með nánari tillögum til úrbóta. Þá verður fljótlega gefin út barnvæn útgáfa af skýrslunni.

Mikilvægt er að innleiða barnvæna réttarvörslu og uppbyggilega réttvísi (e. restorative justice) til að tryggja að börn njóti réttinda sinna, þau fái tækifæri til þátttöku og að tekið sé mið af aldri þeirra og þroska. Slíkar nálganir stuðla að betri úrlausn mála, styrkja traust barna á kerfinu og stuðla að velferð þeirra til lengri tíma.

Umboðsmaður barna þakkar öllum þeim sem lögðu embættinu lið við gerð úttektarinnar og svöruðu ítarlegum spurningalista. Sérstakar þakkir fá börnin sem rætt var við en sjónarmið þeirra gefa úttektinni mikilvæga innsýn og dýpka sýn okkar á stöðu barna í þessum aðstæðum.

Loks ber að þakka starfsmönnum embættisins, þeim Eðvaldi Einari Stefánssyni, Guðlaugu Eddu Hannesdóttur, Sigurveigu Þórhallsdóttur og Hafdísi Unu Guðnýjardóttur, fyrir einstaklega vandaða vinnu, en sú síðastnefnda stýrði verkefninu frá upphafi. 


1. Barnvæn réttarvarsla

Barnvæn réttarvarsla (e. Child Friendly Justice) vísar til réttarkerfis sem tryggir að borin sé virðing fyrir öllum réttindum barna innan réttarkerfisins og að þeim sé beitt með virkum hætti í framkvæmd. Í þessu felst að réttarkerfið þarf að vera aðlagað að þörfum, aldri og þroska barna með það að markmiði að vernda réttindi þeirra og velferð. Mikilvægt er að horfa á ferlið út frá sjónarhóli barnsins og tryggja að það finni fyrir öryggi, skilningi og sanngirni.

Um er að ræða lagalega hugmyndafræði sem tryggir rétt barna til frumkvæðis og þátttöku í réttarkerfinu og að það sé þeim aðgengilegt á allan hátt. Börn eiga að njóta réttarverndar á sama hátt og fullorðnir en með barnvænni réttarvörslu er beitt viðbótarráðstöfunum sem stuðla að velferð þeirra og vernda þau gegn frekari skaða. Þannig þarf að tryggja að börn verði ekki fyrir endurteknum áföllum eða óþarfa streitu vegna samskipta við réttarkerfið. Kerfið þarf því að vera aðlagað að þörfum og réttindum barna og hæfa aldri þeirra ásamt því að gæta að málshraða og vandvirkni. Hugtakið barnvæn réttarvarsla hefur vítt gildissvið og vísar til réttarkerfisins og stjórnsýslunnar í heild. Þessi sjónarmið eiga því við um alla málsmeðferð hjá hinu opinbera þar sem börn eiga beina aðild að máli eða mál varðar þeirra hagsmuni með beinum hætti, hvort sem um er að ræða sakamál, einkamál eða stjórnsýslumál.

Hugtakið barnvæn réttarvarsla byggir á réttindum barna samkvæmt Barnasáttmálanum, ásamt því að byggja á fjölmörgum reglum og leiðbeiningum sem gefnar hafa verið út á vegum Evrópuráðsins og Sameinuðu þjóðanna, sem nánar verður fjallað um í köflum 3 og 4. Þá eiga börn einnig stjórnarskrárvarinn rétt til þeirrar verndar sem velferð þeirra krefst, sbr. 3. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar. Barnvæn réttarvarsla felur þannig ekki í sér ný réttindi og er ekki valfrjáls nálgun, heldur lagaleg skylda sem stjórnvöldum ber að framfylgja.

Þær reglur og leiðbeiningar sem gefnar hafa verið út af hálfu Evrópuráðsins og Sameinuðu þjóðanna fela í sér að líta þarf til ýmissa atriða við alla þá málsmeðferð þar sem börn eru aðilar að málum, eða mál varðar hagsmuni þeirra með beinum hætti. Meðal annars er gerð krafa um að sérstaklega sé gætt að skýrri upplýsingagjöf, umhverfi sé aðgengilegt og barnvænt, börn séu sérstaklega undirbúin undir málsmeðferð og að notast sé við tungutak sem barn skilur. Þá getur einnig þurft að líta til þess hvort þörf sé á að tryggja barni sérstaka vernd við málsmeðferðina auk þess sem nauðsynlegt getur verið að endurskoða aðra þætti málsmeðferðar. Lögð er mikil áhersla á þverfaglega og barnvæna nálgun á öllum stigum máls og reglurnar kalla á að ríki leggi heildstætt mat á málaflokkinn og grípi til sérstakra ráðstafana til að tryggja barnvæna réttarvörslu.

Barnahús á Íslandi, sem var fyrsta sinnar tegundar í Evrópu og innleiddi barnvæna nálgun í réttarvörslu á heildstæðan hátt, leiddi til grundvallarbreytinga á meðferð mála þar sem börn hafa verið þolendur ofbeldis. Í kjölfarið hefur þessi hugmyndafræði breiðst út um Evrópu og aukið umræðu og meðvitund um nýjar nálganir í réttarvörslu.

Þó Ísland hafi verið í fararbroddi hvað varðar barnvæna málsmeðferð þegar börn eru þolendur í kynferðisbrotamálum er það mat umboðsmanns barna að mikilvægt, og tímabært, sé að útvíkka þessa nálgun svo hún nái einnig yfir á önnur svið réttarkerfisins þar sem börn eru aðilar að málum, ekki síst þegar um er að ræða börn sem sakborninga. Þannig sé barnvæn réttarvarsla tryggð öllum börnum innan kerfisins, í samræmi við stjórnarskrárvarin rétt þeirra og réttindi þeirra samkvæmt Barnasáttmálanum.


2. Umfang og framkvæmd verkefnisins

Umboðsmaður barna hefur frá upphafi árs unnið að úttekt þessari og greiningu á íslensku réttarkerfi út frá hugmyndafræði barnvænnar réttarvörslu. Markmiðið er að greina og varpa ljósi á stöðuna hér á landi og gera tillögur að úrbótum sem nauðsynlegar eru til að styrkja réttindi barna innan réttarkerfisins.

Umboðsmaður barna framkvæmdi könnun í því skyni að leggja mat á það hversu vel réttarkerfið og stjórnsýslan samræmast réttindum barna samkvæmt Barnasáttmálanum og þeim kröfum sem gerðar eru til barnvænnar réttarvörslu í þeim alþjóðlegu skuldbindingum sem fjallað er um í köflum 3 og 4. Könnunin var send til stofnana innan þeirra fimm málefnasviða sem úttektin nær til: Lögreglumála, dómsmála, barnaverndarmála, útlendingamála og málefna sýslumanna. Nánar er fjallað um framkvæmd könnunarinnar í kafla 6.

Umboðsmaður kallaði einnig eftir viðbótarupplýsingum um frelsissviptingar barna, sem sérstaklega er fjallað um í kafla 6.9. Óskaði embættið eftir tölulegum upplýsingum frá Ríkislögreglustjóra og Fangelsismálastofnun um fjölda barna sem hafa verið vistuð í fangaklefa á grundvelli úrskurðar um einangrun í gæsluvarðhaldi. Þá liggur einnig fyrir að Barna- og fjölskyldustofa tók til notkunar fangaklefa lögreglustöðvarinnar á Flatahrauni eftir að könnun umboðsmanns var framkvæmd og er því sérstaklega fjallað um þá aðstöðu í kaflanum, tölulegar upplýsingar um fjölda barna sem vistuð hafa verið í úrræðinu og athugasemdir umboðsmanns þar að lútandi.

Þá lagði umboðsmaður einnig áherslu á að fá fram sjónarmið barna og upplifun þeirra af málsmeðferð hjá þeim yfirvöldum sem úttektin nær til. Tekin voru viðtöl við hóp barna sem búa yfir þeirri reynslu. Vert er að taka fram að viðtöl við börn fóru fram eftir að neyðarvistun hófst á lögreglustöðinni í Flatahrauni. Fjallað er um sjónarmið barna í kafla 7.

Þá er einnig vert að nefna að eingöngu er um að ræða úttekt á fyrsta stjórnsýslustigi en gera má ráð fyrir því að umfang verkefnisins nái á síðari stigum einnig til úrskurðarnefnda, eftirlitsstofnana og annarra æðra settra stjórnvalda.

Við framkvæmd þessa verkefnis hefur umboðsmaður átt í góðu samstarfi við þær stofnanir sem úttektin nær til. Þá hefur embættið einnig tekið þátt í alþjóðlegu samstarfi um málefnið og átt gott samstarf við erlenda aðila sem veitt hafa ráðgjöf og upplýsingar, þá einkum Child Friendly Justice Eurpean Network. Umboðsmaður barna vill koma á framfæri sérstökum þökkum til allra þeirra sem tekið hafa þátt í verkefninu, ekki síst til þeirra barna sem veittu umboðsmanni ómetanlega innsýn í þeirra reynsluheim innan réttarkerfisins.


3. Alþjóðlegar skuldbindingar um barnvæna réttarvörslu

3.1. Inngangur

Á undanförnum áratugum hefur í auknum mæli verið fjallað um barnvæna réttarvörslu á alþjóðavettvangi og ber íslenska ríkið ákveðnar skyldur á því sviði. Þær skyldur grundvallast fyrst og fremst á ákvæðum Barnasáttmálans, sem fjallað er um í kafla 4., auk skyldum samkvæmt öðrum alþjóðlegum samningum.

Á vegum Sameinuðu þjóðanna og Evrópuráðsins hafa einnig verið settar fram ýmsar leiðbeiningar, staðlar, og tilmæli sem miða að því að vernda réttindi barna innan réttarkerfisins og tryggja að málsmeðferð sé aðlöguð að þörfum þeirra. Þessar skuldbindingar krefjast þess að ríkið tryggi, bæði með löggjöf og í framkvæmd, stuðning við börn innan réttarkerfisins og veita þær mikilvæga leiðsögn um það hvernig tryggja skuli barnvæna réttarvörslu.

3.2. Evrópuráðið

3.2.1. Leiðbeiningareglur ráðherranefndar Evrópuráðsins um barnvæna réttarvörslu

Leiðbeiningareglur ráðherranefndar Evrópuráðsins um barnvæna réttarvörslu, sem samþykktar voru árið 2010, marka mikilvægt skref í átt að því að tryggja að réttarkerfi Evrópuríkja taki betur mið af réttindum, þörfum og velferð barna. Reglurnar byggja á alþjóðlegum mannréttindaskuldbindingum, þ.á.m Barnasáttmálanum, og er þeim ætlað að leiðbeina aðildarríkjum Evrópuráðsins við mótun og þróun réttarkerfa sem eru aðgengileg, styðjandi og örugg fyrir börn. Markmið reglnanna er að tryggja að öll börn, óháð stöðu sinni í réttarkerfinu, njóti verndar og réttlátrar málsmeðferðar og að réttarkerfið virði réttindi þeirra og taki mið af aldri þeirra, þroska og sérstökum þörfum. Reglurnar ná yfir alla þá ferla innan réttarkerfisins sem geta snert börn, þar á meðal einkamál, sakamál og stjórnsýslumál. Reglurnar eru því lykilskjal í þróun barnvænnar réttarvörslu og hafa haft veruleg áhrif á stefnumótun í mörgum Evrópuríkjum. Þær hafa leitt til umbóta í réttarkerfum, aukinnar sérhæfingar starfsfólks og betri verndar barna innan réttarkerfa aðildarríkjanna. Reglurnar hafa einnig verið leiðbeinandi fyrir Mannréttindadómstól Evrópu í málum sem varða börn, þar sem dómstóllinn hefur í auknum mæli lagt áherslu á að aðildarríki tryggi barnvæna réttarvörslu. Nánar er fjallað um áherslur Mannréttindadómstóls Evrópu í kafla 3.2.3.

Leiðbeiningareglur ráðherranefndar evrópuráðsins

Grundvallaratriðin

Reglurnar leggja fyrst og fremst áherslu á eftirfarandi grundvallaratriði:

  1. Aðgengi og upplýsingagjöf – Börn eiga að hafa raunhæfan aðgang að réttarkerfinu og fá viðeigandi upplýsingar um réttindi sín og réttarstöðu á máli sem þau skilja. Forsenda þess að börn geti verið raunverulegir þátttakendur í sínum málum er að þau fái upplýsingar við hæfi. Í því felst annars vegar að stjórnvöldum ber skylda til þess að upplýsa barn með beinum hætti og án milligöngu á öllum stigum máls, og hins vegar að upplýsingar séu aðgengilegar á barnvænu máli, leitist barn eftir þeim sjálft.
  2. Réttlát málsmeðferð – Allir aðilar innan réttarvörslukerfisins þurfa að tryggja að börn njóti sanngjarnar og réttlátrar málsmeðferðar þar sem tekið er tillit til aldurs þeirra, þroska og sérstakra þarfa. Forsenda þess að barn njóti réttlátrar málsmeðferðar er að málsmeðferðin sé aðlöguð að barninu sjálfu. Ávallt skal leitast við að nýta aðra valkosti en dómsmeðferð, svo sem sáttamiðlun eða önnur sérstök úrræði, þegar það þjónar best hagsmunum barns.
  3. Þátttaka og rétturinn til að láta í ljós skoðanir sínar – Börn eiga rétt á að koma skoðunum sínum á framfæri í öllum málum sem þau varða og að tekið sé réttmætt tillit til þeirra. Þá ber að hafa börn með í ráðum áður en ákvörðun er tekin sem hefur áhrif á velferð þeirra. Dómarar bera ábyrgð á að grípa til allra ráðstafana til að tryggja að börn taki raunverulegan þátt í réttarhöldum sem þau varða. Hér ber að nota aðferðir sem lagaðar eru að skilningi og samskiptafærni barnsins að teknu tilliti til aðstæðna í hverju máli. Leita ber álits barna um með hvaða hætti þau vilja tjá sig.Vernd gegn skaða og mannleg reisn – Réttarkerfið á ekki að valda börnum frekari skaða eða áföllum. Sérstök áhersla er lögð á að börn sem koma fyrir dóm þurfi ekki að eiga í beinum samskiptum við gerendur í ofbeldis- eða kynferðisbrotamálum. Meðan á málsmeðferð eða rekstri máls stendur ber að sýna börnum umhyggju og koma fram við þau af varfærni, sanngirni og virðingu, sérstaklega með hliðsjón af einstaklingsbundnum aðstæðum þeirra, velferð og sérþörfum, og gæta þess að valda þeim ekki skaða líkamlega eða andlega.

  4. Vernd gegn mismunun - Tryggja skal að börn njóti réttinda sinna án nokkurrar mismununar svo sem á grundvelli kynferðis, kynþáttar, litarháttar eða menningarlegs uppruna, aldurs, tungumáls, trúar, pólitískra eða annarra skoðana, þjóðernis eða félaglegs uppruna, félags- og efnahagslegrar stöðu, stöðu foreldris eða foreldra, tengsla við þjóðernisminnihluta, eigna, ætternis, kynhneigðar, kyngervis eða annarrar stöðu. Sérstaklega þarf að gæta þess að börnum sé ekki mismunað eftir aðilastöðu, t.d. eftir því hvort þau eru vitni, sakborningar eða brotaþolar, né tegundum mála eða ítrekaðra afskipta.

  5. Þverfagleg samvinna og sérhæfing og þjálfun fagfólks – Þeir sem starfa innan réttarkerfisins þurfa að hafa sérhæfða þekkingu á réttindum og þörfum barna. Hvetja skal til náinnar samvinnu milli fagfólks á mismunandi sviðum með það að markmiði að ná fram heildstæðum skilningi á barni og til að meta lagalega, sálfræðilega, félagslega, tilfinningalega, líkamlega og hugræna stöðu þess, um leið og réttur barns til friðhelgi einka- og fjölskyldulífs er virtur að fullu. Veita ber öllu fagfólki sem starfar með börnum eða í þágu þeirra þverfræðilega fræðslu um réttindi og þarfir barna í mismunandi aldurshópum og um málsmeðferð sem löguð er að þeim. Einnig ber að veita fagfólki sem vinnur í beinu sambandi við börn þjálfun í tjáskiptum við þau á öllum aldri og þroskastigum, sem og við börn í sérstaklega viðkvæmum aðstæðum.

  6. Friðhelgi einkalífs - Tryggja ber með lögum friðhelgi einkalífs barna og vernd persónuupplýsinga um börn sem tengjast eða tengst hafa málsmeðferð fyrir dómi, utan dómskerfis eða vegna annarra ráðstafana. Í þessu felst að jafnaði að ekki megi láta í té eða birta upplýsingar eða persónuleg gögn, sérstaklega ekki í fjölmiðlum, sem gætu með beinum eða óbeinum hætti orðið til þess að borin verði kennsl á barn. Börn skulu að jafnaði tjá sjónarmið sín eða gefa skýrslu fyrir luktum dyrum, hvort sem er fyrir dómi, utan dómskerfis eða í tilefni af öðrum ráðstöfunum eftir því sem við á. Að jafnaði eiga einungis að vera viðstaddir þeir sem tengjast máli með beinum hætti.

  7. Barnvænlegt umhverfi - Mál sem varða börn skal taka fyrir í umhverfi sem vekur hjá þeim öryggistilfinningu og er þeim vinsamlegt. Áður en mál er tekið fyrir ber að kynna barni húsnæði dómstóls eða aðra aðstöðu, og skýra hlutverk og gera grein fyrir þeim opinberu starfsmönnum sem því munu sinna. Við alla málsmeðferð skal nota orðfæri sem hæfir aldri barns og þroska. Þegar skýrslur eru teknar af börnum eða viðtöl eru höfð við þau í máli innan eða utan dómskerfis eða við aðrar aðgerðir ber dómurum og öðru fagfólki að koma fram við börn af virðingu og nærgætni. Aðlaga ber fyrirtökur þar sem börn taka þátt að úthaldi þeirra og eftirtekt og gera skal ráð fyrir reglulegum hléum. Að því marki sem við á og gerlegt er ber að hafa viðtalsherbergi og biðstofur útbúnar fyrir börn í umhverfi sem þeim hæfa. Að því marki sem unnt er ber að koma á sérhæfðum dómstólum (eða deildum dómstóla), sérhæfðri málsmeðferð og sérhæfðum stofnunum fyrir börn sem gerast brotleg við lög. Meðal annars mætti koma upp sérhæfðum deildum innan lögreglunnar, meðal dómara, innan dómskerfisins og hjá ákæruvaldi.

  8. Málshraði - Í allri málsmeðferð sem varðar börn ber að fara eftir meginreglunni um hraða meðferð til að niðurstöður fáist fljótt og hagsmunir barnsins séu í fyrirrúmi.

  9. Börn og lögregla - Lögreglu ber að virða einstaklingsbundin réttindi og mannlega reisn allra barna og taka tillit til viðkvæmrar stöðu þeirra, þ.e. hafa hliðsjón af aldri þeirra og þroska og öllum sérþörfum þeirra barna sem kunna að vera líkamlega eða andlega fötluð eða eiga í erfiðleikum með tjáskipti. Hvert það barn sem er í haldi lögreglunnar á rétt á upplýsingum um ástæður þess, og að þær séu veittar með þeim hætti og orðfæri sem hæfir aldri þess og þroska. Börnin eiga rétt á að njóta aðstoðar lögfræðings og fá tækifæri til að hafa samband við foreldra sína eða einhvern sem þau treysta. Skýra ber foreldri eða foreldrum frá veru barns á lögreglustöð, skýra frá ástæðum þess, og beina því til foreldra að koma á stöðina, en víkja má frá þessu þegar sérstaklega stendur á. Ekki skal spyrja barn, sem er í haldi lögreglunnar, um refsiverða háttsemi, eða fara fram á að barnið gefi eða skrifi undir skýrslu um þátt sinn í slíku, nema að viðstöddum lögmanni, foreldri, eða öðrum sem barnið treystir. Heimilt er að neita því að foreldri eða sá sem barnið treystir verði viðstatt ef viðkomandi er grunaður um hlutdeild í hinni refsiverðu háttsemi eða reynir með einhverjum hætti að hindra framgang réttvísinnar. Lögreglu ber eftir því sem gerlegt er að sjá til þess að barn sem er í haldi lögreglunnar sé ekki vistað með fullorðnum. Þá skulu börn í haldi lögreglunnar ávallt vera vistuð við öruggar aðstæður sem hæfa þörfum þeirra. Saksóknara ber að tryggja barnvænlega nálgun á öllum stigum rannsóknar, þar sem slíkt fellur undir þeirra hlutverk.

  10. Frelsissvipting - Frelsissviptingu barns með hvaða hætti sem er skal eingöngu beita sem síðasta úrræði og í eins skamman tíma og hægt er. Börnum sem svipt eru frelsi sínu ber að jafnaði að halda aðskildum frá fullorðnum. Vistun barna með fullorðnum skal einungis eiga sér stað í undantekningartilvikum og eingöngu á grundvelli hagsmuna barns. Undir öllum kringumstæðum verður húsnæði þar sem börn eru vistuð að hæfa þörfum þeirra.

 


 

3.2.2. Samningur Evrópuráðsins um vernd barna gegn kynferðisbrotum - Lanzarote samningurinn

Ísland undirritaði árið 2008 samning Evrópuráðsins um vernd barna gegn kynferðislegri misneytingu og kynferðisofbeldi. Í samningnum er meðal annars vísað til hugmyndafræðinnar að baki hinu íslenska Barnahúsi. Samkvæmt samningnum er aðildarríkjum skylt að tryggja að rannsókn mála hjá lögreglu og öll málsmeðferð innan réttarvörslukerfisins sé sniðin að hagsmunum barna og auki ekki á þær þjáningar sem barn hefur þegar orðið fyrir. Samningurinn miðar að því að styrkja stöðu barna sem þolenda kynferðisbrota, ekki síst með því að stuðlað yrði að því eftir fremsta megni að framkvæmd og aðstæður við skýrslutöku séu eins hagfelldar fyrir börn og kostur er og að við rannsókn og meðferð mála fyrir dómi séu hagsmunir barns og réttindi höfð í fyrirrúmi. Meðal þess sem lögð er áhersla á í samningnum er að tryggja skuli með lagasetningu eða með öðrum hætti að opinber rannsókn og öll málsmeðferð innan refsivörslukerfisins sé sniðin að hagsmunum og réttindum barna og auki ekki á það álag sem barn hefur þegar orðið fyrir. Sérstaklega er hugað að réttindum brotaþola og sérstakra þarfa þeirra sem vitna og lögð á það áhersla að sami aðili taki skýrslur af barni, séu þær fleiri en ein, og að sá aðili sé sérþjálfaður rannsakandi.

3.2.3. Mannréttindadómstóll Evrópu

Mannréttindadómstóll Evrópu (MDE) hefur lagt áherslu á mikilvægi barnvænnar réttarvörslu í sinni dómaframkvæmd. Réttindi barna innan réttarkerfisins eru sérstaklega vernduð í Mannréttindasáttmála Evrópu sbr. lög nr. 62/1994, þá einkum skv. ákvæði 8. gr. sáttmálans sem fjallar um réttinn til friðhelgi einkalífs og fjölskyldulífs og 6. gr. um réttláta málsmeðferð. Dómstóllinn hefur tekið afstöðu til þess hvernig þessi réttindi eiga að koma til álita í þágu barna, bæði í tengslum við fjölskyldumál og í réttarfarslegu samhengi. Þau viðmið sem dómstóllinn leggur til grundvallar byggjast á alþjóðlegum og evrópskum reglum, þar á meðal Barnasáttmálanum og leiðbeiningareglum Evrópuráðsins um barnvæna réttarvörslu. Þannig hefur dómstóllinn talið að barnvæn málsmeðferð og barnvænt réttarumhverfi geti verið forsenda þess að börn fái notið þeirra réttinda sem kveðið er á um í 3., 4., 5., 6., og/eða 8. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu.[1]

Dómstóllinn hefur fjallað um mikilvægi þess að börn hafi raunveruleg tækifæri til að tjá sig í málum sem varða þau og að tekið sé tillit til skoðana þeirra í samræmi við aldur og þroska. Í fjölskyldumálum leggur dómstóllinn áherslu á að börn séu þátttakendur í ákvörðunum sem varða fjölskyldu- og einkalíf þeirra og hefur áréttað að málsmeðferð skuli vera aðgengileg og skiljanleg börnum, og að þau skuli fá viðeigandi stuðning til að geta tekið þátt í ferlinu.

Í málum sem varða afbrot barna hefur Mannréttindadómstóllinn lagt áherslu á að réttindi barna sem grunuð eru um afbrot skuli vera virt. Þetta felur í sér að börn skuli fá réttláta málsmeðferð í samræmi við 6. gr. sáttmálans, vera talin saklaus uns sekt er sönnuð, og að þau skuli hafa aðgang að lögfræðilegri aðstoð. Lögð er áhersla á að réttarvörslukerfið taki fullt tillit til aldurs, þroska og andlegra og tilfinningalegra getu barna. Dómstóllinn hefur dæmt að brotið sé á þessum réttindum ef börn njóta ekki lögfræðiaðstoðar í yfirheyrslum eða ef málsmeðferðin er ekki sniðin að þörfum þeirra.[2]

Þessar áherslur dómstólsins endurspegla vaxandi viðurkenningu á mikilvægi þess að réttarvörslukerfi taki tillit til sérstakra þarfa barna og að þau njóti sérstakrar verndar. [3]

3.2.4. Aðrar leiðbeiningar og tilmæli á vegum Evrópuráðsins:

3.3. Sameinuðu þjóðirnar

3.3.1. Leiðbeinandi reglur Efnahags- og félagsmálaráðs Sameinuðu þjóðanna um aðgerðir refsivörslukerfisins í málum sem varða börn sem brotaþola eða vitni

Í tillögum ráðsins er sérstaklega vísað til 3. gr. Barnasáttmálans um að hagsmunir barns skuli vera í fyrirrúmi. Minnt er á að börn sem eru í þeirri stöðu að vera brotaþolar eða vitni í sakamálum eru berskjölduð og þurfa sérstaka vernd, aðstoð og stuðning í samræmi við aldur þeirra, þroska og einstaklingsbundnar þarfir í því skyni að koma í veg fyrir frekari erfiðleika eða sálrænt áfall í tengslum við þátttöku þeirra í því ferli sem á sér stað við meðferð sakamáls. Þá er jafnframt vísað til alvarleika líkamlegra, andlegra og tilfinningalegra afleiðinga sem hljótast af afbrotum fyrir börn sem brotaþola og vitni, sér í lagi í kynferðisbrotamálum og þess að þátttaka barna sé oft nauðsynleg til ákæru, sérstaklega í tilfellum þar sem barn sem brotaþoli er eina vitnið. Reglunum er ætlað að vera gagnleg umgjörð sem aðildarríkjum er uppálagt að fylgja eftir fremsta megni til að vernda og efla réttindi barna við meðferð sakamála. Mælt er með því að aðildarríki nýti sér leiðbeiningarnar í löggjöf, við þróun verklags, stefnumótun og framkvæmd í málum sem varða börn sem brotaþola eða vitni. Ráðið nefnir nokkur undirstöðuatriði sem það telur nauðsynlegt að hafa að leiðarljósi, þá einkum rétt barna til virðingar og sæmdar, að aðeins aðilar með sérstaka þjálfun í viðeigandi viðtalstækni sinni skýrslutökum og að nálgast skuli skýrslutökur með næmni, virðingu og nákvæmni í barnvænlegu umhverfi. Þá skuli gæta sérstaklega að málshraða og gæta þess að börnum sé ekki mismunað eftir aldri eða stöðu þeirra eða foreldra þeirra að öðru leyti.

3.3.2 Almenn álit Barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna

3.3.2.1. Almennt álit Barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna nr. 24 um réttindi barna innan réttarkerfisins

Barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna hefur lagt sérstaka áherslu á barnvæna réttarvörslu með almennu áliti um réttindi barna innan réttarkerfisins nr. 24 frá árinu 2019.[4] Í álitinu ávarpar nefndin það sérstaklega að aðildarríki þurfi að gera skýran greinarmun á börnum og fullorðnum innan réttarkerfisins og að tekið sé tillit til sérstakra þarfa barna. Þá leggur nefndin áherslu á að ávallt þurfi að beita einstaklingsmiðaðri nálgun þegar börn eigi í hlut. Aðildarríkjum beri einnig að stuðla að því, í samræmi við b-lið 3. mgr. 40. gr. Barnasáttmálans, að notast sé við aðrar ráðstafanir en dómsmeðferð þegar börn komast í kast við lögin og að mál séu almennt unnin utan refsivörslukerfisins í öllum þeim tilvikum sem það er unnt. Þá sé notast við uppbyggilega réttvísi (e. Restorative Justice) í auknum mæli í málum barna.

Í álitinu fjallar nefndin einnig um mikilvægi þess að börn hljóti réttláta málsmeðferð og bendir á að 40. gr. Barnasáttmálans feli í sér lágmarkskröfur til málsmeðferðar og að gera þurfi ríkari kröfur til málsmeðferðar, m.a. með þverfaglegri samvinnu og kerfisbundinni þjálfun fagfólks sem starfar innan réttarkerfisins. Starfsfólk þurfi að búa yfir fagþekkingu um líkamlegan, andlegan og félagslegan þroska barna, sem og sérþarfa barna sem tilheyra sérstaklega viðkvæmum hópum. Þá þurfi einnig að tryggja réttindi barna innan réttarkerfisins sérstaklega með löggjöf.

Barnaréttarnefndin fjallar einnig um áhyggjur sínar af viðvarandi notkun frelsissviptinga og gerir þá kröfu að aðildarríki leitist við að nota ávallt önnur úrræði nema þegar frelsissvipting er í samræmi við bestu hagsmuni barnsins. Einnig mælist nefndin til þess að notast við önnur form viðurlaga en fangelsisvist, svo sem samfélagsþjónustu og skilorðsbundna dóma. Í þeim tilfellum þar sem fangelsisvist eða gæsluvarðhald sé óumflýjanlegt skuli börn ávallt vistuð í aðstöðu sem hæfir þörfum þeirra og aldrei með fullorðnum. Þá vísar nefndin til þess að undantekning í ákvæði 37. gr. Barnasáttmálans, um að heimilt sé að vista börn með fullorðnum ef það er í samræmi við bestu hagsmuni þeirra, skuli túlka þröngt. Þá skuli ekki í neinum tilvikum beita börn einangrunarvist. Í þeim tilvikum þar sem nauðsynlegt er að aðskilja barn frá öðrum þurfi það ávallt að vera undir eftirliti viðeigandi fagfólks. Nefndin mælist til þess að ríki komi á fót sérstakri aðstöðu fyrir börn sem svipt eru frelsi sínu þar sem starfsfólk með viðeigandi þjálfun og þekkingu starfar og notast er við barnvænar og viðurkenndar aðferðir. Lögð er áhersla á að nái barn 18 ára aldri á vistunartímanum skuli leitast við að nýta úrræðið áfram út vistunartímann sé það mögulegt.

Þá leggur nefndin jafnframt áherslu á að málsmeðferð sé hraðað eins og kostur er í málum þar sem börn eiga í hlut og að réttur barna til þess að tjá sjónarmið sín við málsmeðferð sé ávallt tryggður. Þá skuli allur málflutningur við meðferð máls vera með orðfæri sem barn skilur fyllilega og í umhverfi sem styður við þarfir barns og þátttöku þess. Upplýsingagjöf til barns þurfi einnig að vera skýr þannig að þátttaka barns hafi raunhæft gildi.

Barnaréttarnefndin hefur einnig birt drög að almennu áliti nr. 27 um rétt barna til aðgangs að réttarkerfinu og skilvirkar kæruleiðir[5] þar sem mörg þeirra atriða sem fjallað hefur verið um eru áréttuð og lögð sérstök áhersla á skyldu ríkja til þess að taka upp heilstæða stefnu í þessum málaflokki og tryggja barnvæna réttarvörslu þvert á kerfi.

Þá byggja sjónarmið barnvænnar réttarvörslu einnig á öðrum almennum álitum Barnaréttarnefndarinnar, einkum:

Í lokaathugasemdum Barnaréttarnefndarinnar við sameinaðar fimmtu og sjöttu skýrslur Íslands frá árinu 2022 mælist nefndin til þess að íslenska ríkið samþykki lög sem miða að því að vernda réttindi barna í réttarkerfinu. Þá fagnar nefndin því að ekkert barn hafi verið dæmt til fangelsisvistar eða afplánað refsidóm eftir að ríkið afturkallaði fyrirvara sinn við 37. gr. árið 2015. Ljóst er þó að sú fullyrðing á ekki lengur við, enda hafa börn á undanförnum árum verið dæmd til fangelsisvistar vegna alvarlegra brota.

3.3.3. Samningur Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu

Ísland fullgilti árið 1996 samning Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri og vanvirðandi meðferð eða refsingu. Eftirlit með samningnum er í höndum nefndar Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum sem fylgist með framkvæmd hans og gefur út almenn tilmæli um túlkun hans. Ísland undirritaði valfrjálsa bókun við samninginn (OPCAT) árið 2003 og fullgilti hana árið 2019. Umboðsmaður Alþingis sinnir, á grundvelli OPCAT eftirlits, hlutverki innlends forvarnaraðila og kannar með reglubundnum hætti hvort og hvernig réttindi frelsissviptra einstaklinga, þar á meðal réttindi barna, eru virt. Umboðsmaður Alþingis hefur frá árinu 2018 gefið út heimsóknarskýrslur um neyðarvistun Stuðla, fangageymslur á lögreglustöðvum og önnur úrræði þar sem frelsissvipt börn dvelja og gert athugasemdir við ýmsa þætti.

3.3.4. Reglur Sameinuðu þjóðanna til verndar ungmennum sem sætt hafa frelsissviptingu („Havana-reglurnar“ frá 1990)

Havana reglurnar eru viðmið sem sett hafa verið fram af hálfu Sameinuðu þjóðanna til að tryggja mannúðlega meðferð og vernd barna sem eru svipt frelsi sínu, hvort sem það er í fangelsum, gæsluvarðhaldi eða á öðrum stofnunum.

Reglurnar miða að því að tryggja að börn sem svipt eru frelsi sínu séu meðhöndluð með virðingu fyrir þeirra meðfædda göfgi, og að réttindi þeirra séu vernduð í samræmi við alþjóðleg mannréttindi. Reglurnar leggja áherslu á að frelsissvipting barna ætti aðeins að vera notuð sem síðasta úrræði og í eins stuttan tíma og mögulegt er. Markmiðið er að stuðla að endurhæfingu og félagslegri aðlögun ungmenna, frekar en refsingum.

Almennar meginreglur

Reglurnar leggja áherslu á að frelsissvipt ungmenni eigi rétt á mannúðlegri meðferð og að aðstæður þeirra í varðhaldi eigi að stuðla að þeirra andlegu og líkamlegu velferð. Það er mikilvægt að tryggja að ungmenni séu ekki einangruð frá fjölskyldum sínum og að þau fái tækifæri til að viðhalda persónulegum tengslum við fjölskyldu og vini. Einnig er lögð áhersla á að börn eigi rétt á menntun, heilsugæslu og viðeigandi ráðgjöf.

Félagsleg endurhæfing

Eitt af lykilmarkmiðum Havana reglnanna er að stuðla að félagslegri endurhæfingu ungmenna. Þetta felur í sér að bjóða upp á menntun og starfsþjálfun sem hjálpar þeim að aðlagast samfélaginu að nýju eftir frelsissviptingu. Reglurnar leggja áherslu á mikilvægi þess að ungmenni fái tækifæri til að þróa hæfileika sína og færni á meðan þau eru í varðhaldi, til að auka líkur þeirra á farsælli endurkomu í samfélagið.

Réttindi í varðhaldi

Havana reglurnar leggja áherslu á að frelsissvipt ungmenni eigi rétt á réttlátri meðferð og vernd gegn hvers kyns misnotkun og ofbeldi. Reglurnar kveða á um að börn eigi rétt á aðgangi að lögfræðilegri aðstoð, og að þau eigi að vera upplýst um réttindi sín. Einnig er lögð áhersla á að ungmenni eigi rétt á að tjá sig og að þeirra sjónarmið séu tekin til greina í öllum málum sem varða þau.

Heilsugæsla og líkamleg velferð

Reglurnar kveða á um að börn í varðhaldi eigi rétt á viðeigandi heilsugæslu. Það er mikilvægt að tryggja að börn fái nauðsynlega læknisaðstoð og að þau séu vernduð gegn hvers kyns misnotkun eða vanrækslu. Einnig er lögð áhersla á að tryggja að börn fái heilnæma fæðu og aðstæður sem stuðla að líkamlegri vellíðan þeirra.

Fjölskyldutengsl og samfélagsleg tengsl

Havana reglurnar leggja mikla áherslu á mikilvægi þess að börn haldi tengslum við fjölskyldur sínar og samfélag. Þetta felur í sér að tryggja að börn fái heimsóknir frá fjölskyldu og vinum, og að þau geti haldið eðlilegum tengslum við umheiminn, svo sem í gegnum bréfaskriftir eða símtöl. Markmiðið er að stuðla að því að börn viðhaldi jákvæðum tengslum við sína nánustu og samfélagið almennt.

Aðskilnaður frá fullorðnum

Reglurnar kveða á um að börnum í varðhaldi skuli haldið aðskildum frá fullorðnum föngum, nema það sé talið þeim fyrir bestu. Þetta er gert til að vernda börn gegn áhrifum og áhrifavaldi fullorðinna fanga og til að tryggja að þeirra þarfir séu uppfylltar. Aðskilnaðurinn á að stuðla að því að börn fái viðeigandi stuðning og aðstoð sem miðar að þeirra endurhæfingu og vellíðan.

Aðgangur að menntun og tómstundum

Havana reglurnar leggja áherslu á að börn í varðhaldi eigi rétt á menntun og tómstundum. Menntun á að vera í samræmi við þeirra getu og þarfir, og á að stuðla að þeirra persónulega og félagslega þroska. Einnig er lögð áhersla á að börn fái tækifæri til að taka þátt í tómstundastarfi sem stuðlar að þeirra andlegu og líkamlegu vellíðan.[6]


4. Réttindi barna innan réttarkerfisins skv. Barnasáttmálanum

Barnasáttmálinn, sem lögfestur hefur verið hér á landi með lögum nr. 19/2013, tryggir að börn fái notið réttinda sinna á öllum sviðum samfélagsins, þar á meðal rétt þeirra til þátttöku í málsmeðferð sem þau varða og vernd innan réttarkerfisins. Líkt og fjallað hefur verið um er hugtakið barnvæn réttarvarsla samofið réttindum barna samkvæmt sáttmálanum. Barnasáttmálinn veitir heildstæðan ramma um vernd og eflingu réttinda barna og tryggir að komið sé fram við börn með reisn, virðingu og sanngirni í öllum aðstæðum, þar með talið í málaferlum og við málsmeðferð innan stjórnsýslunnar. Barnasáttmálinn hefur að geyma ákveðin grundvallarréttindi og meginreglur um réttindi barna innan réttarkerfisins. Þessar reglur leggja áherslu á vernd, þátttöku og jafnræði barna í dóms- og stjórnsýslumálum.

Réttarstaða barna innan réttarvörslukerfisins breytist í mörgum tilfellum við 15 ára aldur barna, t.a.m. vegna sakhæfisaldurs. Mikilvægt er þó að hafa í huga að þrátt fyrir að börn hafi náð sakhæfisaldri og geti þannig borið refsiábyrgð líkt og fullorðnir, eru þau engu að síður talin börn allt til 18 ára aldurs og njóta réttinda í samræmi við það samkvæmt Barnasáttmálanum. Ýmis ákvæði sáttmálans veita börnum innan réttarkerfisins sérstaka vernd en mikilvægt er að fjalla í upphafi um grundvallarreglurnar fjórar, sem renna stoðum undir önnur ákvæði Barnasáttmálans. Hafa ber þessar grundvallarreglur að leiðarljósi, ekki aðeins við túlkun annarra ákvæða sáttmálans, heldur einnig við túlkun annarra landslaga og við töku allra ákvarðana sem varða börn.

4.1. Grundvallarreglurnar fjórar

2. gr. Barnasáttmálans tryggir að öll börn njóti réttinda sinna samkvæmt sáttmálanum án nokkurrar mismununar. Þetta felur í sér að við alla málsmeðferð sem börn eru aðilar að skuli þau njóta réttinda til sanngjarnrar málsmeðferðar óháð uppruna, kyni, trú, tungumáli eða öðrum þáttum. Greinin leggur áherslu á að tryggja jafnan rétt allra barna til að njóta verndar og stuðnings. Hvað varðar réttindi barna innan réttarkerfisins leggur ákvæðið t.a.m. bann við því að börnum sé mismunað eftir aldri, tegundum mála eða vegna ítrekaðra afskipta. Sambærilegt ákvæði er að finna í 65. gr. stjórnarskrárinnar.

3. gr. Barnasáttmálans kveður á um að það sem barni er fyrir bestu skuli ávallt hafa forgang þegar teknar eru ákvarðanir í málum sem varða börn. Þessi regla er orðin rótgróin í íslenskum barnarétti og er víða áréttuð í löggjöf. Í samhengi barnvænnar réttarvörslu felur þessi regla í sér að dómstólar, lögregla og stjórnsýslustofnanir verða ávallt að forgangsraða velferð og öryggi barns við alla málsmeðferð og þegar teknar eru ákvarðanir í málum þar sem börn eiga aðild eða málum sem varða hagsmuni þeirra með beinum hætti. Sú nálgun felur í sér að við málsmeðferðina sé lagt einstaklingsbundið mat á bestu hagsmuni barns og unnið út frá því mati í samræmi við aldur, þroska, þarfir og aðstæður barns hverju sinni.

6. gr. Barnasáttmálans fjallar um rétt barna til lífs, afkomu og þroska. Ákvæðið hefur mikla þýðingu í barnvænni réttarvörslu og undirstrikar mikilvægi þess að við meðferð mála innan réttarkerfisins sé gætt að því að vernda og styðja við öryggi og velferð barna. Ákvæðið tryggir börnum rétt til þess að alast upp við þroskavænleg skilyrði, óháð stöðu þeirra, og gerir því m.a. kröfu um fullnægjandi heilbrigðisþjónustu, menntun og vernd gegn ofbeldi, vanrækslu, misnotkun og annars konar illri meðferð. Lögð er áhersla á að sérhverju barni séu tryggðar aðstæður þar sem þeim getur liðið vel og fái tækifæri til þess að ná líkamlegum, andlegum, siðferðislegum og félagslegum þroska. Réttur barna samkvæmt ákvæðinu er forsenda þess að þau fái notið annarra mannréttinda samkvæmt Barnasáttmálanum. Með því að tryggja öryggi barna innan réttarkerfisins og beita aðferðum út frá hugmyndafræði barnvænnar réttarvörslu er stuðlað að því, að þrátt fyrir þátttöku barns í slíku ferli, fái það jöfn tækifæri til þess að þroskast og dafna.

12. gr. Barnasáttmálans fjallar um rétt barns til þess að koma sjónarmiðum sínum á framfæri og að tekið sé réttmætt tillit til þeirra. Í barnvænni málsmeðferð skiptir höfuðmáli að raddir barna heyrist og að skapað sé umhverfi sem styður við þátttöku barns innan réttarkerfisins. Felur ákvæðið þannig í sér að skapa þarf til aðstæður þar sem barn er raunverulegur þátttakandi í málsmeðferð sem það varðar. Til þess að svo megi vera er mikilvægt að barn fái upplýsingar við hæfi á öllum stigum máls og geti þannig brugðist við því sem upp kemur í málsmeðferðinni og gætt sinna réttinda í tengslum við hana. Einnig skiptir miklu máli að aðrar aðstæður séu með þeim hætti að barnið finni fyrir öryggi og skilningi og geti þannig tjáð sig frjálslega, í umhverfi sem styður við þarfir þess. Grundvöllur réttlátrar málsmeðferðar er að ferlið sé aðgengilegt og skiljanlegt fyrir börn, og að sjónarmið þeirra séu virt í samræmi við aldur og þroska.

4.2. Önnur ákvæði Barnasáttmálans sem tryggja réttindi barna innan réttarkerfisins

16. gr. Barnasáttmálans verndar einkalíf, heimili og fjölskyldulíf barna gegn ólögmætum eða ósanngjörnum afskiptum. Börn eiga rétt á að njóta friðhelgi einkalífs, þar með talið fjölskyldulífs og samskipta. Á það ekki síst við þegar börn eru í haldi lögreglu eða afplána refsidóma. Ákvæðið felur einnig í sér að börn skulu njóta verndar gegn öllum formum afskipta sem kunna að skaða þeirra velferð. 16. gr. stuðlar þannig enn frekar að því að tryggja að börn geti alist upp í öruggu umhverfi, þar sem þeirra persónulegu réttindi og frelsi eru virt og vernduð. Réttur barna til friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu er einnig verndaður í 71. gr. stjórnarskrárinnar. Felur þessi réttur einnig í sér að ekki má gera líkamsrannsókn eða leit á börnum eða í munum þeirra án sérstakrar lagaheimildar. Innan réttarkerfisins skal vernda sérstaklega rétt barna til einkalífs og gæta þess að þau verði ekki fyrir frekari skaða í tengslum við málsmeðferð á vegum hins opinbera. Í málum þar sem börn eru brotaþolar felur það m.a. í sér að leita skuli allra leiða til þess að koma í veg fyrir að raska lífi barna með því t.d. að rifja upp síendurtekið erfiða atburði. Þá felst einnig í ákvæðinu skylda til þess að vernda einkalíf og persónuvernd barna, m.a. með því að gæta að því að dómar séu hreinsaðir af öllum persónugreinanlegum upplýsingum.

37. gr. Barnasáttmálans tryggir lágmarksréttindi barna í haldi. Samkvæmt ákvæðinu skal gæta þess að ekkert barn sé látið sæta pyndingum eða annarri grimmilegri, ómannlegri eða niðurlægjandi meðferð eða refsingu. Sambærilegt ákvæði er að finna í 1. mgr. 68. gr. stjórnarskrárinnar. Gæta skal að því að ekkert barn sé ólöglega eða gerræðislega svipt frelsi sínu og skal handtaka, gæsluvarðhald eða fangelsun aðeins beitt þegar ekkert annað úrræði dugar til og í eins skamman tíma og mögulegt er. Börn sem svipt eru frelsi sínu skulu njóta virðingar og mannúðlegrar framkomu, þar sem tekið er sérstakt tillit til þarfa þeirra. Þá eiga börn skilyrðislausan rétt til lögfræðiaðstoðar og viðeigandi aðstoðar, sem og rétt til þess að véfengja ákvörðun um frelsissviptingu fyrir dómi eða óháðu og hlutlausu stjórnvaldi. Börnum í haldi skal ávallt haldið aðskildum frá fullorðum, nema ef annað þyki barni fyrir bestu. Þá á barn rétt á að halda tengslum sínum við fjölskyldu og rétt á heimsóknum.

39. gr. Barnasáttmálans fjallar um líkamlegan og sálrænan bata og rétt barna til þess að aðlagast samfélaginu á ný eftir að hafa orðið fyrir ofbeldi, vanrækslu, misnotkun, pyndingum eða annarskonar grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Ákvæðið er nátengt 19. gr. sáttmálans sem fjallar um vernd barna gegn hvers konar ofbeldi. Með líkamlegum og sálrænum bata er átt við að barni, sem búið hefur við óviðunandi aðstæður eða sætt ofbeldi eða misnotkun af einhverju tagi, skuli tryggð viðeigandi læknisaðstoð, sálfræðiaðstoð og endurhæfing með tilliti til einstaklingsbundinna þarfa og aðstæðna. Með hliðsjón af þessu ákvæði er ljóst að á hinu opinbera hvílir ákveðin skylda til að tryggja að öll börn sem eru brotaþolar í sakamálum, sem og börn sem grunur leikur á að hafi sætt vanrækslu eða ofbeldi af einhverju tagi, t.d. heimilisofbeldi, fái viðeigandi aðstoð til að koma sem best í veg fyrir langtímaafleiðingar af slíkum aðstæðum.

40. gr. Barnasáttmálans fjallar um réttindi barna sem brjóta af sér til réttlátrar málsmeðferðar og viðeigandi úrræða. Samkvæmt ákvæðinu skal fangelsi beitt sem síðasta úrræði eftir að reynd hafa verið önnur vægari inngrip í líf barns sem miða að því að styðja við velferð barna og þroska. Það þýðir að bæði réttarkerfið, sem og önnur kerfi, t.a.m. velferðarkerfi og heilbrigðskerfi, þurfi að vera þannig úr garði gerð að tryggt sé að börn sem komast í kast við lögin fái viðunandi aðstoð og úrræði. Þá skal grípa til allra ráða sem stuðla að aðlögun barns og hæfni til þess að vera virkur þátttakandi í samfélaginu. Innan réttarkerfisins skal tryggja börnum réttláta málsmeðferð á öllum stigum máls, við rannsókn, handtöku, ákæru og við dómsmeðferð. Sambærilegt ákvæði er að finna í 70. gr. stjórnarskrárinnar. Í þessari skyldu felst að taka ber sérstakt tillit til aldurs og þroska barns og að þeir aðilar sem koma að málsmeðferðinni af hálfu hins opinbera séu með viðeigandi sérþjálfun til þess. Börn skulu ekki grunuð, ásökuð eða fundin sek um brot vegna verknaðar sem ekki er lagt bann við í landslögum og skulu njóta ýmissa lágmarksréttinda:

  1. Að vera talið saklaust þar til það er fundið sekt að lögum.
  2. Að fá vitneskju um kærurnar gegn því án tafar og beint, og, ef við á, fyrir milligöngu foreldra sinna eða lögráðamanna og að njóta lögfræðilegrar aðstoðar eða annarrar viðeigandi aðstoðar við undirbúning og framsetningu á vörn sinni.
  3. Að fá gert út um mál sitt án tafar af þar til bæru, óháðu og óhlutdrægu yfirvaldi eða dómstól, við réttláta og lögmælta rannsókn, enda sé til staðar lögfræðileg eða önnur viðeigandi aðstoð, svo og foreldrar þess eða lögráðamenn, nema það sé ekki talið barninu fyrir bestu, sérstaklega með tilliti til aldurs eða aðstæðna þess.
  4. Að verða ekki þröngvað til að bera vitni eða játa á sig sök, að spyrja eða láta spyrja vitni sem leidd eru gegn því, og að vitni þess komi fyrir og séu spurð við sömu aðstæður.
  5. Að ákvörðun um að það hafi brotið gegn refsilögum svo og ráðstafanir sem gerðar eru vegna hennar séu endurskoðaðar af æðra þar til bæru óháðu og óhlutdrægu yfirvaldi eða dómstól samkvæmt lögum.
  6. Að fá ókeypis aðstoð túlks ef barnið skilur ekki eða talar ekki tungumál það sem notað er.
  7. Að friðhelgi einkalífs þess sé virt að fullu á öllum stigum málsmeðferðarinnar.

Samkvæmt ákvæðinu eru aðildarríki einnig hvött til þess að setja lagareglur um málsmeðferð sem sérstaklega ná til barna og setja á fót stofnanir sérstaklega ætlaðar börnum sem eru grunuð, ásökuð eða fundin sek um brot á refsilögum. Þá skal notast við aðrar ráðstafanir en dómsmeðferð þegar börn komast í kast við lögin.

4.3. Valfrjáls bókun við Barnasáttmálann um sölu á börnum, barnavændi og barnaklám

Ísland hefur fullgilt valfrjálsa bókun við Barnasáttmálann um sölu á börnum, barnavændi og barnaklám, þar sem sérstök ákvæði eru um vernd barna sem brotaþola og vitna. Viðurkenna skal varnarleysi barna sem eru þolendur og málsmeðferð skal aðlöguð á þann veg að tekið sé tillit til sérstakra þarfa þeirra, þ.á.m. sérstakra þarfa þeirra sem vitna. Upplýsa þarf börn sem eru þolendur um réttindi þeirra og hlutverk sem og umfang, tímasetningu og framvindu máls. Bókunin fjallar einnig um mikilvægi þess að börnum sé gefið færi á því að sjónarmið, þarfir og áhyggjuefni þeirra komi fram og séu tekin til greina við málsmeðferð og skyldu til þess að veita þeim viðeigandi stuðningsþjónustu meðan á málarekstri stendur.


5. Réttindi barna við málsmeðferð skv. öðrum lögum

Aðild barna að stjórnsýslumálum

Til þess að geta verið aðili að stjórnsýslumáli þarf einstaklingur að geta átt réttindi eða borið skyldur samkvæmt lögum. Þar sem börn geta átt réttindi og borið skyldur samkvæmt lögum njóta þau aðildarhæfis. Barn getur þess vegna talist aðili stjórnsýslumáls ef stjórnvaldsákvörðun beinist að því eða ef það á að öðru leyti verulegra, beinna og lögvarinna hagsmuna að gæta við úrlausn stjórnsýslumáls. Börn eru hins vegar ekki lögráða og það eru þess vegna ákveðin takmörk fyrir því að þau geti ráðstafað réttindum sínum. Meta ber aðild barna að stjórnsýslumálum í hverju tilviki fyrir sig út frá almennum reglum stjórnsýsluréttar. Sérstaklega þarf að skilja á milli ákvarðana sem varða með beinum hætti réttindi og hagsmuni barnsins og beinast að barninu sjálfu annars vegar og hins vegar ákvarðana sem beinast að foreldrum. Þar sem hagsmunir barna og foreldra haldast oft í hendur getur verið erfitt að skilja þarna á milli. Hér getur komið að gagni að greina á milli sjálfstæðra réttinda barnsins og aðstoðar sem ber að veita foreldrum til þess að þeir geti sinnt sínu hlutverki gagnvart barninu.

Málsmeðferð hjá barnavernd

Almennar reglur stjórnsýsluréttar eiga við um aðild að barnaverndarmálum líkt og öðrum stjórnsýslumálum. Þá er kveðið á um aðild að barnaverndarmálum í ákveðnum tilvikum í barnaverndarlögum. Fram kemur að barn sem náð hefur 15 ára aldri sé aðili barnaverndarmáls samkvæmt nánar tilteknum ákvæðum laganna sbr. 1. mgr. 46. gr. barnaverndarlaga. Þetta á við þegar taka á ákvörðun um úrræði eða vistun barns utan heimilis eða þegar endurskoða á slíka ráðstöfun og einnig þegar mál varða umgengni barns við foreldra. Börn geta einnig notið aðildar að barnaverndarmáli sem rekið er fyrir dómstólum sbr. 55. gr. og 62. gr. laganna. Í 63. gr. a. er kveðið á um réttindi barns við málsmeðferð. Þar segir að barn sem er aðili máls samkvæmt ákvæðum kaflans hafi öll þau réttindi sem aðild fylgja. Í 2. mgr. segir einnig að gefa þurfi barni kost á að tjá sig í samræmi við aldur þess og þroska nema dómari telji að afstaða barns komi fram með nægilega skýrum hætti í gögnum máls. Réttur barna til samráðs er tryggður í 2. mgr. 46. gr. barnaverndarlaga en þar kemur fram að veita skuli barni tækifæri til þess að tjá sig um mál sem það varðar í samræmi við aldur þess og þroska og að taka skuli réttmætt tillit til skoðana þess við úrlausn máls.

Börn eiga ýmis réttindi við málsmeðferð hjá barnavernd, samkvæmt barnaverndarlögum nr. 80/2002. Í 4. gr. barnaverndarlaga er kveðið á um meginreglur barnaverndarstarfs. Þar segir að það skuli beita þeim ráðstöfunum sem eru barni fyrir bestu. Hagsmunir barna eiga alltaf að vera í fyrirrúmi í starfseminni. Sú meginregla er áréttuð í 9. gr. reglugerðar um málsmeðferð fyrir barnaverndarnefnd nr. 56/2004. Í 2. mgr. 4. gr. barnaverndarlaga kemur fram að barn eigi rétt á þátttöku í málum er það varðar á grundvelli laganna. Veita skuli barni upplýsingar um mál sitt á barnvænan hátt að því marki sem aldur þess og þroski gefur tilefni til og að tryggja þurfi rétt barnsins til að láta skoðanir sínar í ljós og þá ber að taka tillit til þeirra í samræmi við aldur og þroska þess. Þegar barnaverndarþjónusta hefur tekið ákvörðun um að hefja könnun máls, skal hún taka afstöðu til þess hvort þörf sé á að skipa barni talsmann. Að jafnaði skal skipa barni talsmann áður en gripið er til ráðstafana skv. 25., 27. eða 28. gr. og áður en sett er fram krafa um sviptingu forsjár skv. 29. gr. nema barn njóti aðstoðar lögmanns, sbr. 46. gr. barnaverndarlaga.

Barnaverndarþjónustan á, með samþykki foreldra og eftir atvikum í samráði við barn að veita aðstoð með því að, leiðbeina um uppeldi og aðbúnað, stuðla að því í samvinnu við hlutaðeigandi stofnanir að beitt verði úrræði samkvæmt öðrum lögum, útvega barni viðeigandi stuðning eða meðferð, útvega barni eða fjölskyldu tilsjónarmann, persónulegan ráðgjafa eða stuðningsfjölskyldu, aðstoða foreldra við að leita sér meðferðar vegna veikinda, áfengis- eða vímuefnaneyslu eða annarra persónulegra vandamála sbr. 24. gr. barnaverndarlaga. Í 3. mgr. segir að ef úrræði beinist að heimili þar sem barn býr nægi samþykki þess foreldris eða foreldra sem barnið býr hjá skv. ákvæðum barnalaga. Ef úrræði beinast eingöngu að barni sem er orðið 15 ára nægir samþykki barnsins. Skv. 82. gr. barnaverndarlaga skal starfsemi heimila og stofnana tryggja börnum rétt til einkalífs, rétt til að ráða persónulegum högum sínum og rétt til að hafa samskipti við aðra, allt eftir því sem samræmist best aldri barnsins og þroska þess. Skv. 40. gr. barnaverndarlaga ber barnaverndarþjónustu að leiðbeina foreldrum, barni og öðrum um málsmeðferð barnaverndarmála og um réttindi þeirra og skyldur samkvæmt málsmeðferðarreglum og stjórnsýslulögum.

Rannsókn sakamála

Lög um meðferð sakamála nr. 88/2008(sml) gilda um málsmeðferð í málum sakhæfra barna. Börn verða sakhæf við 15 ára aldur sbr. 14. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Börn koma fram í eigin nafni ef þau hafa stöðu sakbornings nema þegar þörf er talin á öðru. Ef börn hafa hins vegar stöðu brotaþola er gert ráð fyrir að forsjáraðilar komi ávallt fram fyrir hönd barnsins. Við rannsókn sakamála þarf að gæta þess að hagsmunir barnsins séu í forgrunni og að við málsmeðferð sé tekið mið af aldri, þroska og þörfum barnsins. Í lögum um meðferð sakamála er að finna sérreglur sem taka til barna sem hafa stöðu sakbornings. Til að mynda er í 4. mgr. 95. gr. sml. kveðið á um bann við því að úrskurða barn yngra en 18 ára í gæsluvarðhald nema önnur úrræði, m.a. samkvæmt barnaverndarlögum, komi ekki til greina. Þrátt fyrir að barn hafi náð sakhæfisaldri ber barnavernd áfram ábyrgð á velferð þess og hefur sama hlutverk gagnvart sakhæfum börnum og öðrum börnum. Samkvæmt 61. gr. sml. skal barnavernd upplýst um skýrslutöku sakborninga yngri en 18 ára, ef ætlað brot getur varðað meira en tveggja ára fangelsi. Auk þess hefur fulltrúi barnaverndar rétt á að vera viðstaddur skýrslutöku barns hjá lögreglu eða fyrir dómi, sbr. 2. mgr. 18. gr. barnaverndarlaga. Hlutverk fulltrúa barnaverndar við skýrslutöku er einkum að fylgjast með líðan barnsins og tryggja að ekki sé gengið gegn hagsmunum þess. Í 13. gr. lögreglulaga nr. 90/1996 er kveðið á um almennar reglur og í 14. gr. um valdbeitingu. Þar er hvergi fjallað um hvernig eigi að fara að ef þarf að beita börn valdi. Í 18. gr. laganna er að finna ákvæði um afskipti af börnum. Í ákvæðinu er kveðið á um að lögreglu beri að hafa afskipti af börnum yngri en 16 ára sem eru á stöðum þar sem heilsu þeirra eða velferð er alvegleg hætta búin og koma þeim í hendur forsjármanna eða barnaverndaryfirvalda ef nauðsynlegt þykir.

Meðan á lögreglurannsókn stendur fer skýrslutaka fram fyrir dómi af brotaþola ef rannsókn beinist að broti á XXII. kafla almennra hegningarlaga og hann hefur ekki náð 15 ár aldri þegar rannsókn máls hefst sbr. 59. gr. almennra hegningarlaga. Skýrslutaka af brotaþola sem er yngri en 15 ára ber að framkvæma í sérútbúnu húsnæði fyrir skýrslutöku af börnum nema hagsmunir brotaþola krefjist þess að annar háttur verði á hafður. Með sérútbúnu húsnæði er almennt átt við Barnahús. Þá getur dómari ákveðið að skýrsla verði tekin af vitni, yngra en 15 ára í sérútbúnu húsnæði.

Ef barn er handtekið skal án tafar hafa samband við foreldra þess og fulltrúa barnaverndar og hvetja þá til að koma á lögreglustöð sbr. 2. mgr. 1. gr. reglugerðar nr. 651/2009 um réttarstöðu handtekinna manna, yfirheyrslur hjá lögreglu o.fl.

Dómstólar og fullnusta refsinga

Börn eiga líkt og aðrir rétt á réttlátri og opinberri málsmeðferð fyrir sjálfstæðum og óvilhöllum dómi. Ákveðnar sérreglur taka til barna, m.a. í 1. mgr. 10. gr. sml. er kveðið á um meginregluna um opinbera málsmeðferð fyrir dómstólum, en dómari getur ákveðið að þinghald fari fram fyrir luktum dyrum ef sakborningur er yngri en 18 ára. Þá er þinghald í málum sem varða forsjá og lögheimili barns ávallt háð fyrir luktum dyrum. Vert er að athuga að börn 15 ára og eldri gefa skýrslu fyrir dómi við aðalmeðferð máls en ekki í Barnahúsi á rannsóknarstigi, líkt og fjallað er um hér að framan.

í lögum um fullnustu refsinga nr. 15/2016 er fjallað um hvernig refsingar skuli fullnustaðar, þar á meðal afplánun fangelsisdóma. Þau innihalda ákvæði um upphaf afplánunar, réttindi og skyldur fanga, agaviðurlög, og reynslulausn. í 44. gr. fullnustulaga er fjallað um vistun fanga sem eru yngri en 18 ára. Þar kemur fram að fangar sem eru undir 18 ára aldri skulu afplána refsingu á vegum barnaverndaryfirvalda. Óheimilt er að vista fanga undir 18 ára aldri í fangelsi nema fyrir liggi mat sérfræðinga um að það sé honum fyrir bestu með vísan til sérstakra aðstæðna er lúta að honum sjálfum og í samræmi við barnasáttmálann. Einnig kemur fram að fangi sem er á skólaskyldu aldri skuli eiga kost á skyldunámi, sbr. 26. gr. laganna.

Reglugerð um afplánun sakhæfra barna gildir um fullnustu óskilorðsbundinna fangelsisdóma barna á aldrinum 15-18 ára, hvort sem þau eru vistuð á heimili á vegum barnaverndaryfirvalda eða í fangelsi á vegum Fangelsismálastofnunar ríkisins. Reglugerðin fjallar einnig um gæsluvarðhald barna. Hún kveður á um að sakhæf börn skuli að jafnaði vistuð á heimili á vegum barnaverndaryfirvalda nema sérstakar ástæður séu fyrir hendi til að vista þau í fangelsi.

Málsmeðferð hjá Útlendingastofnun

í lögum um útlendinga nr. 80/2016 er sérstaklega fjallað um réttindi og hagsmuni barna við málsmeðferð hjá Útlendingastofnun. í 10. gr. laganna kemur fram að ákvörðun sem varðar barn skuli tekin með hagsmuni þess að leiðarljósi. Barni sem myndað getur eigin skoðanir skal tryggður réttur til að tjá sig í máli sem það varðar og tekið skal tillit til skoðana þess í samræmi við aldur og þroska. Í 14-lið 3. gr. laganna er orðið hagsmunagæsla barns skilgreint sem svo: ,,Það að gæta hagsmuna barns og sjá til þess að barn fái þá aðstoð sem nauðsynleg er á meðan málsmeðferð stendur, þ.m.t. stuðning á grundvelli barnaverndarlaga og annarra laga, svo sem varðandi félagslega aðstoð, skólaþjónustu og heilbrigðisþjónustu. Í 25-lið 3. gr. segir að talsmaður útlendings skuli vera lögfræðingur og þegar um er að ræða fylgdarlaust barn skuli talsmaðurinn enn fremur hafa sérþekkingu á málefnum barna.

Í 3. mgr. 25. gr. laga um útlendinga er kveðið á um að við ákvörðun sem er háð mati stjórnvalds skuli huga að öryggi barns, velferð þess og félagslegum þroska og möguleika þess til að sameinast fjölskyldu sinni. Í 5. mgr. 37. gr. laga um útlendinga er fjallað um mat stjórnvalda á umsóknum barna um alþjóðlega vernd. Þar segir að við mat á því hvort barn teljist flóttamaður samkvæmt lögunum skuli það sem barninu er fyrir bestu haft að leiðarljósi. Við mat á því hvað barni er fyrir bestu skuli stjórnvöld líta til möguleika barns á fjölskyldusameiningu, öryggis þess, velferðar og félagslegs þroska auk þess sem taka skuli tillit til skoðana barnsins í samræmi við aldur þess og þroska.

Málsmeðferð hjá sýslumanni

Þrátt fyrir að eiga lögvarða hagsmuni af niðurstöðu stjórnsýslumála sem varða ákvörðun um umgengni samkvæmt 47. gr. barnalaga nr. 76/2003 eru börn almennt ekki talin aðilar máls hjá sýslumanni. Börn eiga ákveðin réttindi við málsmeðferð hjá sýslumanni, sem byggja m.a. á ákvæðum barnalaga nr. 76/2003. Skv. 71. gr. barnalaga fer meðferð mála að því leyti sem ekki er kveðið á um annað samkvæmt stjórnsýslulögum. Við málsmeðferð ber ávallt að hafa það sem er barni fyrir bestu að leiðarljósi og er það áréttað á nokkrum stöðum í V. kafla barnalaga sem fjallar um foreldraskyldur og forsjá barns. Þá skal sýslumaður ávallt verða við ósk barns um að tjá sig munnlega um mál sitt. Töluverð áhersla er lögð á réttindi barna til að tjá sig og að tekið sé tillit til þeirra sjónarmiða í samræmi við aldur og þroska. Um rétt barns til að lýsa viðhorfum sínum fer samkvæmt ákvæðum 43. gr. barnalaga, sem tryggir barni rétt til að tjá sig og að tekið sé tillit til skoðana þess í samræmi við aldur og þroska. Þá er mikilvægt að hafa í huga að barn á rétt á því að tjá sig en það hvílir ekki á því skylda, það ber að virða það ef barn velur að tjá sig ekki um mál. Sýslumanni er heimilt að takmarka aðgang aðila að gögnum er veita upplýsingar um afstöðu barns ef ætla má að það geti reynst barni skaðlegt eða sambandi barns og foreldris sbr. 75. gr. barnalaga.

Þegar rætt er við barn við undirbúning og framkvæmd verkefna skal þess gætt að haga viðtölum þannig að barnið eigi sem auðveldast með að tjá frjálslega sjónarmið sín. Það skal taka viðeigandi tillit til sértækra þarfa barns, svo sem vegna fötlunar, m.a. með því að koma til móts við þær tjáskiptaleiðir sem henta hverju barni best eftir atvikum sbr. 2. gr. reglugerðar nr. 1450/2021 um ráðgjöf, sáttameðferð og samtal að frumkvæði barns á grundvelli barnalaga. í 15. gr. er fjallað um stöðu barns við sáttameðferð. Eftir atvikum skal gefa barni kost á að tjá sig við sáttameðferð. Sáttamaður tekur ákvörðun, að höfðu samráði við foreldra, um hvort og hvenær gefa skuli barni kost á að tjá sig. Sáttamaður getur ákveðið að ræða við barn í einrúmi eða að foreldrum eða öðrum viðstöddum. Viðtöl við barn samkvæmt ákvæðinu eru ekki háð samþykki foreldra. Á fundi með barni skal sáttamaður leitast við að gera barninu grein fyrir rétti sínum og þeim ágreiningi sem er uppi, svo og að svara þeim spurningum sem barnið kann að hafa. Virða ber rétt barns sem velur að tjá sig ekki um málið. Sáttamaður metur, að höfðu samráði við barnið, með hvaða hætti sjónarmið barnsins eða þær upplýsingar sem barnið gefur eru kynntar foreldrum. Leggja ber áherslu á að foreldrar taki tillit til sjónarmiða barnsins í samræmi við aldur þess og þroska.

Börn geta óskað eftir því að sýslumaður boði foreldra til samtals um fyrirkomulag forsjár, búsetu og umgengni sbr. 33. gr. b. og 31. grein reglugerðar nr. 1450/2021. Sýslumaður ber að gefa barni tækifæri til að mæta á fund og tjá sig um umgengni og önnur málefni sem varða það. Barn getur sjálft komið á framfæri kröfum um umgengni og heimilt er að ræða við barn í einrúmi ef þörf krefur.


6. Framkvæmd á Íslandi – könnun umboðsmanns barna um barnvæna réttarvörslu

Í því skyni að greina að hversu miklu leyti réttarkerfið á Íslandi samræmist kröfum um barnvæna réttarvörslu framkvæmdi umboðsmaður barna könnun meðal þeirra fimm málefnasviða sem úttektin nær til: Lögreglumála, dómsmála, barnaverndarmála, útlendingamála og málefna sýslumanna. Könnunin var lögð fyrir öll lögregluembætti landsins, héraðssaksóknara og ríkissaksóknara. Þá var hún jafnframt lögð fyrir alla héraðsdómstóla landsins, Landsrétt og Hæstarétt. Auk þess var hún lögð fyrir allar barnaverndarþjónustur og umdæmaráð, Útlendingastofnun, sýslumenn og Barna – og fjölskyldustofu, n.t.t. neyðarvistun Stuðla og Barnahús. Til einföldunar er hugtakið stofnun notað í spurningalistanum.

Spurningalistinn var sendur til 62 stofnana og alls bárust 40 svör. Svarhlutfall var því 64.5%.

 Svarhlutfall innan málefnasviða var eftirfarandi: 

  • Barnaverndarþjónustur - 52% svarhlutfall
  • Lögregluembætti - 88% svarhlutfall
  • Umdæmaráð - 75% svarhlutfall
  • Héraðsdómstólar - 87,5% svarhlutfall
  • Sýslumenn - 33.3 % svarhlutfall

Þá bárust einnig svör frá Landsrétti, Ríkissaksóknara, Héraðssaksóknara, neyðarvistun Stuðla og Barnahúsi. 

Könnunin samanstendur af 120 spurningum sem flokkaðar eru í 12 hluta. Í einhverjum tilvikum eru spurningar í nokkrum liðum en svör við þeim eru birtar í einu lagi í umfjöllun. Þær spurningar sem lagðar voru fram í könnuninni voru einkum byggðar á leiðbeiningareglum ráðherraráðs Evrópuráðsins um barnvæna réttarvörslu frá árinu 2010.

Spurningar

Spurningarnar voru flokkaðar í eftirfarandi:

  1. Almenn þekking

  2. Barnvæn réttarvarsla fyrir, á meðan og eftir að málsmeðferð fer fram

  3. Friðhelgi einkalífs og fjölskyldu

  4. Öryggi (sérstakar fyrirbyggjandi aðgerðir)

  5. Menntun og þjálfun fagfólks

  6. Þverfagleg nálgun

  7. Viðtöl/samtöl við börn

  8. Aðstaða, umhverfi og aðgengi barna að stofnuninni

  9. Frelsissvipting

  10. Rannsókn sakamála

  11. Börn og lögregla

  12. Málsmeðferð fyrir dómi


 

Vissar spurningar voru eingöngu ætlaðar tilgreindum aðilum/stofnunum og því ekki ætlast til þess að aðrir svöruðu þeim spurningum, t.a.m. var eingöngu óskað svara frá lögregluembættum í hluta 12 og eingöngu óskað svara frá dómstólum í hluta 13. Þá var eingöngu óskað svara frá lögreglu og embættum saksóknara í hluta 11 og eingöngu óskað svara frá lögreglu og neyðarvistun Stuðla í hluta 10. Svarendur voru vinsamlegast beðnir að svara öðrum hlutum könnunarinnar eftir því sem við átti. 

6.1. Almenn þekking á barnvænni réttarvörslu

Í upphafi könnunarinnar voru stofnanirnar beðnar að svara því hvort þekking væri til staðar um hugmyndafræði barnvænnar réttarvörslu og leiðbeiningareglur Evrópuráðsins um barnvæna réttarvörslu. Allar stofnanir svöruðu þessari spurningu og töldu 30 (70%) að sú þekking væri til staðar, 9 (21%) svöruðu spurningunni neitandi og 4 (9%) voru óvissir. Af svörunum er því ljóst að almennt telst góð þekking á hugmyndafræðifræði barnvænnar réttarvörslu innan réttarkerfisins.

Þekking er til staðar hjá stofnuninni um hugmyndafræði barnvænnar réttarvörslu og leiðbeiningareglur Evrópuráðsins um barnvæna réttarvörslu frá 17. nóvember 2010

Skífurit Þekking á barnvænni réttarvörslu

Í kjölfarið var spurt hvort starfsfólk stofnanna hefði fengið fræðslu um barnvæna réttarvörslu. Þar kom fram að yfirgnæfandi meirihluti, eða 31 stofnun (72%) hefði ekki boðið upp á slíka fræðslu. Þá svöruðu 10 stofnanir (23%) spurningunni játandi og 2 (5%) voru óvissar.

Starfsfólk stofnunarinnar hefur fengið fræðslu um barnvæna réttarvörslu

Skífurit fræðsla til starfsfólks

Þær stofnanir sem svöruðu fyrri spurningu neitandi voru þá spurðar hvort áhugi væri innan stofnunarinnar að fá fræðslu um barnvæna réttarvörslu. Þar svöruðu 32 (84%) játandi, 2 (5%) neitandi og 4 (11%) voru óvissir.

Ef nei, hefði stofnunin áhuga á að fá slíka fræðslu.

Skífurit hefði stofnunin áhuga á að fá fræðslu 

Ljóst er að takmörkuð fræðsla hefur átt sér stað hjá stofnunum ríkisins um barnvæna réttarvörslu en má greina mikinn áhuga á að fá slíka fræðslu.

Stofnunin hefur gripið til, eða hyggst grípa til ráðstafana með það markmið að málsmeðferð verði barnvænni.

Skífurit ráðstafanir til að tryggja barnvæna málsmeðferð

Spurt var um hvort stofnunin hafi gripið til eða hygðist grípa til ráðstafana með það að markmiði að málsmeðferð verði barnvænni. Svarhlutföll voru eftirfarandi, 24 (56%) svöruðu játandi, 6 (14%) neitandi og 13 (30%) voru óvissir.

Þá voru stofnanir beðnar um að svara því hvers konar ráðstafanir hafa verið gerðar. Kom þar m.a. fram að verklagsreglur hefðu verið endurskoðaðar og að lögð hafi verið áhersla á það að einfalda málfar við málsmeðferð. Þó er ljóst samkvæmt svörum við þessari spurningu að tæplega helmingur stofnana hefur ekki gripið til ráðstafana eða eru óviss um það. Talsvert ósamræmi var á svörum innan sömu málaflokka en samhljómur var innan dómskerfis að ekki hefði verið gripið til sérstakra ráðstafana eða að óvissa ríkti um það.

6.2. Barnvæn réttarvarsla fyrir, á meðan og eftir að málsmeðferð fer fram

Spurt var um upplýsingagjöf og ráðgjöf til barna við málsmeðferð. Samtals svöruðu 40 stofnanir þessari spurningu. Spurningin var lögð fram í 12 liðum, þar sem stofnanirnar hökuðu við þær upplýsingar sem börn fá í tengslum við málsmeðferð.

Börnum eru veittar upplýsingar og ráðgjöf um:

Mynd upplýsingar og ráðgjöf

Af svörunum er ljóst að stofnanir telja sig almennt gefa börnum góðar upplýsingar um réttindi þeirra í tengslum við málsmeðferðina, möguleika á málskoti og um sjálfstæðar kæruleiðir og réttindi þeirra til hagsmunagæslu. Niðurstöður gefa þó til kynna að bæta mætti upplýsingaflæði varðandi ýmsa þætti, t.d. þær leiðir sem standa til boða til að krefjast úrbóta, framvindu og niðurstöðu málsmeðferðar eða aðgerða og þær verndarráðstafanir sem unnt er að grípa til.

Börnum eru veittar upplýsingar og ráðgjöf með aðferðum sem lagaðar eru að aldri þeirra og þroska og á tungumáli sem þau geta skilið.

Skífurit börnum eru veittar upplýsingar og ráðgjöf

Þá var spurt um það hvort börnum væru veittar upplýsingar og ráðgjöf með aðferðum sem væru lagaðar að aldri þeirra og þroska og á tungumáli sem þau geta skilið. Af þeim 40 stofnunum sem svöruðu, sögðu 33 (80%) já, 2 (5%) nei, 1 (2%) var ekki viss og 5 (12%) gáfu aðrar skýringar. Meðal þeirra skýringa voru að það komi sjaldan fyrir að dómstólar eigi sérstaklega samskipti við börn og að spurningin eigi ekki við. Beðið var um nánari skýringar þar sem kemur meðal annars fram að starfsmenn stofnunarinnar séu vel þjálfaðir í samtölum við börn á ólíkum þroskastigum, reynt sé eftir fremsta megni að ræða við barn á því tungumáli sem það skilur og að skipaðir séu talsmenn eða réttargæslumenn eftir atvikum. Samræmi var í svörum innan flestra kerfa en þó mátti greina ósamræmi í svörum dómstóla, þ.e.a.s. svör þeirra voru flest á mismunandi veg.

Upplýsingagjöf til barna er með beinum hætti og er miðlað beint til barna.

Skífurit upplýsingagjöf til barna er með beinum hætti

Spurt var um hvort upplýsingagjöf til barna væri með beinum hætti og hvort upplýsingunum sé miðlað beint til barnanna. 25 stofnanir (61%) svöruðu játandi, 6 (15%) neitandi, 3 (7%) voru óvissir og 7 (17%) gáfu aðrar skýringar. Þar kom meðal annars fram að börnum væru veittar upplýsingar eftir atvikum m.v. aldur, þroska og alvarleika máls, að bæði börn og foreldrar fengju upplýsingar, að þau fengju í sumum tilfellum upplýsingar og að það færi eftir atvikum hverju sinni hvort þau fái beinar upplýsingar eða með óbeinum hætti í gegnum aðra svo sem foreldra, lögmenn eða fulltrúa barnaverndar.

Samkvæmt leiðbeiningareglum Evrópuráðsins um barnvæna réttarvörslu er ljóst að börn eiga rétt á að fá upplýsingar sem varða mál sín, réttindi þeirra í málinu, stuðning sem þeim stendur til boða, eðli málsmeðferðarinnar og fleira. Upplýsingagjöf og ráðgjöf flokkast undir almenna grunnþætti barnvænnar réttarvörslu og fram kemur í reglunum að almennt beri að veita bæði börnum og foreldrum eða réttargæslumönnun upplýsingar með beinum hætti og að ekki skuli líta á upplýsingagjöf til foreldra sem valkost sem getur komið í staðinn fyrir beina upplýsingagjöf til barna.

Litið er á upplýsingagjöf til foreldra sem valkost sem komið getur í stað upplýsingagjafar til barna

Skífurit litið er á upplýsingagjöf til foreldra sem valkost

Í framhaldi af ofangreindri spurningu var spurt hvort litið væri á upplýsingagjöf til foreldra sem valkost sem getur komið í stað þess að upplýsa börn beint. Hér svöruðu 7 (17%) já, 9 (22%) nei, 20 (49%) í vissum tilfellum, 1 (2%) voru óviss og 4 (10%) gáfu aðrar skýringar. Í svörum við þessari spurningu mátti greina talsvert ósamræmi innan allra kerfa og var almennt ekki samhljómur í svörum sambærilegra stofnana.

Stofnunin hefur útbúið barnvænt efni með helstu upplýsingum um málsmeðferðina.

Skífurit barnvænt efni með helstu upplýsingum um málsmeðferðina

Spurt var hvort stofnanir hefðu útbúið barnvænt efni með helstu upplýsingum um málsmeðferðina. Spurningunni svöruðu 39 stofnanir. Þar voru svarmöguleikar: já – barnvænt upplýsingaefni er aðgengilegt á vefsíðu stofnunarinnar, já – barnvænt upplýsingaefni er afhent börnum við upphaf málsmeðferðar, nei og annað. Engin stofnun er með barnvænt upplýsingaefni sem er afhent börnum við upphaf málsmeðferðar, 3 (8%) eru með barnvænt upplýsingaefni á vefsíðu, 33 (83%) eru ekki með barnvænt efni aðgengilegt og 4 (10%) gáfu aðrar skýringar.

Það er réttur barna samkvæmt Barnasáttmálanum að fá upplýsingar um málefni sem þau varðar í samræmi við aldur og þroska og er upplýsingagjöf ein helsta forsenda þess að börn geti verið þátttakendur í eigin málsmeðferð. Fram kemur í leiðbeiningarreglum Evrópuráðsins að stofnanir þurfi að hafa frumkvæði að því að útbúa slíkt efni og að því skuli dreift sem víðast.

Stofnunin hefur annað aðgengilegt efni um hlutverk stofnunarinnar, t.d. á vefsíðu, sem sérstaklega er ætlað börnum og er á barnvænu máli. 

Skífurit annað aðgengilegt efni 

Þá voru stofnanir beðnar að svara því hvort til staðar væri annað aðgengilegt efni um hlutverk stofnunarinnar, t.d. á vefsíðu, sem sérstaklega er ætlað börnum og á barnvænu máli. 39 stofnanir svöruðu spurningunni. 7 (18%) sögðu já og 33 (83%) sögðu nei. Ljóst er af niðurstöðunum að auka þarf verulega aðgengi barna að upplýsingaefni innan réttarkerfisins, bæði hvað varðar beina upplýsingagjöf til barna við málsmeðferð og almennar upplýsingar sem aðgengilegar eru börnum um hlutverk stofnana.

Aldurstakmörk gilda um upplýsingagjöf til barna sem hluta af málsmeðferð

Skífurit aldurstakmörk gilda um upplýsingagjöf til barna

Spurt var hvort aldurstakmörk gildi um upplýsingagjöf til barna sem hluta af málsmeðferð. Svörin skiptust þannig að 13 stofnanir (32%) sögðu já, 23 (56%) sögðu nei og 5 (12%) voru óviss. Óskað var frekari skýringa ef aldurstakmörk gilda. Þar kemur fram að ýmist sé miðað við 12 ára, 15 ára eða sjálfræðisaldur, 18 ára.

Samkvæmt svörunum er ljóst er að saksóknarembætti og umdæmisráð miða almennt við ákveðin aldurstakmörk hvað varðar upplýsingagjöf til barna og var ósamræmi á milli svara innan löggæslukerfisins. Leiðbeiningareglur Evrópuráðsins um barnvæna réttarvörslu eru afdráttarlausar um það að aldur barns einn og sér ætti aldrei að vera því til fyrirstöðu að barn taki fullan þátt í meðferð máls sem það varðar og er upplýsingagjöf grundvallarforsenda þess að barn sé raunverulegur þátttakandi í málsmeðferð.

6.3. Friðhelgi einkalífs og fjölskyldu

 

Friðhelgi einkalífs barna og vernd persónuupplýsinga um börn er sérstaklega tryggð með lögum sem gilda um málsmeðferðina

Skífurit

Spurt var hvort friðhelgi einkalífs barna og vernd persónuupplýsinga um börn væri sérstaklega tryggð með lögum sem gilda um málsmeðferðina. Af þeim 40 stofnunum sem svöruðu, svöruðu 37 (92%) játandi og 3 (8%) neitandi. Markmiðið með þessari spurningu var að kanna hversu vel þessi mannréttindi barna, eru virt í sérlögum sem um málsmeðferðina gilda. Þær stofnanir sem svöruðu spurningunni neitandi voru lögregluembætti og embætti saksóknara. Ekki var samræmi á milli svara lögregluembætta á landsvísu. Óskað var nánari upplýsinga um ákvæði sérlaga hvað þetta varðar. Kom þar fram í allnokkrum svörum tilvísun til laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga nr. 90/2018. Má því gera ráð fyrir að niðurstöðurnar sýni skakka mynd af því hversu vel friðhelgi einkalífs barna og vernd persónuupplýsinga er tryggð með sérlögum sem um viðkomandi málsmeðferð gilda, umfram almennar reglur persónuverndarlaga.

Við málsmeðferðina er tryggt að börn fái að tjá sjónarmið sín eða gefa skýrslu fyrir luktum dyrum

Kannað var hvort börn fengju að tjá sjónarmið sín eða gefa skýrslu fyrir luktum dyrum við málsmeðferðina. 36 stofnanir (88%) sögðu já og 5 (12%) svöruðu að það ætti við í vissum tilfellum. Enginn svaraði spurningunni neitandi.

Skífurit

Ákvarðanir/niðurstöður um börn eru almennt birtar opinberlega

Spurt var um hvort ákvarðanir eða niðurstöður um börn væru almennt birtar opinberlega. Svöruðu 3 stofnanir (7%) já, 33 (80%) nei og 5 (12%) völdu annan valkost.

Í skýringum kemur m.a. fram að farið væri eftir gildandi reglum með því að má út úr dómum nöfn, kennitölur og annað sem getur tengt barn við dómsmál. Börn séu ekki nafngreind og reynt sé að forðast að kyn- og aldursgreina þau. Ekki var samræmi milli svara dómstóla á landsvísu.

Skífurit

6.4. Öryggi (sérstakar fyrirbyggjandi aðgerðir)

Stofnunin tryggir, við málsmeðferð eða vegna annarra ráðstafana, að börn séu vernduð gegn skaða, þ.á.m gegn hótunum og hefndaraðgerðum og gegn því að þau verði sem þolendur fyrir frekari skaða af völdum málsmeðferðarinnar. 

Skífurit 

Spurt var um hvort stofnunin tryggi við málsmeðferð eða vegna annarra ráðstafana, að börn séu vernduð gegn skaða, þar á meðal gegn hótunum og hefndaraðgerðum og gegn því að þau verði sem þolendur fyrir frekari skaða af völdum málsmeðferðarinnar. Svarhlutfall skiptist á eftirfarandi hátt: 17 stofnanir (41%) svöruðu já, 3 (7%) nei, 14 (34%) töldu svarið ekki eiga við, 1 (3%) var óviss og 6 (15%) völdu annan svarmöguleika. Þar kemur meðal annars fram að börn séu vernduð með lokuðum málsmeðferðum og aðstoð frá lögreglu þegar það á við.

Talsvert ósamræmi var í svörum stofnana bæði innan málaflokka og utan við þessari spurningu. Af svörunum má ráða að samræma þarf betur hlutverk fagaðila innan réttarkerfisins til þess að tryggja öryggi barna við málsmeðferð og að sá skilningur sé skýr meðal þeirra fagaðila sem vinna að einstaka málum innan réttarkerfisins.

Hæfni fagfólks sem starfar með börnum eða í þágu barna er könnuð með reglubundnum hætti.

Skífurit

Stofnanir voru beðnar að svara því hvort hæfni starfsfólks sem starfar með börnum sé könnuð með reglubundnum hætti. 16 stofnanir (39%) svöruðu spurningunni játandi, 10 (24%) svöruðu neitandi, 4 (10%) voru óviss og 11 (27%) gáfu aðra skýringu. Þar kom meðal annars fram að námskeið og fræðsla séu með reglulegum hætti og að starfsfólk sé stöðugt hvatt til að sækja sér fræðslu. Einnig kom fram að ef dómari efast um hæfni fagfólks sem koma að málefnum barna og tengjast störfum dómsins, sé slíkt alltaf kannað. Við nánari greiningu svara kom fram talsvert ósamræmi innan allra kerfa. Af svörunum má því ráða að þörf er á frekari samhæfingu innan málaflokka hvað varðar markvissa og reglubundna könnun á hæfni fagfólks sem starfar með börnum.

Gripið er til sérstakra varúðarráðstafana ef um er að ræða brot gegn barni af hálfu foreldris, fjölskyldumeðlims eða annars umönnunaraðila.

Skífurit

Stofnanir voru beðnar að svara því hvort gripið væri til sérstakra varúðarráðstafana ef um er að ræða brot gegn barni af hálfu foreldris, fjölskyldumeðlims eða annarra umönnunaraðila. Það er gríðarlega mikilvægt að börn séu vernduð á viðeigandi hátt þegar slíkar aðstæður koma upp. Markmiðið með þessari spurningu var að kanna hvort gripið sé markvisst til slíkra ráðstafana í framkvæmd. 28 stofnanir (68%) svöruðu játandi, 2 (5%) neitandi, 9 (22%) töldu svarið ekki eiga við viðkomandi stofnun og 2 (5%) voru óvissir.

Af svörum má aftur ráða að talsvert ósamræmi sé innan sömu málaflokka og þörf sé á samræmdum verklagsreglum til að tryggja öryggi barna við málsmeðferð.

6.5. Menntun og þjálfun fagfólks

Fagfólki sem starfar með börnum eða í þágu barna hjá stofnuninni er veitt þverfagleg fræðsla um réttindi og þarfir barna og barnvæna málsmeðferð

Skífurit

Kannað var hvort fagfólki sem starfar með börnum eða í þágu barna hjá stofnuninni sé veitt þverfagleg fræðsla um réttindi og þarfir barna og barnvæna málsmeðferð. 17 stofnanir (41%) sögðu já, 7 (17%) nei, (22%) töldu spurninguna ekki eiga við, 1 (3%) voru óviss og 6 (17%) gáfu aðrar skýringar. Talsvert ósamræmi var á milli svara stofnana innan sömu málaflokka.

Ljóst er af svörum við þessari spurningu og skýringum stofnana að þörf er á auknu samræmi og skýrari reglum um þær kröfur sem gerðar eru til þekkingar og fræðslu til fagfólks innan réttarkerfisins. Forsenda þess að markmiðum barnvænnar réttarvörslu sé náð er að starfsfólk sem starfar með börnum og í þágu þeirra, fái viðeigandi fræðslu um réttindi barna, þarfir þeirra og barnvæna málsmeðferð.

Fagfólki sem starfar í beinu sambandi við börn er veitt þjálfun í tjáskiptum við börn á mismunandi aldurs- og þroskastigum, sem og við börn í sérstaklega viðkvæmum aðstæðum

Skífurit

Í framhaldi af ofangreindri spurningu, var spurt hvort fagfólki sem starfar í beinu sambandi við börn sé veitt þjálfun í tjáskiptum við börn á mismunandi aldurs- og þroskastigum sem og við börn í sérstaklega viðkvæmum aðstæðum. Svarhlutfall var eftirfarandi: 20 stofnanir (49%) sögðu já, 4 (10%) nei, 12 (29%) töldu spurninguna ekki eiga við, 1 (2%) var óviss og 4 (10%) gáfu aðra skýringu. Talsvert ósamræmi var í svörum innan löggæslukerfisins. Í skýringum kom meðal annars fram að sí-og sérmenntun mennta- og starfsþróunarseturs lögreglunnar bjóði lögreglumönnum upp á námskeið sem snýr að þjálfun í skýrslutökum.

Mikilvægt er að starfsfólk sem starfar með börnum fái viðeigandi þjálfun og fræðslu í tjáskiptum við börn. Í leiðbeiningareglum Evrópuráðsins kemur fram að það beri að mennta starfsfólk og veita þeim sérstaka og markvissa þjálfun í tjáskiptum við börn á öllum aldri og þroskastigum og við þau börn sem eru í sérstaklega viðkvæmri stöðu. Nauðsynlegt er að allt fagfólk sem vinnur með börnum hljóti þjálfun í samskiptum og orðfæri er hæfir börnum.

6.6. Þverfagleg nálgun

Stofnunin vinnur út frá þverfaglegri nálgun þar sem hvatt er til náinnar samvinnu milli fagfólks á mismunandi sviðum í málum þar sem börn eiga í hlut

Skífurit

Spurt var hvort stofnanir vinni út frá þverfaglegri nálgun þar sem hvatt er til náinnar samvinnu milli fagfólks á mismunandi sviðum í málum þar sem börn eiga í hlut. 34 stofnanir (83%) svöruðu játandi, 5 (12%) neitandi og 2 (5%) voru óvissar. Fram kemur í leiðbeiningareglunum að hvetja beri til náinnar samvinnu fagfólks á mismunandi sviðum með það að markmiði að ná fram heildstæðum skilningi á barni og til að meta lagalega, sálfræðilega, félagslega, tilfinningalega, líkamlega og hugræna stöðu þess, um leið og réttur barns til friðhelgi einka- og fjölskyldulífs er virtur að fullu. Af svörunum má ráða að áhersla á þverfaglega nálgun innan réttarkerfisins sé almennt mikil en ósamræmis gætti þó í svörum dómstóla.

Gert er ráð fyrir þverfaglegri nálgun í lögum eða reglum sem um málsmeðferðina gilda eða verklagsreglum innan stofnunarinnar

Skífurit

Þá var spurt hvort gert væri ráð fyrir þverfaglegri nálgun í lögum eða reglum sem um málsmeðferðina gilda eða verklagsreglum innan stofnunarinnar. Af þeim 40 svörum sem bárust svöruðu 35 (88%) játandi og 5 (12%) neitandi.

6.7. Viðtöl/samtöl við börn


Stofnunin notast við ákveðna viðtalstækni, sem miðuð er að börnum, þegar tekin eru viðtöl eða samtöl við börn

Skífurit

Þegar spurt var um hvort stofnanir notist við ákveðna viðtalstækni, sem miðuð er að börnum, þegar tekin eru viðtöl eða samtöl við börn, voru svör á eftirfarandi hátt. 30 (73%) svöruðu játandi, 5 (12%) neitandi og 6 (15%) gáfu önnur svör. Þau voru á þá leið að dómarar fari á námskeið, viðtöl séu tekin í Barnahúsi og að starfsfólk Stuðla sé þjálfað í aðferðum áhugahvetjandi samtals.

Stofnanirnar voru beðnar um að lýsa þessu nánar. Þar kom m.a. fram að félagsráðgjafar í barnavernd og sálfræðingar sem starfa við barnavernd hafi fengið slíka þjálfun í námi sínu og að starfsmenn hafi hlotið þjálfun í viðtölum við börn og viðkvæma einstaklinga hjá European Union Agency for Asylum. Þá eru sérhæfðir rannsakendur hjá lögreglu sem hafa fengið þjálfun, en ekki var nánar tilgreint hvort sú þjálfun sé sérstaklega miðuð að börnum. Þá voru gefin mismunandi svör af hálfu sýslumannsembætta og umdæmisráða og því ekki samhljómur á milli þeirra hvað þessa spurningu varðar, þ.e.a.s. hvort notast sé við sérstaka viðtalstækni sem miðuð er að börnum við málsmeðferðina.

Til staðar eru verklagsreglur hjá stofnuninni um hvernig viðtöl við börn skuli fara fram.

Skífurit

Kannað var hvort væru til staðar verklagsreglur hjá stofnuninni um hvernig viðtöl við börn skuli fara fram. 15 (37%) svöruðu já og 26 (63%) nei. Hjá Útlendingastofnun kom fram að til staðar séu verklagsreglur um viðtöl við börn, en misræmi var á milli svara innan annarra kerfa. Þá var einnig mikið misræmi milli svara innan sömu málaflokka.

Af svörum við þessari spurningu er því ljóst að almennt er ekki hægt að halda því fram að til staðar séu skýrar verklagsreglur innan réttarkerfisins um það hvernig viðtöl við börn skuli fara fram.

Starfsfólk stofnunarinnar fær sérstaka þjálfun í viðtölum/samtölum við börn.

Skífurit

Í framhaldi af spurningum um viðtöl við börn var spurt hvort starfsfólk stofnana fengi sérstaka þjálfun í viðtölum eða samtölum við börn. 18 (44%) sögðu já, 14 (34%) sögðu nei og 9 (22%) völdu að svara með öðrum hætti. Þar kom meðal annars fram að fólk sem starfar hjá barnaverndarþjónustu hafi viðeigandi menntun, að starfsfólk fái þjálfun upp að vissu marki og að geti sótt sér frekara nám og meiri þjálfun ef það kýs. Svör voru ekki samhljóma innan málefnasviða en af þeim sem svöruðu spurningu neitandi voru helst dómstólar. Þá kom fram hjá nokkrum stofnunum að þörf væri á frekari endurmenntun og að þjálfun væri viðhaldið með markvisssari hætti. Af svörunum og skýringum sem gefna voru má því ráða að brýn þörf sé á aukinni þjálfun í viðtölum/samtölum við börn innan réttarkerfisins og aukinni samræmingu innan fagstétta hvernig standa skuli að slíkri þjálfun og viðhalda henni.

Þegar málsmeðferð varðar barn með beinum hætti, er alltaf rætt við viðkomandi barn

Skífurit

Óskað var eftir svörum um það hvort alltaf væri rætt við viðkomandi barn ef málsmeðferð varðar það með beinum hætti. 13 (32%) svöruðu já, 6 (15%) nei og 22 (54%) sögðu það fara eftir aldri barnsins.

Beðið var um nánari skýringar ef um er að ræða aldursmörk. Þar kom meðal annars fram að ekki væri rætt við allra yngstu börnin, að í barnaverndarmálum sé miðað sé við aldur og þroska og að ekki væri sérstakt aldurstakmark til staðar. Ákveðnar stofnanir miða við 12 ára aldur nema sérstakar aðstæður séu fyrir hendi. Fram kom hjá Útlendingastofnun að almennt sé ekki rætt við börn yngri en 12 ára þegar taka á ákvarðanir á grundvelli útlendingalaga. Ljóst er að það þarf að fara fram einstaklingsbundið mat í hverju tilfelli með hliðsjón af aldri, þroska og getu barnsins til að meðtaka upplýsingar. Í ljósi svara við þessari spurningu, og þess að 54% svarenda binda rétt barns til þess að tjá sig við ákveðin aldursmörk, er ljóst að brýna þarf skyldu stjórnvalda til þess að virða betur rétt barna samkvæmt 12. gr. Barnasáttmálans þegar um er að ræða meðferð mála innan réttarkerfisins. Þá voru svör einnig ólík innan allra málaflokka og því ljóst að samræma þarf verklag innan sömu stofnana og efla sameiginlegan skilning hvað varðar þennan mikilvæga rétt barna.

6.8. Aðstaða, umhverfi og aðgengi barna að stofnuninni

Húsnæði stofnunarinnar er aðgengilegt fyrir börn

Skífurit

Þá var spurt um hvort húsnæði stofnunarinnar væri aðgengilegt fyrir börn. Við þessari spurningu svöruðu 32 (78%) já og 9 (22%) nei. Þær stofnanir sem ekki telja húsnæði sitt aðgengilegt fyrir börn eru lögregluembætti, umdæmisráð og saksóknarembætti. Af framkomnum svörum má ráða að stofnanir eru almennt staðsettar í húsnæði sem er aðgengilegt börnum. Þó telja nærri fjórðungur stofnana að húsnæði þeirra sé óaðgengilegt börnum, en ekki er fyllilega ljóst hvernig sá skortur á aðgengi lýsir sér. Aðgengi barna í víðu samhengi er ein af meginreglum barnasáttmálans. Með því að tryggja aðgengi barna senda stofnanir þau skilaboð til barna að ekki sé aðeins gert ráð fyrir þeim heldur séu þau jafnframt velkomin.

Vefsíða stofnunarinnar er á einföldu máli sem börn skilja

Skífurit

Einnig var spurt um hvort vefsíða stofnunarinnar væri á einföldu máli sem börn skilja. 7 (17%) sögðu já, 24 (59%) sögðu nei og 10 (24%) gáfu önnur svör. Af svörum má ráða að bæta þarf upplýsingagjöf til barna á vefsíðum stofnana þvert á öll kerfi. Mikilvægur liður í því að börn geti nýtt rétt sinn við málsmeðferð er að þau geti sjálf aflað sér upplýsinga um málsmeðferðina eða feril mál kjósi þau það.

Umhverfi og aðstaða stofnunarinnar er hönnuð að einhverju leyti með börn í huga

Skífurit

Þá var spurt hvort umhverfi og aðstaða stofnunarinnar væri hönnuð að einhverju leyti með börn í huga. 12 (29%) svöruðu játandi, 22 (54%) neitandi, 2 (5%) voru óvissir og 5 (12%) gáfu önnur svör. Ljóst er af svörunum að talsvert má bæta innan réttarkerfisins hvað varðar umhverfi og aðstöðu stofnana.

Sérstök aðstaða innan stofnunarinnar er ætluð börnum, t.a.m. biðstofa

Skífurit

Kannað var hvort sérstök aðstaða innan stofnunarinnar væri ætluð börnum, líkt og biðstofa. Þar kom fram að 12 (29%) sögðu já, 21 (51%) nei og 8 (20%) gáfu önnur svör. Er því ljóst að meirihluti stofnana gerir ekki ráð fyrir sérstakri aðstöðu fyrir börn.

Rými þar sem viðtöl eru tekin við börn eru hönnuð út frá þörfum barna

Skífurit

Spurt var um hvort rými þar sem viðtöl eru tekin við börn væru hönnuð út frá þörfum þeirra. 12 (29%) sögðu já, 23 (56%) nei, 1 (2%) var óviss og 5 (12%) gáfu önnur svör. Beðið var um nánari skýringar og lýsingar á umhverfi, aðstöðu og aðgengi barna að viðkomandi stofnun. Ljóst er af svörunum að talsvert má bæta innan réttarkerfisins hvað varðar umhverfi og aðstöðu stofnana. Mikilvægt er að stofnanir innan réttarkerfisins skapi barnvænt umhverfi sem stuðlar að velferð barna og veitir þeim öryggistilfinningu. Barnvænt réttarkerfi byggist á því að virða réttindi barna og tryggja að þau upplifi ekki óþarfa álag eða ógn. Þetta felur í sér að á meðan börn taka þátt í málsmeðferð ber að tryggja að ferlið í heild sinni sé sem minnst yfirþyrmandi.

6.9. Frelsissvipting

Frelsissviptingar á lögreglustöðinni á Flatahrauni

Í ljósi þess að framkvæmd neyðarvistunar barna hefur tekið breytingum eftir að könnun umboðsmanns var send út um mitt ár 2024 er tilefni til þess að fjalla sérstaklega um lögreglustöðina að Flatahrauni og neyðarvistanir barna í því úrræði. Eftir bruna á neyðarvistun Stuðla í október 2024 hefur starfsemi meðferðarheimilisins verið skert og fangageymsla lögreglustöðvarinnar í Flatahrauni verið tekin í notkun til þess að taka á móti börnum í neyðarvistun. Starfsmenn umboðsmanns barna heimsóttu aðstöðuna í nóvember sl. og var það mat embættisins að hún væri með öllu óviðunandi sem vistunarstaður fyrir börn. Var mennta- og barnamálaráðherra gerð grein fyrir þeirri afstöðu með bréfi dags. 12. nóvember 2024.

Í öðru bréfi umboðsmanns til ráðuneytisins, dags 3. febrúar 2025, var sú afstaða ítrekuð enn frekar. Umboðsmaður sendi ráðuneytinu annað bréf, dags 5. mars 2025, þar sem afstaða embættisins vegna neyðarvistunar barna í Flatahrauni var ítrekuð enn á ný vegna misvísandi upplýsinga um notkun úrræðisins og hámarksvistunartíma. Gerði umboðsmaður barna alvarlegar athugasemdir við þá framkvæmd að börn allt niður í 12 ára hafi vistast í úrræðinu og vistunartími þar verið allt að 6 sólarhringar. Svar barst við bréfi umboðsmanns frá mennta- og barnamálaráðuneytinu þann 14. mars sl., en í því kemur m.a. fram að stjórnvöld vinni að því að neyðarvistun barna í Flatahrauni verði hætt.

Þá gagnrýndi umboðsmaður Alþingis einnig framkvæmdina en í skýrslu sem birt var þann 14. mars sl., segir að afstaða umboðsmanns Alþingis sé sú að ekki sé við hæfi að vista börn í fangageymslunni á lögreglustöðinni á Flatahrauni vegna aðbúnaðar þar. Í skýrslunni kemur fram að neyðarvistunin á Flatahrauni hafi yfirbragð hefðbundinnar fangageymslu og ber með sér að vera sérútbúin fyrir vistun fullorðinna einstaklinga við hátt öryggisstig. Þar sofi börn á plastklæddri dýnu á steyptum bekkjum, hvorki séu klukkur né speglar í fangageymslunni og ýmislegt í umhverfinu sem gefur til kynna að starfsemi lögreglu fari þar fram. Því sé ekki hægt að útiloka að börn telji sig hafa verið handtekin og færð í fangageymslu lögreglu á þeim grundvelli, frekar en að þau telji sig dvelja í úrræði á vegum barnaverndaryfirvalda. Þá kom einnig fram að í mörgum tilvikum sé um einangrunarvist að ræða og að börn sem vistast hafa í úrræðinu hafi búið við lakari réttarstöðu en fullorðnir einstaklingar sem sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli sakamálalaga.

Tölulegar upplýsingar um frelsissviptingar

Umboðsmaður kallaði sérstaklega eftir tölulegum upplýsingum um frelsissviptingar barna. Óskaði embættið n.t.t. eftir upplýsingum frá Ríkislögreglustjóra og Fangelsismálastofnun um fjölda barna sem hafa verið vistuð í fangaklefa á grundvelli úrskurðar um einangrun í gæsluvarðhaldi, á öðrum grundvelli, á árunum 2019-2025.Jafnframt var óskað eftir upplýsingum um fjölda þeirra nátta sem börn hafa verið vistuð í fangaklefa á áðurnefndu tímabili. Þá óskaði embættið enn fremur eftir upplýsingum frá Stuðlum um hversu mörg börn hafi verið vistuð í fangageymslum lögreglustöðvarinnar á Flatahrauni frá því að úrræðið var tekið til notkunar. 

Vistun barna á Flatahrauni á tímabilinu 31. október til 16. febrúar

 


Vistun barna í fangelsum á vegum Fangelsismálastofnunar á árunum 2019-2025



Vistun barna í fangageymslum á lögreglustöðvum


Í könnun umboðsmanns var sérstaklega spurt um frelsissviptingar barna. Í þessum hluta könnunarinnar var eingöngu óskað svara frá lögregluembættum og neyðarvistun Stuðla.

Frelsissviptingu barns er í öllum tilfellum beitt sem síðasta úrræði og í sem skemmstan tíma og völ er á

Óskað var svara um það hvort frelsissviptingu barns væri ávallt beitt sem síðasta úrræði og í sem skemmstan tíma sem mögulegt er. Svöruðu 21 (81%) spurningunni játandi en 5 (19%) neitandiÓskað var eftir nánari skýringum frá þeim sem svöruðu spurningunni neitandi. Kom þar fram að vistun ætti sér stað í samstarfi við barnaverndaryfirvöld en þegar um væri að ræða gæsluvarðahald ættu þessi sjónarmið ekki við, þ.e. gæsluvarðhaldi væri beitt þrátt fyrir að ekki hefðu verið reynd vægari úrræði og að lengd gæsluvarðhalds gæti verið umfram það sem nauðsynlegt væri. Almennt sé notast við úrræði á vegum barnaverndaryfirvalda en ef rannsókn máls og atvik kalli á sé það metið í samráð við barnavernd hvort viðkomandi sé vistaður í fangageymslu lögreglu.

Skífurit

Í gildi eru verklagsreglur innan stofnunarinnar um frelsissviptingu barna, þá sérstaklega um tilefni, nauðsyn og hámarkstíma

Þá var spurt hvort í gildi væru verklagsreglur innan stofnunarinnar um frelsissviptingu barna, þá sérstaklega um tilefni, nauðsyn og hámarkstíma. Svöruðu 10 (42%) spurningunni játandi, 11 (46%) neitandi og 3 (13%) voru óviss. Ósamræmis gætti í svörum lögregluembætta. Af svörunum er því ljóst að almennt séu ekki til staðar skýrar verklagsreglur sem öllum lögregluembættum er gert að fylgja varðandi tilefni, nauðsyn og hámarkstíma frelsissviptingar. Fram kom að á neyðarvistun Stuðla séu í gildi viðeigandi verklagsreglur.

Skífurit

Börnum sem svipt eru frelsi sínu er haldið aðskildum frá fullorðnum

Spurt var hvort börn sem svipt eru frelsi sínu sé haldið aðskildum frá fullorðnum. 11 stofnanir (50%) svöruðu já, í öllum tilfellum, 3 (14%) töldu að í undantekningartilfellum væru börn vistuð með fullorðnum, 2 (9%) svöruðu spurningunni neitandi og 6 (27%) gáfu önnur svör. Samkvæmt niðurstöðunum er því ljóst að ekki er samhljómur er um það innan lögregluembætta hvort börnum sé haldið aðskildum frá fullorðnum en neyðarvistun Stuðla svaraði já, í öllum tilvikum.

Skífurit

Það húsnæði þar sem börn eru vistuð hæfir í öllum tilfellum þörfum þeirra.

Þá var spurt hvort það húsnæði þar sem börn eru vistuð hæfi í öllum tilfellum þörfum þeirra. Aðeins 6 stofnanir (36%) svöruðu spurningunni játandi, 8 (36%) svöruðu neitandi og 6(27%) gáfu önnur svör. Neyðarvistun Stuðla svaraði spurningunni játandi en munur var á milli svara frá lögregluembættum. Í skýringum kom fram að fangaklefar væru í einhverjum tilfellum notaðir, sem og fangelsið á Hólmsheiði, sem var samkvæmt svaranda húsnæði sem hæfir þörfum barna.

Skífurit

Tryggt er að börn sem eru frelsissvipt geti haldið eðlilegu og reglulegu sambandi við foreldra sína, fjölskyldu og vini.

Óskað var upplýsinga um það hvort börn sem eru frelsissvipt geti haldið eðlilegu og reglulegu sambandi við foreldra sína, fjölskyldu og vini. 12 (55%) svöruðu spurningunni játandi, 2 (9%) voru óviss og 8 (36%) gáfu aðrar skýringar. Kom þar fram að það færi eftir aðstæðum hverju sinni en slíkt væri ekki mögulegt þegar börn voru í einangrun. Þá kom einnig fram í spurningum í framhaldinu hvort sá réttur væri í einhverjum tilfellum takmarkaður eða áunninn í refsiskyni og kom þar fram að 29% svarenda töldu svo vera eða voru óviss.

Tryggt er að börn fái viðeigandi menntun, náms- og starfsráðgjöf og hafi aðgang að tómstundum, þar á meðal líkamsrækt og íþróttum.

Þá var spurt hvort tryggt væri að frelsissvipt börn fengju viðeigandi menntun, náms- og starfsráðgjöf og hefðu aðgang að tómstundum. 7 (37%) svöruðu spurningunni játandi, 1 (5%) neitandi og aðrir voru óvssir eða gáfu önnur svör.

Skífurit

6.10.Rannsókn sakamála

Í þessum hluta könnunarinnar var eingöngu óskað svara frá lögregluembættum og embættum saksóknara um rannsókn sakamála. Lögregluembætti og saksóknaraembættum.

Stofnunin leitast við að nýta aðra valkosti en dómsmeðferð, svo sem sáttamiðlun eða önnur sérstök úrræði, þegar það þjónar best hagsmunum barns.

Spurt var hvort stofnanir leitist við að nýta aðra valkosti en dómsmeðferð, svo sem sáttamiðlun eða önnur sérstök úrræði þegar það þjónar hagsmunum barns. Niðurstöður þessarar spurningar voru afar jákvæðar og svöruðu 15 (75%) svarenda henni játandi, 1 (5%) svaraði neitandi og aðrir sögðu spurninguna ekki eiga við.

Skífurit

Börn eru upplýst vandlega og leitað álits þeirra á möguleikum á því að leysa mál annað hvort fyrir dómi eða með öðrum aðferðum utan réttar.

Kannað var hvort almennt sé leitað álits frá börnum á möguleikum þess að mál séu leyst með öðrum aðferðum en dómsmeðferð og hvort þau séu upplýst vandlega um hvaða möguleikar standa til boða varðandi úrlausn máls. Svörin gefa til kynna að í meirihluta mála skorti þar á. 9 stofnanir (45%) svara spurningunni játandi, 3 (15%) neitandi, 6 (30%) töldu það ekki vera hlutverk stofnunarinnar og 2 (10%) gáfu önnur svör. Í skýringum kom fram að bæta megi þennan þátt og að upplýsa þurfi börn í ríkara mæli um þá valkosti sem standi til boða og þá kom einnig fram að það væri einkum hlutverk lögmanna að upplýsa börn um þær leiðir sem standa til boða.

Skífurit

Börn eiga þess kost að velja hvort þau vilja að mál verði rekið fyrir dómi eða leyst með öðrum hætti þegar slíkar lausnir eru í boði

Í kjölfar fyrri spurningar var spurt hvort börn eigi þess kost að velja hvort mál verði rekið fyrir dómstól eða með öðrum hætti þegar slíkar lausnir eru í boði. 9 stofnanir (45%) svöruðu játandi, 2 (10%) neitandi, 6 (30%) töldu spurninguna ekki eiga við og 3 (15%) völdu að svara með öðrum hætti. Kom þar fram að í einstaka tilvikum gætu börn valið sjálf hvort farið sé í sáttamiðlun en að almennt fái þau ekki val. Er því talsvert ósamræmi í svörum hvað þetta atriði varðar.

Skífurit

Barnvæn nálgun er höfð að leitarljósi á öllum stigum rannsóknar

Spurt var hvort barnvæn nálgun væri höfð að leiðarljósi á öllum stigum rannsóknar þegar börn eiga í hlut. Mikill meirihluti svarenda, eða 75% svara spurningunni játandi. Aðrir gáfu sérstakar skýringar sem voru á þá leið að reynt væri að hafa barnvæna nálgun í huga en að það mætti vissulega bæta. Einnig kom fram að það væri gert í sumum málum en ekki öllum.

Skífurit

6.11. Börn og lögregla

Í þessum hluta könnunarinnar var eingöngu óskað svara frá lögregluembættum.

Börn sem eru í haldi lögreglu eða á lögreglustöð fá ávallt upplýsingar um ástæður þess

Spurt var hvort börn í haldi lögreglu eða á lögreglustöð fái ávallt upplýsingar um ástæður þess. 9 lögregluembætti (69%) svöruðu spurningunni játandi en 4 embætti (31%) gáfu aðrar skýringar. Kom þar m.a. fram að það færi eftir aldri barns.

Skífurit

Upplýsingar eru veittar með þeim hætti og því orðfæri sem hæfir aldri þeirra og skilningsgetu

Sambærilegar niðurstöður má sjá þegar spurt var hvort þær upplýsingar væru veittar með þeim hætti og orðfæri sem hæfir aldri barns og skilningsgetu. Svöruðu 9 lögregluembætti (69%) þeirri spurningu játandi en aðrir gáfu sérstakar skýringar. Kom þar fram að unnið væri að því að gera upplýsingablað fyrir handtekna barnvænna. Þá kom einnig fram frá einu embætti að þetta þyrfti að bæta.

Skífurit 

Börn sem eru í haldi lögreglu fá að njóta aðstoðar lögfræðings og fá einnig tækifæri til að hafa samband við foreldra sína eða einhvern sem þau treysta

Spurt var hvort börn í haldi njóti lögfræðiaðstoðar og fái tækifæri til þess að hafa samband við foreldra sína eða aðra sem þau treysta. 8 (62%) lögregluembætti svöruðu spurningunni játandi og 5 (38%) gáfu aðrar skýringar. Kom þar m.a. fram að oft ráði rannsóknarhagsmunir úrslitum um hvort börn fái að hafa samband við foreldra sína.

Skífurit

Foreldrum er almennt skýrt frá veru barns á lögreglustöð og ástæðum þess og því beint til foreldra að koma á stöðina.

Í kjölfarið var spurt hvort lögregla hafi almennt frumkvæði að því að greina foreldrum frá veru barns á lögreglustöð og ástæðum þess, og hvort því sé beint til foreldra að koma á lögreglustöð. Allir svarendur (100%) svöruðu þessari spurningu játandi.

Skífurit

Börn eru í einhverjum tilfellum spurð um refsiverða háttsemi án þess að viðstaddur sé lögmaður, foreldri eða aðrir sem barnið treystir.

Þá var spurt hvort börn væru í einhverjum tilfellum spurð um refsiverða háttsemi án þess að viðstaddur sé lögmaður, foreldri eða aðrir sem barnið treystir. Í svörum kom fram að 8 lögregluembætti (73%) telja að slíkt sé ekki gert. Hins vegar völdu 3 embætti (27%) að svara með öðrum hætti. Kom þar fram að meginreglan sé að svo sé ekki, þ.e. að börn séu ekki spurð um refsiverða háttsemi án þess að lögmaður eða foreldrar séu viðstaddir en það sé gert í einhverjum tilvikum.

Skífurit

Börn fá ávallt upplýsingar um það hvort rætt er við þau sem vitni eða hvort þau eru grunuð um refsiverða háttsemi

Kannað var hvort börn fái ávallt upplýsingar um hvers vegna rætt er við þau af hálfu lögreglunnar og hvort rætt sé við þau sem vitni eða vegna þess að þau séu grunuð um refsiverða háttsemi. 10 lögregluembætti (77%) svöruðu játandi og 3 (23%) veittu önnur svör. Kom þar fram að réttarstaða þeirra gæti breyst við rannsókn máls og börn séu þá upplýst um það.

Skífurit

Börn fá upplýsingar um réttindi þeirra á lögreglustöðinni

Í kjölfarið var spurt hvort börn séu upplýst um réttindi sín á lögreglustöðinni. Svöruðu 10 lögregluembætti (77%) spurningunni játandi og 3 (23%) gáfu aðrar skýringar.

Skífurit 

Hjá stofnunni eru í gildi reglur um réttindi barna í samskiptum við lögreglu

Spurt var hvort í gildi séu reglur innan lögregluembætta um réttindi barna í samskiptum við lögreglu. Rúmlega helmingur lögregluembætta (54%) svöruðu spurningunni játandi en önnur embætti svöruðu með öðrum hætti. Kom þar fram að fjallað væri um réttindi barna í sakamálalögum og að börn fengju upplýsingar um réttindi sín á upplýsingablaði fyrir handtekna. Þá væru einnig í gildi leiðbeiningar frá Ríkislögreglustjóra um samskipti lögreglu við börn. Fram kom af hálfu eins lögregluembættis að bæta mætti þennan þátt. 

Skífurit

Upplýsingar um réttindi barna í samskiptum við lögreglu eru aðgengilegar börnum og almenningi

Í kjölfarið var spurt hvort upplýsingar um réttindi barna í samskiptum við lögreglu væru aðgengilegar börnum og almenningi. 4 (31%) lögregluembætta taldi svo vera en 7 embætti (54%) svöruðu neitandi. Þá svöruðu 2 embætti (15%) með öðrum hætti og gáfu þær skýringar að spurningin ætti ekki við. Af svörunum má því ráða að ekki sé ljóst hvort upplýsingar um réttindi barna í samskiptum við lögreglu séu aðgengilegar.

Skífurit

6.12. Málsmeðferð fyrir dómi

Í þessum hluta könnunarinnar var spurt um málsmeðferð fyrir dómi og var eingöngu óskað svara frá dómstólum. Svör bárust frá sex héraðsdómstólum og Hæstarétti en svör vantaði frá Landsrétti.

Dómarar tryggja að réttur barna til að tjá sig um mál sem þau varða sé virtur í samræmi við 12. gr. Barnasáttmálans

Óskað var svara við því hvort réttur barna til þess að tjá sig sé tryggður af hálfu dómara við meðferð máls. Allir dómstólar (100%) svöruðu því játandi.

Skífurit

Ákveðin aldursmörk gilda um það hvort barn fái að tjá sig fyrir dómi

Þá var spurt hvort aldurstakmörk gildi um rétt barna til þess að tjá sig fyrir dómi. Einn dómstóll (14%) svaraði játandi, tveir (29%) neitandi og aðrir völdu að gefa skýringar. Kom þar fram að geta barns til þess að tjá sig væri metin í hvert sinn og það færi eftir þroska barns fremur en aldri. Hins vegar gilti 15 ára aldurstakmark almennt um vitnaskyldu og að skýrslur af börnum yngri en 15 ára séu teknar í Barnahúsi. Af svörunum er því ekki ljóst hvort almennt gildi ákveðin aldurstakmörk um rétt barna til þess að tjá sig fyrir dómi.

Skífurit

Börnum eru veittar upplýsingar og leiðbeiningar um hvernig nýta megi með virkum hætti réttinn til að tjá sig við meðferð máls fyrir dómi

Þá var spurt hvort börnum væru veittar upplýsingar og leiðbeiningar um hvernig þau geti með virkum hætti tjáð sig við meðferð máls fyrir dómi. 5 dómstólar (71%) svöruðu játandi, 1 neitandi og 1 nýtti sér annan valkost þar sem fram kom að það færi eftir aldri og þroska að hve miklu leyti hægt væri að veita slíkar leiðbeiningar. Af svörunum má því ráða almennt sé leitast við að veita börnum leiðbeiningar um rétt sinn til að tjá sig við meðferð máls fyrir dómi en að samræma þurfi að einhverju leyti þá framkvæmd innan dómskerfisins.

Skífurit

Dómsniðurstöður eru sérstaklega rökstuddar og útskýrðar fyrir börnum ef ekki hefur verið farið eftir sjónarmiðum og skoðunum barnsins

Óskað var svara við því hvort dómsniðurstöður væru sérstaklega rökstuddar og kynntar börnum ef ekki hefur verið farið eftir sjónarmiðum og skoðunum barnsins. Enginn dómstóll svaraði spurningunni játandi, 4 (57%) neitandi og 3 gáfu aðrar skýringar. Kom þar fram að það sé almennt hlutverk lögmanna og réttargæslumanna að útskýra niðurstöður fyrir börnum en sé barn viðstatt útskýri dómari eins og kostur er. Aðrir dómstólar töldu þetta þó eingöngu vera hlutverk lögmanna og það sé ekki gert af hálfu dómsins. Er því ljóst að töluvert ósamræmi er á milli svara dómstóla og ólíkur skilningur á því hverjum beri skylda til þess að veita barni útskýringar og upplýsingar um dómsniðurstöður. Þá nefndi einn dómari að hann leitist við að bjóða börnum og forsvarsmönnum þeirra til viðtals við sig þar sem niðurstöður máls eru kynntar. Algengast virðist þó vera að dómstólar líti ekki á það sem sína skyldu.

Skífurit

Þess er sérstaklega gætt að allri málsmeðferð sem varðar börn sé hraðað eins og kostur er

Spurt var hvort þess væri sérstaklega gætt að allri málsmeðferð sé hraðað þegar börn eiga í hlut. 6 dómstólar (86%) svöruðu játandi og 1 veitti annað svar. Kom þar fram að samkvæmt lögum bæri að hraða meirihluta mála og því reyndist það erfitt í framkvæmd. Sérstaklega væri þó reynt að forgangsraða málum þar sem börn eru þolendur eða gerendur.

Skífurit

Áður en mál sem varðar barn er tekið fyrir, er börnum kynnt húsnæði dómstóls og hlutverk og deili á þeim opinberu starfsmönnum sem að málsmeðferðinni koma

Þá var spurt hvort börnum væri kynnt húsnæði dómstóls og hlutverk þeirra aðila sem að málsmeðferð koma áður en mál eru tekin fyrir. 4 dómstólar (57%) svöruðu spurningunni neitandi, 1 (14%) játandi og 2 (29%) gáfu aðrar skýringar. Í skýringum kom fram að spurningin ætti ekki við. Af svörunum er því ljóst að börnum er almennt ekki kynnt húsnæði dómstóla eða hlutverk aðila áður en mál sem varða börn eru tekin fyrir.

Skífurit

Notast er við orðfæri sem hæfir aldri barns og skilningsgetu við málsmeðferðina, ef barn er viðstatt

Spurt var hvort notast væri við orðfæri sem hæfir aldri barns og skilningsgetu þegar barn er viðstatt þinghald. Mikill meirihluti svarenda, eða 5 dómstólar (83%) svöruðu játandi og 1 (17%) neitandi. Má því ráða af niðurstöðunum að dómstólar telji almennt að börn skilji það sem fram fer við meðferð máls fyrir dómi, enda sé sérstaklega gætt að því að nota orðfæri sem hæfir aldri barns og skilningsgetu þegar þau eru viðstödd þinghöld.

Þegar mál varðar barn með beinum hætti og barn er viðstatt málsmeðferð, er gripið til ráðstafana til þess að gera dómsumhverfið barnvænlegra. Slíkt getur t.d. falið í sér breytingu á klæðaburði dómara, saksóknara og lögmanna, þ.e.a.s að ekki séu notaðar skikkjur eða aðrir einkennisbúningar. Einnig getur verið um annarskonar ráðstafanir að ræða.

Þá var spurt hvort gripið væri til sérstakra ráðstafana til þess að gera dómsumhverfið barnvænlegra þegar barn er viðstatt málsmeðferð. 4 dómstólar (57%) svöruðu neitandi, 2 (29%) játandi og 1 (14%) gaf aðrar skýringar. Kom þar fram að þegar rætt sé við börn í tengslum við einkamál séu dómarar og fagaðilar klæddir látlausum fatnaði og að reynt sé að hafa umhverfið sem óformlegast. Almennt má þó álykta út frá svörunum að í meirihluti mála sé ekki gætt sérstaklega að barnvænu umhverfi við meðferð máls fyrir dómi.

Skífurit

Notaðar eru viðtalsaðferðir á borð við mynd- eða hljóðupptökur, eða skýrslutöku fyrir luktum dyrum áður en málsmeðferð hefst fyrir dómi, og litið á þá skýrslutöku sem tæka sönnunarfærslu. Ath. að hér er ekki átt við skýrslutökur sem fram fara í Barnahúsi.

Kannað var hvort notaðar væru mynd- eða hljóðupptökur, eða skýrslutökur fyrir luktum dyrum áður en meðferð máls hefst fyrir dómi, líkt og gert er í Barnahúsi, í þeim málum þar sem börn gefa ekki skýrslu í Barnahúsi. 2 (29%) dómstólar svöruðu neitandi, 1 (14%) játandi og 3 (43%) gáfu önnur svör. Kom þar fram að notast væri við slíka sönnunarfærslu í vissum tilfellum en að það ætti einna helst við í forsjármálum.

Skífurit

Fyrirtökur þar sem börn taka þátt eru aðlagaðar að úthaldi þeirra og eftirtekt og er gert ráð fyrir reglulegum hléum

Þá var spurt hvort fyrirtökur þar sem börn taka þátt séu aðlagaðar að úthaldi þeirra og eftirtekt. 4 (57%) svöruðu játandi, 1 (14%) neitandi og 2 (29%) gáfu aðrar skýringar.

Skífurit

Dómstóllinn býr yfir sérstöku viðtalsherbergi sem útbúið er fyrir börn

Spurt hvort hvort sérstakt viðtalsherbergi ætlað börnum væri til staðar hjá dómstólum. Enginn svaraði spurningunni játandi, 4 (57%) neitandi og 3 (43%) gáfu önnur svör. Kom þar fram að í flestum tilvikum væri Barnahús nýtt. Af svörunum er því ljóst að enginn dómstóll býr yfir sérstöku viðtalsherbergi fyrir börn.

Skífurit

Dómstóllinn býr yfir sérstakri biðstofu sem útbúin er fyrir börn

Í kjölfarið var spurt hvort dómstólar búi yfir sérstakri biðstofu fyrir börn. 1 (14%) svaraði játandi en 6 (86%) neitandi. Er því ljóst að almennt er ekki aðstaða, hvorki biðaðstaða né sérstök viðtalsherbergi, sem útbúin er fyrir börn í dómstólum landsins.

Skífurit

Sérþjálfuðu fagfólki er falið að framkvæma viðtöl við börn og annast skýrslutökur. Ath. að hér ekki átt við um skýrslutökur sem fram fara í Barnahúsi

Spurt var hvort sérþjálfuðu fagfólki væri falið að framkvæma viðtöl við börn og annast skýrslutökur í þeim málum þar sem skýrslutaka fer ekki fram í Barnahúsi. Svöruðu 2 dómstólar (29%) játandi, 2 (29%) neitandi og 3 (43%) gáfu aðrar skýringar. Skýringar voru á þá leið að dómarar búi yfir slíkri sérþekkingu og reynslu og að stundum séu viðtöl framkvæmd af meðdómsmönnum með sálfræðimenntun. Talsverðs ósamræmis gætir því í svörum við þessari spurningu.

Skífurit

Innleiddar hafa verið viðtalsaðferðir þar sem tekið er tillit til þroska barna á mismunandi stigum

Þá var spurt nánar út í viðtalsaðferðir og hvort innleiddar hafi verið aðferðir sem taka mið af þroska barna á mismunandi aldurstigum. 4 dómstólar (67%) svöruðu neitandi og 2(33%) játandi. Svar vantaði frá einum dómstól sem tók þátt í könnuninni. Í skýringum kom fram að þær viðtalsaðferðir sem hafa verið innleiddar í tveimur dómstólum væru byggðar á samskonar aðferðarfræði og notast er við í Barnahúsi.

Skífurit

Höfð er þverfagleg samvinna við aðrar starfsstéttir þegar taka á skýrslur af börnum fyrir dómi, t.a.m. sálfræðinga eða félagsráðgjafa

Þá var spurt hvort þverfagleg samvinna væri höfð við aðrar starfsstéttir þegar teknar eru skýrslur af börnum fyrir dómi. 4 dómstólar ( 57%) svöruðu játandi, 2 (29%) neitandi og 1 (14%) gaf önnur svör. Kom þar fram að í forsjármálum væri notast við fjölskipaðan dóm þar sem sálfræðingur er meðdómsmaður. Af svörunum er ljóst að talsvert ósamræmi er í framkvæmd á landsvísu hvað þetta varðar.

Skífurit

Börn sem brotaþolar geta ávallt, óháð aldri, gefið skýrslu fyrir dómi án þess að sakborningur sé viðstaddur

Þá var spurt hvort börn sem brotaþolar geti ávalt og óháð aldri gefið skýrslu fyrir dómi án þess að sakborningur sé viðstaddur. 6 dómstólar (86%) svöruðu þessari spurningu játandi og 1 (14%) gaf aðra skýringu. Þar kom fram að slíkt væri í höndum dómara og væri metið sérstaklega.

Skífurit

Þegar um er að ræða brotaþola á aldrinum 15-17 ára, sem ekki gefa skýrslu fyrir dómi í Barnahúsi, er málsmeðferðin á einhvern hátt aðlöguð að þörfum þeirra

Að lokum var spurt hvort gripið sé til einhverra ráðstafana til þess að aðlaga málsmeðferð að þörfum þeirra barna sem orðin eru 15 ára og gefa því ekki skýrslu fyrir dómi í Barnahúsi. Ekki var samræmi í svörum dómstóla hvað þetta varðar en 4 (57%) svöruðu játandi, 2 (29%) neitandi og 1 (14%) gaf aðra skýringu. Er því ljóst að ekki er sambærilegur skilningur meðal dómstóla á landsvísu um það hvort koma þurfi, eða komið sé, til móts við þarfir barna eldri en 15 ára og upplifa ólíka meðferð máls vegna aldurs, en börn eldri en 15 ára fá ekki að gefa skýrslu í Barnahúsi.

Skífurit


7. Samráð við börn – upplifun barna

Í starfi umboðsmanns barna er skýr áhersla lögð á 12. gr. Barnasáttmálans, og að leitast sé eftir því að fá fram sjónarmið barna um þau málefni sem embættið leggur áherslu á hverju sinni, sbr. einnig 2. mgr. 3. gr. laga um umboðsmann barna nr. 83/1994. Í þessari vinnu var því mikilvægt að fá fram sjónarmið og upplifun barna sem hafa reynslu af réttarkerfinu, enda er markmið verkefnisins að varpa ljósi á það hvernig kerfið blasir við börnunum sjálfum og hversu aðgengilegt það er þeim í raun og veru.

Tekin voru viðtöl við hóp barna sem búa yfir mismunandi reynslu af réttarkerfinu. Notast var við staðlaðan viðtalsramma í viðtölum við börnin en einstaka svörum var fylgt eftir með nánari spurningum ef þess þótti þörf. Þessar frásagnir veita mikilvæga innsýn í reynsluheim barna sem hafa verið aðilar að málum hjá lögreglu, dómstólum, barnavernd, sýslumönnum og Útlendingastofnun, og upplifun þeirra af málsmeðferðinni. Alls voru tekin viðtöl við 11 börn. Börnin sem rætt var við eru öll á aldrinum 15-18 ára.

7.1. Lögregla

Rætt var við hóp barna sem hafa haft aðkomu að sakamálum eða hafa upplifað afskipti af hálfu lögreglunnar. Börnin sem um ræðir hafa ýmist verið grunuð um refsiverða háttsemi, komið að málum sem vitni eða brotaþolar eða lögregla haft afskipti af þeim á öðrum grundvelli. Börnin voru spurð um upplifun sína af lögreglunni almennt, skýrslutökum, lögreglustöð og handtöku. Börnin lýstu blendnum tilfinningum gagnvart lögregluyfirvöldum og voru mörg óviss um hvort lýsa ætti almennri upplifun sinni af lögreglunni með jákvæðum eða neikvæðum hætti. Mörg börn lýstu því að upplifun þeirra væri mjög misjöfn eftir því hvaða lögregluþjón þau ættu í samskiptum við. Ítrekað kom fram að börn telja lögregluna beita þau of mikilli og óþarfa hörku.

dæmi um svör frá börnum...

 

  • “Það er bara svona 50/50. Mér líður eins og þau eru væntanlega bara að gera vinnuna sína en á sama tíma geta þau verið mjög agressív við skjólstæðinga”
  • “Lögreglan getur alveg verið næs en síðan geta þau alveg verið treg, en ég hef alveg meira lent í góðum.”
  • “Sumir eru góðir og sumir ekki, mikill munur.... kannski gera það þannig no joke að ekki vera að meiða mann þegar ég er ekki að gera neitt á móti.”
  • “Ekki gaman að lenda í löggunni”
  • “Geta oft verið með stæla og dónaskap”

Lögreglustöð

Börnin voru spurð um upplifun sína af lögreglustöð og lýstu þau almennt neikvæðri upplifun af því. Mörg lýstu því sem streituvaldandi og kom orðið “stressandi” oft fram. Þau upplifðu jafnframt reiði og kvíða, og finnst erfitt að vera þar í kringum fullorðið afbrotafólk.

dæmi um svör frá börnum...

Hvernig fannst þér að koma inn á lögreglustöðina?

  • „Ekkert spes, þetta er ógeðslegur staður.“
  • „Bara ömurlegt.“
  • „Bara gjörsamlega ömurlegt. Sumir fara þarna sem hafa drepið einhvern og sumir fara þarna út af einhverju litlu. Þetta er bara eins og ég hafi gert eitthvað rosa mikið af mér. Ég er bara 15 ára, þú veist, slakið aðeins á. Þetta á bara að vera fyrir alvöru glæpamenn.
  • „Það var frekar stressandi. Og ég bara sá mjög svona skrítið fólk þarna inni, mjög brjálað fólk. Það var mjög skrítið og ég var mjög hrædd en samt fannst mér einhvern veginn alveg vera örugg því ég var með barnavernd með mér. Stressandi og skrítið að vera þarna inni.“
  • “Allt í lagi, bara ágætt”
  • “Stressandi”
  • „Frekar krípi fyrir krakka að koma þarna inn.“

Hvernig finnst þér að lögreglan og lögreglustöðin gæti verið öðruvísi fyrir börn?

  • “Mætti vera sér rými fyrir börn”
  • “Koma fram við okkur eins og krakka, þau koma alltaf fram við okkur eins og við séum fullorðin.”
  • “Bara bera meiri virðingu fyrir manni”

Skýrslutaka

Börnin voru spurð um upplifun sína af skýrslutöku, hvernig hún hefði farið fram og hverjir hefðu verið viðstaddir. Mörg barnanna lýstu erfiðri upplifun við skýrslutöku. Fram kom að einhver barnanna höfðu ekki fengið viðeigandi stuðning við skýrslutöku, þ.e. höfðu ekki fengið að hafa lögmann, barnavernd eða foreldri viðstatt skýrslutökuna. Þá hefði einnig skort á að þeim væru veittar fullnægjandi upplýsingar um hvað tæki við í framhaldinu. Flest barnanna lýstu skýrslutökunni sem stressandi. Þó lýstu mörg börn því að samskipti við lögreglu í skýrslutöku hefðu verið góð. Einhver barnanna tóku fram að lögregla hefði lagt sig fram við að nota barnvænt mál og eitt þeirra tók fram að það hefði verið jákvætt að lögregluþjónn hafi verið af sama kyni og barnið, sem var mætt í skýrslutöku sem brotaþoli. Þó voru einnig börn sem sögðu frá erfiðum samskiptum við lögreglu. Þá kom fram hjá brotaþolum að þeim hafi reynst erfitt að þurfa að mæta í skýrslutöku á lögreglustöð í stað Barnahúss vegna þess að þau hefðu náð 15 ára aldri.

Dæmi um svör frá börnum...

Hvað finnst þér um það, að það breytist þegar þú ert orðin 15 ára? 

  • Svolítið sjokk. Ég átti ekki von á þessu. Hefði frekar viljað fara í Barnahús heldur en á þessa lögreglustöð.

Manstu hvort það var einhver annar viðstaddur heldur en lögreglan? 

  • „Já ég held bara löggan og þegar ég fór í skýrslutöku á (...) kom lögfræðingur með löggunni. Síðan í annað skiptið var það bara lögreglan sem var að tala við mig upp á löggustöð.“

Var ekki lögmaður? 

  • „Nei ekki lögmaður“ (sakborningur)

Voru einhverjir aðrir viðstaddir skýrslutökuna en lögreglan? 

  • “Nei"

Ekki lögmaður eða barnavernd? 

  • “Nei”

Var það ekki rætt við þig? 

  • “Nei” (sakborningur)

Geturðu sagt mér hvernig skýrslutakan fór fram? 

  • „Þetta var bara ég að segja þeim frá og svona spjall og spurningar.“

Var lögfræðingur með þér? 

„Nei bara barnavernd og lögreglan.“ (sakborningur)

  • „Þú ert aldrei neydd til að taka þátt í skýrslutöku en það er oftast betra að gera það annars verður bara meira vesen”

Var þér sagt það?

  • „Já.“

Handtaka og viðhorf lögreglu

Mörg barnanna lýstu þeirri upplifun sinni að handtökur hafi verið framkvæmdar af óþarfa hörku og virðingarleysi. Þá kom fram að handjárn væru oft óþarflega þröng og að þau hefðu nokkur fengið mar eftir handjárn. Fram kom að börnin vilja fá tækifæri til þess að útskýra mál sitt áður en hörku en beitt og að á þau sé hlustað í samskiptum við lögregluna. Þá leggja þau áherslu á að meðalhófs sé ávallt gætt við handtöku.

Dæmi um svör frá börnum...

 

  • „Mér líður eins og löggur gefi manni í raun og veru ekki séns til að útskýra sig eða tala. (…), þau eru bara mjög aggresív við skjólstæðinga. Stundum er maður að reyna að gefa löggunni séns og maður er bara rólegur en þau nota allt gegn þér. Það er í raun og veru bara ekki rétt fyrir unglinginn. (…). Unglingurinn á að fá séns til að útskýra sig og að það sé hlustað á hann.”
  • “Ég get ekki breytt hvernig lögreglan er en mér finnst að þær eigi að bera meiri virðingu fyrir unglingum og vita að þetta eru bara krakkar"

Hvernig hefur þér fundist það (að vera handtekinn)?

  • „Frekar mikil harka, stundum veit ég ekki neitt af hverju þau eru að handtaka mig. Bara tekinn niður og margir ofan á þér. Handjárnin eru stundum alveg þröng sko.“
  • “Rosalega misjafnt, t.d. með handjárnin. Stundum setja þau handjárnin sem er þægilegt en stundum setja þau alveg svona, þú veist kemur bara mar hérna. Gera þau rosalega þröng. Þegar ég var (...) þá settu þau handjárnin bara til að meiða mig og fótinn á hnakkann á mér, fokking óþægilegt.”

Hefur lögreglan einhvern tímann meitt þig eða slasað þig við handtöku?

  • “Já, var með svona brunasár og mar eftir handtöku.”

Upplýsingagjöf

Börnin voru spurð sérstaklega um upplýsingagjöf af hálfu lögreglunnar og kom það fram hjá flestum börnum sem rætt var við þau hefðu ekki fengið fullnægjandi upplýsingar um réttindi þeirra á lögreglustöðinni, í skýrslutöku og við handtöku. Þá kom fram að verulega hefði skort á að þau fengju upplýsingar um næstu skref eða framhald og framvindu mála.

dæmi um svör frá börnum...

Fékkstu upplýsingar um þinn rétt þegar þú varst handtekinn? 

  • “Nei.”

Þurftir þú að skrifa undir eitthvað varðandi skýrslutökuna eða handtöku?

  • “Já skrifaði undir slatta, las það ekki yfir – lögreglan sagði mér að spyrja bara ef ég hefði einhverjar spurningar. Útskýrðu samt svona basic hlutina.” (sakborningur)

Fékkstu upplýsingar um hvað þú ættir að vera lengi á lögreglustöðinni eða hvenær þú mættir fara?

  • “Nei” (sakborningur)

Í þessari skýrslutöku sem þú fórst í, fannst þér allt skýrt í samskiptum þínum við lögreglukonuna? 

  • "Já það var mjög skýrt og hún var að reyna að nota orð sem krakkar skilja. Bara útskýra hvernig reglurnar eru að ég yrði að segja satt og svoleiðis. Og ef mig langaði ekki að segja þá þurfti ég ekki að segja og svona." (brotaþoli)

Fékkstu allar upplýsingar sem þú þurftir að fá í skýrslutökunni, t.d. hvað myndi gerast í framhaldinu?

  • “Nei mjög lítið. Það er ekkert ennþá búið að koma og það er mjög langt síðan ég fór. Örugglega þrjú ár síðan. Hef mjög lítið heyrt síðan.” (brotaþoli)

Fékkstu upplýsingar um réttindin þín á lögreglustöðinni?

  • “Ég spurði eiginlega ekki. Var bara sagt að ég þyrfti ekki að tjá mig og eitthvað þannig.”
  • “Nei, fór þarna inn og svaraði spurningum og fór”

7.2. Frelsissvipting

Börnin sem rætt var við höfðu nokkur reynslu af því að hafa verið frelsissvipt. Þau höfðu ýmist verið vistuð í fangaklefum á lögreglustöð, á Hólmsheiði, Neyðarvistun Stuðla eða fangageymslum lögreglustöðvarinnar á Flatahrauni. Í samtölum var ljóst að frelsissviptingar hafa verið börnunum verulega þungbærar. Þau hafa sum upplifað mikið áfall við þá reynslu og lýst vanlíðan og kvíða við þær aðstæður.

Dæmi um svör frá börnum...

Hvernig myndir þú lýsa almennt þeirri reynslu að vera frelsissvipt/ur?

  • “Mjög óþægilegt”
  • “Stundum í lagi en stundum er maður að verða klikkaður.”
  • “Leiðinlegt að hanga þarna í einhverjum klefa”
  • “það er allt út af ástæðu, þetta á að vera leiðinlegt, þetta á ekki að vera gaman. Þú vilt ekki vera þarna. Ef ég er frelsissviptur þá er ástæða til þess og ég er mjög góður í því að vera bara ok ég veit hvað ég gerði og ég þarf bara að taka afleiðingunum. Er alveg jákvæður með þetta í staðinn fyrir að vera eitthvað neikvæður.”

Hvernig myndirðu lýsa því að vera í fangaklefa?

  • “Helvíti”

Hvernig myndirðu lýsa því að vera á Flatahrauni?

  • “Manni langar að drepa sig þarna, gjörsamlega.”
  • “Maður verður geðveikur þarna inni.”
  • “Mátt ekki hringja neitt, enginn að koma í heimsókn. Einu sinni var sjónvarpið bilað og ég var bara að stara á vegginn í einhverja daga.”

Hvernig myndirðu lýsa aðstöðunni á Flatahrauni?

  • Sko þegar þú kemur þarna, löggurnar eru svo ýktar alltaf eitthvað rosa, þurfa að láta eins og þeir ráða, auðvitað ráða þeir en þeir þurfa að sýna það svo mikið að ég hef ekkert vald þarna, alltaf verið að minna mann á það að ég sé þarna af ástæðu. Maður labbar þarna inn og það er gangur og svo bara klefi, bara læstur þarna inni og lítið gat sem þú getur talað í gegnum og lítil dolla, eða svona stálklósett.

Er hurðin sem sagt lokuð og læst? 

  • Já, en það er opið bara svona gat svo þú getir talað. En ég hef einu sinni verið þarna bara einn og þá fékk ég að vera með opna hurð. Ég var í blackouti og þá þurfti ekki að læsa mig inni.

Hvernig fannst þér að vera í fangaklefa á lögreglustöð? 

  • Þú ert bara þarna og lögga standandi yfir þér, getur ekki gert neitt nema bíða.

7.3. Dómstólar

Rætt var við börn sem hafa verið sakborningar eða brotaþolar í sakamálum sem farið hafa fyrir dóm. Spurt var um almenna upplifun þeirra af dómskerfinu, umhverfi, orðfæri og skilning þeirra á því sem fram fer í dómsal.

Öll börnin sem rætt var við lýstu upplifun sinni úr dómsal sem stressandi. Mörg þeirra áttu erfitt með að skilja hvað fram fór í dómsalnum og lýstu því að ekki væri útskýrt sérstaklega fyrir þeim hvað fram fór við meðferð málsins. Þá skildu þau almennt ekki tungutak dómara og lögmanna eða þær upplýsingar sem fram komu í dómsalnum. Flest þeirra nefndu að erfitt hafi verið að skilja vísanir dómara og lögmanna í lagagreinar, og að það hefði hjálpað þeim að finna ró og öryggi væru þær útskýrðar fyrir þeim á barnvænu máli. Þá nefndu öll börnin að það hefði fallið í hlut lögmanna eða réttargæslumanna að útskýra fyrir þeim meðferð málsins og það sem rætt var í dómsal.

dæmi um svör frá börnum...

Hvernig fannst þér að vera í dómsal?

  • Stressandi upplifun.

Skildirðu það sem dómarinn og lögmenn voru að segja í dómsalnum?

  • „Nei ég skil ekki þessar greinar sko.“ (sakborningur)
  • “Hljómaði bara eins og gamaldags íslenska, bara eins og amma og afi tala, maður skilur þetta ekki sko” (sakborningur)
  • “Já örugglega svona 99% og þetta eina prósent var bara svona rosalega hrein og skýr íslenska sem ég skildi ekki. Annars talaði hann bara mjög skýrt” (brotaþoli)
  • „Nei ég tala ekki svona. Þau voru bara eitthvað grein þetta, grein þetta, eitthvað, eitthvað, eitthvað...grein, grein, grein.“ (sakborningur)

Var einhver sem útskýrði fyrir þér hvað væri verið að segja?

  • “Ég spurði lögmanninn minn út í eitthvað smá og hann var bara að hvísla til mín hvað væri í gangi.” (sakborningur)
  • “Já lögmaðurinn aðeins.” (sakborningur)

Hvernig fannst þér fötin sem notuð voru í dómsalnum?

  • Allir í svona „gown“ Ég skil ekki af hverju. Allir í þessu í salnum nema ég, með þetta bláa efni. Skildi þetta bara ekki. Mm tradition eða eitthvað?
  • “Mér fannst fötin vera alveg lúxus, svona business moment, mjög fancy. Svartir gallar sem lögfræðingarnir nota. Lögfræðingurinn minn er alltaf mjög sæt sko og í flottum fötum. Flottur salur og flott húsnæði og allt það.”
  • Bara formleg sko. Bara fínt sko.

Myndirðu vilja að þetta væri öðruvísi, að þau væru ekki í þessum skikkjum?

  • Nei skiptir mig engu máli sko.

Þegar það kom niðurstaða, varstu þá viðstaddur/viðstödd? 

Skildirðu niðurstöðuna? 

  • Já, en ég spurði bara til að vera viss. Spurði lögmanninn. (sakborningur)

Hefðir þú viljað fá meira af upplýsingum? 

  • Já þú veist, að það standi kannski hvaða grein þýddi hvað, það hefði hjálpað mér. (sakborningur)

7.4 Barnavernd

Börnin lýstu blendnum tilfinningum í garð barnaverndar. Börnin voru spurð um almenna upplifun sína af barnavernd, þátttöku og upplýsingagjöf. Sum barnanna höfðu neikvæðar upplifanir í samskiptum sínum við barnavernd, en önnur voru hlutlaus eða jákvæð. Hins vegar kom fram í samtölum við börnin að bæði þau sem hafa jákvæðar og neikvæðar upplifanir af barnavernd finnist þau ekki fá nægar upplýsingar um málin sín, fái ekki að vera þátttakendur og að þau upplifi að ekki sé tekið tillit til þeirra sjónarmiða. Þá ræddu börnin einnig um það að upplýsingagjöf væri í einhverjum tilvikum háð aldri sem þeim finnst ósanngjarnt. Í viðtölum við börnin kom fram skýr vilji þeirra til þess að fá að vera virkir þátttakendur í sínum málum. Mörg þeirra upplifðu að þau hefðu ekki rödd eða að ekki væri hlustað á skoðanir þeirra áður en teknar væru ákvarðanir er varða þau. Þá ræddu þau einnig um mikinn ófyrirsjáanleika og flakk innan kerfisins.

dæmi um svör frá börnum...

 Hvernig er upplifun þín af barnavernd almennt?

  • „Ég hata barnaverndina. (...) Fæ aldrei neinar upplýsingar, aldrei sagt mér neitt ég veit aldrei neitt.“
  • “Ég veit það ekki, bara semi.”
  • „Barnaverndarfulltrúinn minn er mjög næs, ég er heppinn með það. Mín upplifun af barnavernd hefur verið ágæt.“

Finnst þér þú fá að koma þínum sjónarmiðum á framfæri áður en tekin er ákvörðun hjá barnavernd?

  • “Nei, þau gætu gert það betur. Þau spyrja ekki um mitt álit á því að eitthvað verði gert, hvað mér finnist um það áður en það er gert. Allavega ekki nógu mikið.”
  • „Já stundum ef ég er með talsmann.“
  • „Já ég fæ að segja en það breytir aldrei neinu. Ég verð bara að sætta mig það sem er ákveðið. Annars er það bara verra fyrir mig.“

Finnst þér barnavernd hlusta á það sem þú hefur að segja eða biðja um þitt sjónarmið?

  • “Ég hef oftast ekkert mikið að segja sko.”

Finnst þér þú fá allar upplýsingar sem þú þarft að fá frá barnaverndinni?

  • „Alls ekki. Bara með að útskýra fyrir mér hvað ég verð lengi og svona. Fæ ekki upplýsingar um það. Einu sinni var ég að spyrja af hverju ég get ekki farið heim og hún fór bara að hlæja, Þá brjálaðist ég"
  • “Það þarf að auka upplýsingagjöf. Segið mér þó það sé erfitt fyrir mig. Það er betra að vita sannleikann.”
  • “Þau tala alveg við mig en svo er margt í gangi sem mér er ekki sagt frá. Ég veit t.d. að það hafa verið nokkrar áætlanir í gangi sem mér var ekki sagt frá. Sá það bara á borðinu heima. Mér er ekki boðið á fundi eða talað við mig nóg. Finnst ég ekki vera þátttakandi í mínu máli.”
  • „Sko, mér líður eins og ég fái ekki allar upplýsingar. Mjög litlar upplýsingar. Og fósturforeldrar fá líka mjög litlar upplýsingar. Hvað er að gerast í málinu og svona. Hefur ekki heyrst mikið í þeim. Þau koma í heimsókn og skoða og láta mig skrifa undir en það kemur ekki neitt mikið frá þeim.“

Finnst þér þú vera þátttakandi í málinu þínu hjá barnavernd?

  • “Nei bara talað við mömmu, aldrei talað við mig í einrúmi. Mér fannst mamma hafa meira vald yfir þessu en ég, þótt ég hafi lent í þessu þá var mamma alltaf að tala fyrir mig og var kannski ekki að segja allt sem gerðist. Mamma er alltaf viðstödd í öllu, þegar ég tala við fólk.”

7.5 Sýslumenn

Aðeins eitt af þeim börnum sem rætt var við hafði reynslu af meðferð máls hjá sýslumanni. Barnið lýsti einna helst vonbrigðum með langan málsmeðferðartíma og skort á upplýsingagjöf.

dæmi um svör frá börnum...

Hvernig var upplifun þín almennt?

  • “Bara svona miðlungs.”

Fannst þér hlustað á þig hjá sýslumanni?

  • “Já í viðtalinu þá var alveg hlustað en svona kerfislega er það ekki gert.”

Voru ákvarðanir eða úrskurðir sýslumanns kynntar fyrir þér sérstaklega?

  • Nei bara mamma sem gerir það. Eða ég heyri um það óvart að einhver umgengnissamningur sé í gangi sem ég vissi ekki af.

Fannst þér þú fá allar nauðsynlegar upplýsingar hjá sýslumanni?

  • Nei það var bara verið að segja bara smá um málið og svona grunnur. Ég fæ ekki upplýsingar um hvernig málið gengur fyrir sig og hvað er gert.

7.6 Útlendingastofnun

Aðeins eitt af þeim börnum sem rætt var við hafði verið með mál til meðferðar hjá Útlendingastofnun. Barnið lýsti því að hafa komið hingað til lands 10 ára með móður sinni og hefur lítil samskipti átt við stofnunina frá þeim tíma.

dæmi um svör frá börnum...

 Hvað gerðist þá? Þurftir þú að fara í viðtal hjá Útlendingastofnun?

  • Ég man það ekki. En ég man bara að ég þarf að fara á tveggja ára fresti til þess að taka nýja mynd fyrir dvalarleyfið.

Hvað er gert þá? 

  • Bara mæta í myndatöku

En þegar þú fékkst dvalarleyfi, varst þú ekkert inni í því máli? 

  • Nei ekki neitt, bara mamma.

Veistu hvað það þýðir að vera með dvalarleyfi? 

  • Já held það.

Hefur einhver frá Útlendingastofnun talað við þig og útskýrt fyrir þér réttindi þín eða hvaða stöðu þú hefur? 

  • Nei aldrei talað við neinn.

Hefurðu reynt að finna upplýsingar um þetta, t.d. á heimasíðunni hjá þeim? 

  • Nei lítið.

Þannig að þú hefur engin samskipti átt við Útlendingastofnun og hefur engar upplýsingar fengið?

  • Nei, bara þessar myndatökur

8. Niðurstöður

Þær alþjóðlegu skuldbindingar, sem fjallað hefur verið um í kafla 3, krefjast þess að ríki grípi til sérstakra ráðstafana til að vernda réttindi barna innan réttarkerfisins og tryggja að öll opinber málsmeðferð sé aðlöguð að þörfum þeirra. Þá grundvallast hugtakið barnvæn réttarvarsla einnig á réttindum barna samkvæmt Barnasáttmálanum, sem fjallað hefur verið um í kafla 4. Könnun umboðsmanns um framkvæmdina hér á landi, sem fjallað er um í kafla 6, ásamt viðtölum við börn sem hafa reynslu af réttarkerfinu og fjallað er um í kafla 7, leiðir í ljós að íslenskt réttarkerfi uppfyllir ekki að fullu alþjóðlegar skuldbindingar um barnvæna réttarvörslu og samræmist framkvæmd í mörgu tilliti ekki réttindum barna samkvæmt Barnasáttmálanum. Margt bendir til þess að þrátt fyrir almenna viðleitni stofnana til að taka mið af réttindum barna, sé talsvert ósamræmi innan kerfisins hvað varðar skilning mismunandi aðila á hlutverki, skyldum og framkvæmd, bæði innan og utan ákveðinna málefnasviða. Ljóst er að þörf er á aukinni samræmingu innan fagstétta og að margvíslegar úrbætur eru nauðsynlegar til að styrkja réttindi barna innan réttarkerfisins. Þá kalla leiðbeiningareglur Evrópuráðsins á það að ríki leggi heildstætt mat á málaflokkinn og grípi til sérstakra ráðstafana til að tryggja barnvæna réttarvörslu. Er það von umboðsmanns barna að stjórnvöld nýti niðurstöður þessarar greiningar til þess að leggja mat á það hvaða ráðstafana verði gripið til í því skyni.

Þrátt fyrir ágæta lagalega umgjörð um réttindi barna er ljóst að skortur er á útfærslu í framkvæmd, einkum varðandi upplýsingagjöf, aðlögun málsmeðferðar að börnum og tryggingu fyrir þátttöku þeirra í eigin málum. Mikilvægt er að grípa til markvissra úrbóta í upplýsingagjöf, þátttöku barna og samræmingu milli stofnana til að tryggja að börn njóti réttlátrar málsmeðferðar í samræmi við Barnasáttmálann og alþjóðlega mannréttindasáttmála.

Viðtöl við börn sýna einnig að þeirra upplifun af réttarkerfinu er oft neikvæðari en mat stofnana gefur til kynna. Benda niðurstöður til þess að börn upplifi sig oft vanmáttug í samskiptum við réttarkerfið og upplifa sig ekki sem raunverulega þátttakendur í málsmeðferð.

Könnunin sýnir að almennt er góð þekking á hugmyndafræði barnvænnar réttarvörslu innan réttarkerfisins og íslenskrar stjórnsýslu. Þó er ljóst að takmörkuð fræðsla hefur átt sér stað hjá stofnunum ríkisins en greina má mikinn áhuga á slíkri fræðslu. Þá sýna niðurstöðurnar einnig að um helmingur stofnana hefur ekki gripið til sérstakra ráðstafana til að tryggja barnvænni málsmeðferð.

Upplýsingagjöf

Stofnanir telja sig almennt gefa börnum góðar upplýsingar um réttindi þeirra í tengslum við málsmeðferð. Viðtöl við börn benda þó til þess að verulega skorti á að börn fái allar nauðsynlegar upplýsingar um réttindi sín við málsmeðferð eða gengið sé úr skugga um að þau hafi meðtekið og skilið upplýsingarnar. Á það við um öll kerfi sem könnunin náði til. Ljóst er af niðurstöðunum að auka þarf verulega aðgengi barna að upplýsingaefni innan réttarkerfisins, bæði hvað varðar beina upplýsingagjöf til barna við málsmeðferð og almennar upplýsingar sem aðgengilegar eru börnum um hlutverk stofnana.

Börn sem höfðu reynslu af dómsmálum lýstu því að þau skildu almennt ekki það sem fór fram í dómsalnum. Lögfræðilegt orðfæri og vísanir í lagagreinar voru þeim oft óskiljanlegar, og fram kom bæði í viðtölum við börn og svörum dómstóla að það félli yfirleitt í hlut lögmanna þeirra eða réttargæslumanna að útskýra ferlið fyrir þeim, sem og niðurstöður mála. Svör dómstóla í könnuninni benda til þess að börn fái upplýsingar um málsmeðferðina en að framkvæmdin sé ekki almennt ekki barnvæn. Þá lýstu börn einnig skorti á upplýsingagjöf af hálfu annarra stjórnvalda, einkum, lögreglu og barnaverndar. Fram kom hjá börnunum að þau fengu almennt ekki upplýsingar um vinnslu máls, framvindu og ferlið í heild sinni og upplifðu sig ekki þátttakendur í eigin málum.

Upplýsingagjöf og ráðgjöf flokkast undir almenna grunnþætti barnvænnar réttarvörslu og fram kemur í reglunum að almennt beri að veita bæði börnum og foreldrum eða réttargæslumönnun upplýsingar með beinum hætti og að ekki skuli líta á upplýsingagjöf til foreldra sem valkost sem getur komið í staðinn fyrir beina upplýsingagjöf til barna. Veita skal barni upplýsingar eftir því sem aldur og þroski þess gefur til kynna og forðast að setja ákveðin aldurstakmörk hvað það varðar. Þá er það einnig nauðsynlegur liður í því að tryggja rétt barns til þátttöku og rétt þess til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri við málsmeðferðina.

Úttektin hér að framan sýnir einnig að bæta þarf upplýsingagjöf til barna á vefsíðum stofnana. Mikilvægur liður í því að börn geti nýtt rétt sinn við málsmeðferð er að þau geti sjálf aflað sér upplýsinga um málsmeðferðina eða feril máls kjósi þau það. Samkvæmt 12. gr. Barnasáttmálans eiga börn rétt á upplýsingum við hæfi sem er jafnframt ein af meginforsendum fyrir þátttöku barna. Til þess að það sé mögulegt, þurfa stofnanir að taka upplýsingastefnu sína til endurskoðunar, út frá hagsmunum og þörfum barna. Við vinnslu og framsetningu kynningar- og fræðsluefnis sem og efni á vefsíðum stofnana, þarf að huga að því að gera í það minnsta hluta efnisins aðgengilegt börnum. Það er liður í því að börn geti sjálfstætt og á eigin forsendum leitað sér upplýsinga um eigin réttindi, málsmeðferð, þjónustu og önnur tiltæk úrræði. Þá ber að líta til þess að upplýsingaefni sem er á einföldu og auðskildu máli nýtist jafnframt öðrum hópum og því getur ávinningurinn af því að setja fram efni með þessum hætti orðið margfaldur.

Öryggi, þjálfun fagfólks og þverfagleg nálgun

Talsvert ósamræmi var í svörum stofnana bæði innan málaflokka og utan hvað varðar öryggi og fyrirbyggjandi aðgerðir við málsmeðferð. Ljóst er að samræma þarf betur hlutverk fagaðila innan réttarkerfisins til þess að tryggja öryggi barna og að sá skilningur sé skýr meðal þeirra fagaðila sem vinna að einstaka málum innan réttarkerfisins. Þá benda svörin einnig til þess að þörf sé á frekari samhæfingu innan málaflokka hvað varðar markvissa og reglubundna könnun á hæfni fagfólks sem starfar með börnum og samræmdum verklagsreglum. Þörf er á aukinni samhæfingu og skýrari reglum um þær kröfur sem gerðar eru til þekkingar og fræðslu til fagfólks innan réttarkerfisins. Forsenda þess að markmiðum barnvænnar réttarvörslu sé náð er að starfsfólk sem starfar með börnum og í þágu þeirra, fái viðeigandi fræðslu um réttindi barna, þarfir þeirra og barnvæna málsmeðferð. Ljóst er að rík áhersla er innan réttarkerfisins á þverfaglega samvinnu en niðurstöðurnar sýna þó að skerpa þurfi á sameiginlegum skilningi og samhæfingu innan alls réttarkerfisins.

Viðtöl/samtöl við börn

Í könnuninni birtist talsvert ósamræmi í svörum um það hvort stofnanir notist við sérstaka viðtalstækni þegar tekin eru viðtöl eða skýrslur af börnum. Almennt er ekki hægt að halda því fram að til staðar séu skýrar verklagsreglur innan réttarkerfisins um það hvernig viðtöl við börn skuli fara fram og ljóst að brýn þörf er á aukinni þjálfun í viðtölum/samtölum við börn innan réttarkerfisins og aukinni samræmingu innan fagstétta hvernig standa skuli að slíkri þjálfun og viðhalda henni.

Ákveðnar stofnanir miða við að ekki sé rætt við börn fyrr en við 12 ára aldur nema sérstakar aðstæður séu fyrir hendi. Fram kom hjá Útlendingastofnun að almennt sé ekki rætt við börn yngri en 12 ára þegar taka á ákvarðanir á grundvelli útlendingalaga. Ljóst er að það þarf að fara fram einstaklingsbundið mat í hverju tilfelli með hliðsjón af aldri, þroska og getu barnsins til að meðtaka upplýsingar og tjá sig. Í ljósi þess að meirihluti svarenda binda rétt barns til þess að tjá sig við ákveðin aldursmörk, er ljóst er að brýna þarf skyldu stjórnvalda til þess að virða betur rétt barna samkvæmt 12. gr. Barnasáttmálans þegar um er að ræða meðferð mála innan réttarkerfisins. Þá voru svör einnig ólík innan allra málaflokka og því ljóst að samræma þarf verklag innan sömu stofnana og efla sameiginlegan skilning hvað varðar þennan mikilvæga rétt barna.

Aðstaða, umhverfi og aðgengi barna að stofnunum

Í könnuninni kom fram að stofnanir eru meirihluti stofnana eru staðsettar í húsnæði sem er aðgengilegt börnum. Þó telja nærri fjórðungur stofnana að húsnæði þeirra sé óaðgengilegt börnum, en ekki er fyllilega ljóst hvernig sá skortur á aðgengi lýsir sér. Aðgengi barna í víðu samhengi er ein af meginreglum Barnasáttmálans. Með því að tryggja aðgengi barna senda stofnanir þau skilaboð til barna að ekki sé aðeins gert ráð fyrir þeim heldur séu þau jafnframt velkomin. Í könnuninni kom fram að almennt sé ekki aðstaða, hvorki biðaðstaða né sérstök viðtalsherbergi fyrir börn í dómstólum landsins.

Ljóst er af svörunum að talsvert má bæta innan réttarkerfisins hvað varðar umhverfi og aðstöðu stofnana. Mikilvægt er að stofnanir innan réttarkerfisins skapi barnvænt umhverfi sem stuðlar að velferð barna og veitir þeim öryggistilfinningu. Barnvænt réttarkerfi byggist á því að virða réttindi barna og tryggja að þau upplifi ekki óþarfa álag eða ógn. Þetta felur í sér að á meðan börn taka þátt í málsmeðferð þarf að tryggja að ferlið í heild sinni sé sem minnst yfirþyrmandi.

Lögregluafskipti af börnum og rannsókn sakamála

Af niðurstöðum könnunarinnar má ráða að almennt eru ekki til staðar skýrar verklagsreglur sem öllum lögregluembættum er gert að fylgja varðandi tilefni, nauðsyn og hámarkstíma frelsissviptingar. Fram kom að á neyðarvistun Stuðla séu í gildi slíkar verklagsreglur. Einnig er ljóst af niðurstöðunum að lítill samhljómur er um það innan lögregluembætta hvort börnum sé haldið aðskildum frá fullorðnum. Ekki er fullur samhljómur á milli lögregluembætta á landsvísu hvort í gildi séu skýrar reglur sem ávarpa réttindi barna í samskiptum við lögreglu. Af svörunum má því ráða að ekki sé ljóst hvort upplýsingar um réttindi barna í samskiptum við lögreglu séu aðgengilegar.

Viðtöl við börn leiddu í ljós að mörg þeirra upplifðu óþarfa hörku af hálfu lögreglunnar og að beiting þvingunar ætti ekki ávallt rétt á sér að þeirra mati. Fram kom að lögregluyfirvöld leggja áherslu á meðalhóf og barnvæna málsmeðferð, en frásagnir barnanna benda til annars. Sérstaklega kom fram að börn töldu sig ekki fá nægjanlega skýrar upplýsingar um stöðu sína og réttindi, sérstaklega við handtöku og skýrslutöku.

Umboðsmaður barna hvetur löggæsluyfirvöld til þess að grípa til sérstakra ráðstafana í því skyni að styrkja réttindi barna innan refsivörslukerfisins. Nauðsynlegt er að vinna að aukinni samhæfingu meðal lögregluembætta á landsvísu, sem og samræmingu verkferla hvað varðar samskipti við börn og réttindi barna í þeim aðstæðum. Þá er brýnt að upplýsingagjöf til barna verði bætt til muna og að útbúið verði barnvænt upplýsingaefni um réttindi barna í samskiptum við lögreglu og við rannsókn sakamála. Jákvætt er að notast sé við uppbyggilega réttvísi í auknum mæli í málum barna en mikilvægt er að sú framkvæmd sé skýr og samræmd á landsvísu. Þá er afar brýnt að gerður sé skýr greinarmunur á börnum og fullorðnum innan refsivörslukerfisins og að tekið sé tillit til sérstakra þarfa barna. Vert er að íhuga hvort tilefni sé til þess að útbúa sérstaka aðstöðu innan lögreglustöðva sem ætluð er börnum og ungmennum, svo að aðskilja megi börn og fullorðna sem stödd eru á lögreglustöð. Þá er einnig ljóst að auka þarf markvissa og reglubundna könnun á hæfni fagfólks sem starfar með börnum og skýrari reglum um þær kröfur sem gerðar eru til þekkingar og fræðslu starfsfólks um réttindi barna, þarfir þeirra og barnvæna málsmeðferð.

Þátttaka barna í eigin málum

Grundvallarforsenda barnvænnar réttarvörslu er að börn séu raunverulegir þátttakendur í málsmeðferð sem þau varðar. Niðurstöðurnar benda til þess að þátttaka barna innan réttarkerfisins sé oft takmörkuð og að réttur þeirra samkvæmt 12. gr. Barnasáttmálans sé þannig ekki virtur að fullu. Til þess að tryggja að þátttaka barns hafi raunverulegt gildi eru ýmsir þættir sem huga þarf að og fjallað hefur verið um hér að framan, t.a.m. skýr upplýsingagjöf, barnvænt umhverfi og þjálfun fagfólks. Í viðtölum við börn kom fram skýr vilji þeirra til að fá vera virkari þátttakendur í eigin málum og benda niðurstöður til þess að sérstaklega þurfi að styrkja þátttöku barna í barnaverndarmálum. Börnin lýstu einnig miklum ófyrirsjáanleika, þvert á öll kerfi, og að þau fái almennt ekki upplýsingar um framgang og framvindu mála. Þá töldu þau einnig að sjónarmið þeirra, fái þau að koma þeim á framfæri, hafi oft á tíðum lítið vægi við ákvarðanatöku. Umboðsmaður barna hvetur stjórnvöld til þess að huga sérstaklega að því hvernig unnt er að tryggja betur þátttöku barna í eigin málum og hvernig styrkja megi rétt barna til þátttöku innan réttarkerfisins á markvissan hátt.

Frelsissviptingar barna og notkun fangaklefa

Viðtöl við börnin varpa ljósi á það að frelsissviptingar séu þeim í flestum tilvikum verulega þungbærar og valdi þeim vanlíðan. Frásagnir barna af vistun í fangageymslum lögreglustöðvarinnar í Flatahrauni styðja einnig við það mat umboðsmanns barna og umboðsmanns Alþingis, að sú aðstaða sé með öllu óviðunandi sem vistunarstaður fyrir börn. Þá benda niðurstöður einnig til þess að skýra þurfi frekar skyldu stjórnvalda til þess að tryggja að frelsissvipt börn fái viðeigandi menntun, náms- og starfsráðgjöf og hafi aðgang að tómstundum og útiveru, þar á meðal líkamsrækt og íþróttum. Þá leggur umboðsmaður barna ríka áherslu á það að börn skuli ekki vistuð í fangaklefum og að öll aðstaða þar sem börn eru vistuð þurfi að öðru leyti að hæfa einstaklingsbundnum þörfum þeirra og styðja við andlega, líkamlega og félagslega velferð þeirra. Börn sem svipt eru frelsi sínu skulu í öllum tilvikum meðhöndluð með virðingu og réttindi þeirra virt í samræmi við alþjóðlegar mannréttindareglur og stjórnarskrárvarin réttindi þeirra. Þá skal ekki í neinum tilvikum láta börn sæta einangrunarvist. Umboðsmaður barna hvetur stjórnvöld til að grípa til sérstakra ráðstafana til að framangreint verði tryggt.

Dómstólar

Af svörum dómstóla í könnuninni má ráða að almennt sé leitast við að veita börnum leiðbeiningar um rétt sinn til að tjá sig við meðferð máls fyrir dómi en ljóst er að samræma þarf að einhverju leyti þá framkvæmd innan dómskerfisins. Töluvert ósamræmi birtist í niðurstöðum á milli svara dómstóla og sýndi könnunin að ólíkur skilningur er á því hverjum beri skylda til þess að veita barni útskýringar og upplýsingar um dómsniðurstöður. Algengast virðist þó vera að dómstólar líti ekki á það sem sína skyldu. Sérstaklega kom fram misræmi um það hvernig komið er til móts við börn sem náð hafa 15 ára aldri, þar sem þau njóta ekki sömu aðlögunar í dómsferlinu og yngri börn. Leggur umboðsmaður barna til að gripið verði til sérstakra aðgerða til þess að börn eldri en 15 ára njóta sama réttar og yngri börn innan dómskerfisins.

Þá kom fram að börnum er almennt ekki kynnt húsnæði dómstóla eða hlutverk aðila áður en mál sem varða börn eru tekin fyrir. Dómstólar telja almennt að börn skilji það sem fram fer við meðferð máls fyrir dómi, enda kom fram í svörum þeirra að sérstaklega sé gætt að því að nota orðfæri sem hæfir aldri barns og skilningsgetu þegar þau eru viðstödd þinghöld. Viðtöl við börn sem höfðu tekið þátt í dómsmálum sýndu að mörg þeirra skildu ekki nægjanlega vel hvað fór fram í réttarsalnum. Börnin nefndu að dómarar og lögmenn notuðu oft flókið lagamál sem þau skildu illa og að þau fengu sjaldnast nægan tíma til að fá útskýringar á ferlinu. Upplifun barnanna bendir því til þess að þær upplýsingar hafi ekki verið aðgengilegar þeim á skiljanlegan hátt. Umboðsmaður barna mælist til þess að lagt verði sérstakt mat á þær aðgerðir sem nauðsynlegar eru til þess að styrkja réttindi barna innan dómskerfisins svo að aðlaga megi málsmeðferð betur að þörfum barna og tryggja raunverulega þátttöku þeirra í eigin málum.


[1] Sjá t.d. dóm Mannréttindadómstóls Evrópu, MDE, M. gegn Króatíu, 3. desember 2015, mál nr. 10161/13.

[2] Sjá dóm Mannréttindadómstóls Evrópu, MDE, Blokhin v Rússland, 23. mars 2016, mál nr. 47152/06.

[3] Guide on the case-law of the European Convention on Human Rights. Rights of the child. Strassbourg. 2024.

[4] General comment No. 24 (2019) on children's rights in the child justice system | OHCHR

[5] Draft general comment No. 27 on children's rights to access to justice and effective remedies | OHCHR

[6] United nations rules for the protection of juveiles deprived of their liberty. 1990.


Umboðsmaður barna, Reykjavík 26. mars 2025 


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica