6. mars 2025

Bréf til mennta- og barnamálaráðherra vegna neyðarvistunar barna í Flatahrauni

Umboðsmaður barna hefur sent mennta- og barnamálaráðherra bréf vegna neyðarvistunar barna í fangageymslu lögreglustöðvarinnar í Flatahrauni.

Bréfið er sent vegna misvísandi upplýsinga um neyðarvistun barna í fangageymslu lögreglustöðvarinnar í Flatahrauni.

Fram hefur komið, bæði opinberlega og í samskiptum umboðsmanns annars vegar við Barna- og fjölskyldustofu og hins vegar við mennta- og barnamálaráðuneytið, að úrræðið í Flatahrauni sé í lítilli notkun og að það sé eingöngu notað í neyðartilvikum. Þá hefur jafnframt ítrekað komið fram að börn hafi ekki dvalið þar lengur en í tvo sólarhringa í senn.

Umboðsmanni hafa borist erindi frá foreldrum barna sem vistast hafa á Flatahrauni. Í erindum foreldra hefur komið fram að börn þeirra hafi verið vistuð í úrræðinu mun lengur en í tvo sólarhringa, eða í allt að viku. Í kjölfar þessara upplýsinga sendi umboðsmaður barna erindi þar sem óskað var eftir upplýsingum frá Barna- og fjölskyldustofu um neyðarvistun barna í Flatahrauni. Þær sýna að frá því að úrræðið var tekið í notkun hafa börn verið vistuð á Flatahrauni í 41 skipti og að vistun hafi varað í allt að sex daga í senn. Þá kemur einnig fram að börn allt niður í 12 ára hafi vistast í úrræðinu.

Umboðsmaður óskaði einnig eftir afriti af starfsleyfi vegna reksturs úrræðisins frá heilbrigðiseftirliti Garðabæjar, Hafnarfjarðar, Kópavogs, Mosfellsbæjar og Seltjarnarness og skýrslu vegna heilbrigðiseftirlits. Í leyfinu og eftirlitsskýrslu heilbrigðisnefndar, sem gefin var út þann 31. október 2024, kemur fram að hámarksvistunartími á Flatahrauni séu sjö sólarhringar.

Í ljósi framangreindra upplýsinga getur umboðsmaður ekki annað en gert alvarlegar athugasemdir við þessa framkvæmd. Benda framangreindar upplýsingar til þess að frá upphafi hafi verið gert ráð fyrir að hámarksvistunartími í úrræðinu væru sjö sólarhringar en ekki tveir sólarhringar eins og og komið hefur ítrekað fram hjá Barna- og fjölskyldustofu og í svörum mennta- og barnamálaráðuneytisins.

Umboðsmaður barna hefur um árabil bent á að vistun barna í fangaklefum sé með öllu óásættanleg ráðstöfun og ekki í samræmi við meginreglur Barnasáttmálans. Embættið óskar eftir að ráðuneytið upplýsi embættið tafarlaust um til hvaða ráðstafana verði gripið til þess að loka megi þessu úrræði fyrir börn.

Bréf til mennta- og barnamálaráðherra vegna Flatahrauns


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica