6. febrúar 2025

Mennta- og barnamálaráðherra afhent bréf vegna stöðu barna með fjölþættan vanda

Umboðsmaður barna afhenti nýjum mennta- og barnamálaráðherra bréf vegna meðferðarkerfisins og skort á úrræðum fyrir börn og ungmenni með fjölþættan vanda. 

Umboðsmaður barna fundaði í gær með nýjum mennta- og barnamálaráðherra, Ásthildi Lóu Þórsdóttur. Umboðsmaður notaði tækifærið og þakkaði ráðherra fyrir að hafa verið viðstaddur 30 ára afmælishátíð embættisins sem haldin var í Hörpu 9. janúar sl.

Á fundi umboðsmanns og ráðherra var sérstaklega rætt um stöðu barna með fjölþættan vanda og skort á úrræðum fyrir þann viðkvæma hóp.

Embætti umboðsmanns barna hefur á undanförnum mánuðum átt í bréfasamskiptum við mennta- og barnamálaráðuneytið vegna meðferðarkerfisins og því úrræðaleysi sem ríkt hefur í málefnum barna og ungmenna með fjölþættan vanda. Umboðamaður hefur verið í reglulegum samskiptum við bæði barnaverndarþjónustur og foreldra barna sem þurfa á meðferðarþjónustu að halda. Er þar samhljómur um það úrræðaleysi sem við blasir og lýsa bæði foreldrar og barnaverndarstarfsmenn miklu vonleysi.

Í bréfi umboðsmanns barna til nýs mennta- og barnamálaráðherra Ásthildar Lóu, sem afhent var á fundi 5. febrúar sl., eru samskipti embættisins við ráðuneytið rakin. Þar áréttar umboðsmaður að mennta- og barnamálaráðuneytið beri ábyrgð á því að til staðar séu þau meðferðarúrræði sem fjallað er um í. 79. gr. barnaverndarlaga, óháð ábyrgð annarra stjórnvalda hvað varðar þjónustu við þennan hóp barna.

Á fundinum kom fram að nýr ráðherra og ráðuneytið vinni að ýmsum leiðum til að bregðast við vandanum, sem m.a. hafi verið kynntar í ríkisstjórn. Embættið vonast eftir jákvæðu samstarfi við nýjan ráðherra í málefnum barna og að jákvæð skref verði stigin á næstunni til úrlausnar á þeim mikla vanda sem við blasi í þessum málaflokki. 

Bréf til mennta- og barnamálaráðherra


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica