Dæmi um verkefni ráðgjafarhóps
Ráðgjafarhópur umboðsmanns barna vinnur að ýmsum verkefnum í samráði við embættið.
Verkefni ársins 2024
Ráðgjafahópur fundar með ráðherra
Ráðgjafarhópur umboðsmanns barna átti fund með mennta- og barnamálaráðherra þann 10. janúar 2024 þar sem umræðuefnið var bréf sem hópurinn sendi til ráðherra í október árið 2023. Fundurinn gekk mjög vel.
Fundur ENYA í Bratislava
Fundur ENYA (European Network of Young Advisors) fór fram í Bratislava dagana 1. - 2. júlí 2024 þar sem 18 ungmenni frá 16 löndum á vegum evrópusamtaka umboðsmanns barna fjölluðu um börn í fósturkerfinu. Júlíana Rós Skúladóttir og Oddi Sverrisson voru fulltrúar embættisins á fundinum og stóðu sig virkilega vel.
Ráðgjafahópur afhendir ráðherrum skýrslu barnaþing
Ráðgjafarhópur umboðsmanns barna ásamt Salvöru Nordal, umboðsmanni barna, afhentu ráðherrum skýrslu barnaþings sem haldið var í lok árs 2023. Hægt er að skoða skýrsluna hér.
Kosningafundur barna
Ráðgjafarhópur umboðsmanns barna efndi til sérstaks kosningafundar þann 20. nóvember 2024 með fulltrúum þeirra framboða sem bjóða fram til alþingiskosninganna sem fóru fram 10 dögum síðar. Fulltrúar úr hópnum voru spyrlar á fundinum sem var vel sóttur. Hægt er að finna upptöku af fundinum hér.
Verkefni ársins 2023
Fundur ENYA á Möltu
Tveir fulltrúar úr ráðgjafarhópi umboðsmanns barna, þær Aldís og Kolbrún, sóttu dagana 3.-5. júlí fund ENYA (European Network of Young Advisors) sem vinnur með samtökum evrópskra umboðsmanna barna. Fundurinn var haldinn á Möltu og hann sóttu um 36 ungmenni frá 18 löndum.
Barnaþing
Barnaþing var sett í Hörpu þann 17.nóvember 2023 og tók ráðgjafahópurinn virkan þátt á þinginu. Hópurinn kynnti m.a. starf sitt og tók þátt í ýmsum öðrum verkefnum tengdu Barnaþinginu.
Bréf til mennta- og barnamálaráðherra
Ráðgjafarhópur umboðsmanns barna sendi bréf til mennta- og barnamálaráðherra vegna fræðslu um málefni jaðarsettra hópa. Bréfið má sjá hér.
Verkefni ársins 2022
Barnaþing
Ráðgjafarhópurinn tók virkan þátt í Barnaþingi sem haldið var í annað sinn dagana 3. og 4. mars 2022. Fulltrúar ráðgjafarhóps umboðsmanns sáu m.a. um samfélagsmiðla embættisins þessa daga, voru í hlutverki kynna á hátíðardagskrá og ýmis önnur verkefni því tengdu.
Verkefni ársins 2021
Yfirlýsing um vernd barna í fjölmiðlum
Í febrúar 2021 sendi ráðgjafarhópurinn frá sér yfirlýsingu um mikilvægi þess að tryggja börnum vernd gegn opinberri niðurlægingu í kjölfar upptöku af atviki sem átti sér stað í útsendingu Ríkissjónvarpsins. Mikil umræða skapaðist sökum þess að útsending var ekki rofin strax og áréttaði ráðgjafarhópurinn mikilvægi þess að skýrt regluverk verði sett um þátttöku barna í fjölmiðlum sem taki sérstakt mið af rétti barna til friðhelgi einkalífs.
Kosningafundur barna
Í september hélt ráðgjafarhópurinn vel heppnaðan kosningafund barna í Hörpu, en um var að ræða samstarfsverkefni umboðsmanns barna og KrakkaRÚV. Fulltrúar frá níu framboðslistum mættu á fundinn og svöruðu þar spurningum ráðgjafarhópsins. Fundurinn var tekinn upp og er aðgengilegur á vefsíðu embættisins.
Fundur fólksins
Í september tóku nokkur ungmenni úr ráðgjafarhópnum þátt í Fundi fólksins sem fór fram í Norræna húsinu. Þar ræddu ungmennin um skólastarf á tímum kórónuveirunnar og rafræna kennslu og þá mismunun sem felst í aðstöðumun barna sem hafa ekki öll aðgang að tölvu og síma á heimilum sínum. Einnig fjallaði ráðgjafarhópurinn um stöðu barna í kjölfar faraldursins sem mörg hver hafa þróað með sér félagskvíða.
Samráð um framsetningu á upplýsingaefni til barna og ungmenna
Í lok árs leitaði landlæknir til ráðgjafarhópsins vegna vinnu við framsetningu á upplýsingaefni til barna og ungmenna um fyrirhugaðar bólusetningar gegn kórónuveirunni. Ráðgjafarhópurinn rýndi í textana og lagði til ýmsar breytingar í því skyni að gera efnið aðgengilegra, skýrara og frekar við hæfi barna. Einnig kom ráðgjafarhópurinn á framfæri tillögum um hvaða leiðir ætti að nýta til að koma efninu á framfæri við börn.