Dæmi um verkefni ráðgjafarhóps
Ráðgjafarhópur umboðsmanns barna vinnur að ýmsum verkefnum í samráði við embættið.
Verkefni ársins 2022
Barnaþing
Ráðgjafarhópurinn tók virkan þátt í Barnaþingi sem haldið var í annað sinn dagana 3. og 4. mars 2022. Fulltrúar ráðgjafarhóps umboðsmanns sáu m.a. um samfélagsmiðla embættisins þessa daga, voru í hlutverki kynna á hátíðardagskrá og ýmis önnur verkefni því tengdu.
Verkefni ársins 2021
Yfirlýsing um vernd barna í fjölmiðlum
Í febrúar 2021 sendi ráðgjafarhópurinn frá sér yfirlýsingu um mikilvægi þess að tryggja börnum vernd gegn opinberri niðurlægingu í kjölfar upptöku af atviki sem átti sér stað í útsendingu Ríkissjónvarpsins. Mikil umræða skapaðist sökum þess að útsending var ekki rofin strax og áréttaði ráðgjafarhópurinn mikilvægi þess að skýrt regluverk verði sett um þátttöku barna í fjölmiðlum sem taki sérstakt mið af rétti barna til friðhelgi einkalífs.
Kosningafundur barna
Í september hélt ráðgjafarhópurinn vel heppnaðan kosningafund barna í Hörpu, en um var að ræða samstarfsverkefni umboðsmanns barna og KrakkaRÚV. Fulltrúar frá níu framboðslistum mættu á fundinn og svöruðu þar spurningum ráðgjafarhópsins. Fundurinn var tekinn upp og er aðgengilegur á vefsíðu embættisins.
Fundur fólksins
Í september tóku nokkur ungmenni úr ráðgjafarhópnum þátt í Fundi fólksins sem fór fram í Norræna húsinu. Þar ræddu ungmennin um skólastarf á tímum kórónuveirunnar og rafræna kennslu og þá mismunun sem felst í aðstöðumun barna sem hafa ekki öll aðgang að tölvu og síma á heimilum sínum. Einnig fjallaði ráðgjafarhópurinn um stöðu barna í kjölfar faraldursins sem mörg hver hafa þróað með sér félagskvíða.
Samráð um framsetningu á upplýsingaefni til barna og ungmenna
Í lok árs leitaði landlæknir til ráðgjafarhópsins vegna vinnu við framsetningu á upplýsingaefni til barna og ungmenna um fyrirhugaðar bólusetningar gegn kórónuveirunni. Ráðgjafarhópurinn rýndi í textana og lagði til ýmsar breytingar í því skyni að gera efnið aðgengilegra, skýrara og frekar við hæfi barna. Einnig kom ráðgjafarhópurinn á framfæri tillögum um hvaða leiðir ætti að nýta til að koma efninu á framfæri við börn.