Fylgd barna úr frístund
Svar hefur borist frá Reykjavíkurborg við erindi umboðsmanns barna um fylgd barna úr frístundaheimilum á íþróttaæfingar.
Umboðsmaður barna sendi bréfið þann 18. október 2023 og var því ætlað að fylgja eftir öðru bréfi saman efnis sem embættið sendi 20. október 2022.
Í bréfi umboðsmanns barna kom fram að embættinu hefðu borist erindi frá foreldrum sem lýst hefðu áhyggjum af því að öryggi barna þeirra væri ekki tryggt þegar þeim væri fylgt úr frístundaheimilum á íþróttaæfingar, sem er þjónusta veitt á grundvelli samstarfs íþróttafélaga og Reykjavíkurborgar. Óskaði umboðsmaður barna, með vísan til 5. gr. laga um umboðsmann barna, nr. 83/1994, eftir upplýsingum um með hvaða hætti sveitarfélagið hygðist tryggja öryggi barna að þessu leyti og hvaða ráðstafanir hefðu verið gerðar í því skyni að endurskoða öruggar og vistvænar leiðir varðandi frístundaakstur og fylgdarmenn líkt og kveðið er á um í stefnu í íþróttamálum Reykjavíkur.