18. október 2023

Fylgd barna úr frístundaheimilum

Umboðsmaður barna hefur sent eftirfarandi bréf stílað á Menningar-, íþróttasvið og tómstundaráð Reykjavíkurborgar vegna fylgdar barna úr frístundaheimilum á íþróttaæfingar. 

Bréfið fylgir eftir öðru bréfi saman efnis sem embættið sendi 20. október 2022 en svar hefur enn ekki borist til umboðsmanns barna. 

Bréf umboðsmanns barna til Menningar-, íþrótta og tómstundaráðs Reykjavíkurborgar...

Reykjavík, 18. október 2023

Efni: Fylgd barna úr frístundaheimilum á íþróttaæfingar

Þann 20. október 2022 sendi umboðsmaður barna erindi til menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs Reykjavíkurborgar varðandi fylgd barna úr frístundaheimilum á íþróttaæfingar. Í bréfinu kom fram að embættinu hefðu borist erindi frá foreldrum sem lýst hefðu áhyggjum af því að öryggi barna þeirra væri ekki tryggt þegar þeim væri fylgt úr frístundaheimilum á íþróttaæfingar, sem er þjónusta veitt á grundvelli samstarfs íþróttafélaga og Reykjavíkurborgar.

Með erindinu óskaði umboðsmaður barna, með vísan til 5. gr. laga um umboðsmann barna, nr. 83/1994, eftir upplýsingum um með hvaða hætti sveitarfélagið hygðist tryggja öryggi barna að þessu leyti og hvaða ráðstafanir hefðu verið gerðar í því skyni að endurskoða öruggar og vistvænar leiðir varðandi frístundaakstur og fylgdarmenn líkt og kveðið er á um í stefnu í íþróttamálum Reykjavíkur, en þeirri vinnu átti að ljúka 1. apríl 2021.

Áðurnefndu bréfi umboðsmanns var ekki svarað af hálfu Reykjavíkurborgar. Nú hafa embættinu enn á ný borist erindi frá foreldrum sem lýsa þungum áhyggjum af öryggi barna sinna sem njóta fylgdar úr frístund á íþróttaæfingar. Áhyggjurnar lúta einkum að því að börnum í fyrstu bekkjum grunnskóla sé ekki fylgt eftir alla leið á æfingar, þau séu eftirlitslaus í lengri eða skemmri tíma og að skortur sé á samstarfi og upplýsingaflæði á milli starfsmanna frístundaheimila og íþróttafélaga, sem leiði til þess að yfirsýn og eftirfylgd með öryggi barnanna sé ábótavant.

Með hliðsjón af því sem fram kemur í áðurnefndu bréfi og með vísan til grundvallarreglu 3. gr. Barnasáttmálans, sem kveður á um að tryggja skuli bestu hagsmuni barna, fer umboðsmaður þess á leit við Reykjavíkurborg að bregðast við þeirri stöðu sem lýst er hér að framan hið fyrsta.

Þess er óskað að skriflegt svar berist embættinu eigi síðar en 8. nóvember nk., þar sem sérstaklega skal tilgreint hvaða leiðir sveitarfélagið hyggst ráðast í til þess að tryggja öryggi barna við framkvæmd fylgdarþjónustunnar.

Einnig óskar umboðsmaður eftir upplýsingum um það hvort gefin hafi verið út fyrirmæli eða leiðbeiningar til íþróttafélaga varðandi fylgd barna, þar sem jafnræði og öryggi barna er haft að leiðarljósi.

Virðingarfyllst, 

Salvör Nordal, umboðsmaður barna


Bréf umboðsmanns barna á pdf

Uppfært 9. október 2024

Svar barst frá Reykjavíkurborg með bréfi dagsettu 9. október 2024.


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica