Vinkona pirrandi - illt umtal á Netinu - líður illa
stelpa
13
Mér líður ekkert sérlega vel !Það er út af mörgum hlutum t.d. eins og að ég er hætt að nenna að vera með bestu vinkonu minni, mér finnst hún orðin pirrandi, enda eru allir t.d. á msn að segja að hún sé ömurleg eða leiðinlegasta manneskja í heimi ! Og rétt áðan var ég að kíkja á blogg síðuna mína og það stóð eikkað svona líkt: "Flott síða NOT ömurleg síða ljóta feita gleraugnaglámurinn þinn reynir að vera eikkað cool! " Hálfpartinn á þetta við mig! Ég geng með gleraugu, ég er soldið þrekvaxin og ég er óánægð með útlit mitt, ég er heldur ekkert sérlega vinsæl. Ég bý með mömmu minni og við erum eiginlega bláfátækar ! Stundum langar mig bara til þess að deyja !
Komdu sæl
Unglingsárin geta verið mjög ruglingslegur og oft erfiður tími og það er mjög algengt að vinasambönd og sjálfsmyndin séu að flækjast fyrir krökkum. Þú ert því alls ekki ein um að líða svona illa. Þú verður endilega að leita þér aðstoðar vegna vanlíðunarinnar. Umboðsmaður barna mælir með því að þú fáir mömmu þína til að setjast niður með þér og segir henni frá þvi hvernig þér líður. Þú ættir helst af öllum að geta treyst henni. Hún ber ábyrgð á velferð þinni og hún er best í stakk búin til að hjálpa þér.
Ef þú einhverra hluta vegna treystir þér ekki til að tala um þetta við hana ættir þú að snúa þér til einhvers annars fullorðins sem þú treystir vel, t.d. ömmu, afa eða frænku. Svo getur þú líka leitað til námsráðgjafans í skólanum eða umsjónarkennarans. Þeir geta leiðbeint þér um ýmislegt í sambandi við sjálfsmyndina, vinkonurnar og e.t.v. bloggsíðuna.
Það væri kannski líka sniðugt fyrir þig að hugsa aðeins um það hvert sé markmiðið með því að halda úti bloggsíðu. Með því að hafa gestabók á bloggsíðu er maður að opna fyrir alls konar athugasemdir (oft nafnlausar eða undir rangnefni) sem geta verið mjög særandi. Sumir kjósa því að hafa aðgangsorð að bloggsíðum. Vonandi gerið þið ykkur grein fyrir því að það geta ALLIR (foreldrar, kennarar, afar og ömmur) lesið og afritað það sem skrifað er á Netið. Þess vegna verður maður að passa vel það sem maður birtir þar (skrif og myndir). Meira um örugga Netnotkun á síðunni www.saft.is.
Hvað varðar “vinkonuvandamálið” þá er mikilvægt að láta ekki aðra stjórna því sem manni finnst um vini sína. Þú ert örugglega fullfær um að hafa eigið álit á bestu vinkonu þinni og því ættir þú frekar að hlusta á eigin samvisku en álit annarra sem þekkja hana e.t.v. ekki eins vel. Ef þið eruð ósáttar og eigið erfitt með að tala saman í rólegheitum þá getið þið leitað eftir aðstoð frá starfsmanni skólans eða einhverjum sem þið treystið að sé hlutlaus.
Svo eru líka nokkrir aðrir sem þú gætir leitað til eftir aðstoð:
-
Starfsfólk félagsmiðstöðvanna er bundið trúnaði og mörgum finnst mjög gott að ræða málið við það.
-
Margir leita til presta til að ræða persónuleg mál – enda eru prestar bundnir trúnaði. Jafnvel þótt þú þekkir prestinn “þinn” ekki neitt getur þú alltaf leitað í kirkjuna.
-
1717 er hjálparsími Rauða krossins. Hann er opinn allan sólarhringinn og það kostar ekkert að hringja í hann. Ef þér finnst lífið vera tilgangslaust skaltu ekki hika við að hringja í hjálparsímann.
-
Tótalráðgjöfi býður upp á alls konar ráðgjöf fyrir unglinga. Heimasíðan er www.totalradgjof.is.
Gangi þér vel.
Kær kveðja frá umboðsmanni barna