Vinkona mín baktalar mig
stlepa
14
Mér finnst svolítið leiðinlegt að ein vinkona mín, eða eiginlega er allveg rosalega skemmtileg og góð við mig en um leið og ég er farin frá henni fer hún að baktala mig.
Og svo er hún búin að segja eitthvað rosalega ljótt og ég segi að ég muni aldrei aftur fyrirgefa henni en svo gerist það bara sjálfkrafa án þess að ég vilji það en hún er svo skemmtileg en hún segir líka svo ljóta hluti á msn og netinu geturu sagt mér hvað ég á að gera
Komdu sæl.
Þetta eru nú ekki góðar aðstæður sem þú lýsir og það er alltaf leiðinlegt þegar fólk talar illa um annað fólk.
Þú spyrð hvað þú átt að gera í þessu. Það væri gott fyrir þig að ræða um þetta við einhvern sem þú treystir eins og t.d mömmu þína og pabba eða bara einhvern sem þér finnst gott að tala við. Foreldrar þínir bera ábyrgð á velferð þinni og því er mikilvægt að þau viti ef vinkona þín er að særa þig til þess að þau geti hjálpað og leiðbeint þér.
Ef til vill væri gott að þú myndir ræða við þessa vinkonu þína og segja henni að þér líði illa þegar hún baktalar þig svona. Það væri samt gott ef þú værir búin að tala um þetta við mömmu þína eða pabba áður. Kannski gerir vinkona þín sér ekki grein fyrir því hvaða áhrif baktalið og skrifin á netið hafa á þig og því væri gott að segja henni frá því.
Stundum segir fólk ýmislegt sem það meinar ekki og það getur líka átt við efni sem það setur á netið. Við verðum því alltaf að hugsa okkur vel um áður en við setjum efni á netið sem gæti sært eða meitt aðra manneskju. Það er því alltaf gott að hafa í huga þetta í huga:
- Koma fram við aðra eins og við viljum að aðrir komi fram við okkur.
- Ef við erum pirruð þá telja upp að tíu áður en við segjum eitthvað sem við sjáum eftir.
Kær kveðja frá umboðsmanni barna