Vil ekki að pabbi sé alltaf að hringja í mig
stelpa
14
Mig langar að spyrja hvað ég get gert. Pabbi minn flutti til útlanda og hann er búinn að hringja 40 sinnum. Hann hringdi 6 sinnum í gær. Ég er búin að segja honum mörgum sinnum að ég vilji ekki að hann sé að hringja í mig en hann hlustar ekki. Hvað get ég gert?
Komdu sæl
Það er nú ekki nógu gott ef pabbi þinn hlustar ekki á þig þegar þú biður hann að hætta að hringja svona oft í þig.
Þú og pabbi þinn eigið samkvæmt lögum rétt á að umgangast hvort annað. Þar sem þið búið ekki lengur í sama landinu getur umgengnin auðvitað ekki verið með hefðbundnu móti, heldur verða samskiptin að fara fram á annan hátt. Mjög algengt er að börn og foreldrar ræði saman í síma, sendi bréf eða skrifi tölvupóst.
Hins vegar er ekki þar með sagt að pabbi þinn eigi að hringja í þig stanslaust. Þú ættir að reyna að fá einhvern annan til að ræða við pabba þinn, t.d. afa eða ömmu eða einhvern annan sem hann hlustar á. Einnig gætir þú stungið upp á því við hann að þið skrifuðust á með tölvupósti í stað símhringinga, sem bæði eru truflandi og geta auk þess kostað mikla peninga.
Með bestu kveðju frá umboðsmanni barna