Varaskeifa
stelpa
12
Það er alveg svakalega skrýtið, en mér finnst eins og vinir mínir noti mig sem auka hlið á öllu lífinu! Þeir eru með mér þegar að allir hinir eru í burtu! eru þeir alvölu vinir mínir eða gervi vinir?
Komdu sæll
Það getur verið erfitt að vera „varadekkið” í vinahópnum. Stundum getur maður orðið einmana og sorgmæddur að mega bara vera með félögunum þegar þeir hafa ekki aðra og vera yfirgefinn um leið og aðrir bjóðast. Það er samt yfirleitt ekki sniðugt að skipta vinum upp í hópa eins og alvöru-vini og gervi-vini. Hver og einn er sérstakur og vinir þínir verða fá að hafa sína hentisemi um það hverja þeir umgangast og hvernig.
Ef þér líður mjög illa yfir þessu, sem er mjög skiljanlegt, er mikilvægt að þú getir talað við einhvern nákominn til að fá huggun og skilning, eins og til dæmis foreldra þína.
Þú getur líka leitað til ýmissa annarra aðila eftir stuðningi, t.d. umsjónarkennara eða námsráðgjafans í skólanum. Kennarar geta hjálpað til við að laga ýmis konar samskiptavandamál hjá nemendum án þess að tala um einstaka mál eða nemendur. Það má t.d. vinna að betri samskiptum með öðruvísi skipulagi á náminu, hópastarfi og almennum umræðum.
Kannski er einhver hegðun eða eiginleiki sem þú getur lært að tileinka þér til að byggja þig upp félagslega. Þegar manni líður vel með sjálfan sig speglast það yfirleitt í því hvernig manni gengur í vinahópnum. Það eru hlutir eins og t.d.
• gott sjálfstraust,
• glaðlyndi,
• jákvæðni,
• einlægni,
• að vera ófeimin,
• að vera duglegur að hrósa öðrum,
• að sýna skilning og tillitssemi þegar aðrir eiga bágt,
• að vera drífandi í hvers kyns verkefnum og áhugamálum
Þú skalt líka hafa í huga að það eru til ýmsar leiðir til að eignast nýja vini. Þá skiptir miklu máli að reyna að vera jákvæður og hafa í huga punktana hér að ofan. Stundum er auðveldara að kynnast fólki á öðrum vettvangi en í skólanum. Athugaðu hvað er í gangi í þínu bæjarfélagi eða hverfinu. Þú gætir t.d. kannað hvaða greinar íþróttafélögin bjóða upp á. Svo gæti félagsmiðstöðin, skátarnir, Rauði krossinn eða kirkjan líka verið með barna- og unglingastarf, námskeið eða klúbb sem þú gætir haft áhuga á að reyna. Námsráðgjafinn í skólanum þínum getur örugglega hjálpað þér með að finna aðrar leiðir sem henta þér.
Gangi þér vel.
Kær kveðja frá umboðsmanni barna