Umskurður drengja
strákur
16
Mega foreldrar á Íslendi ákveða þegar maður er lítið barn og hefur ekkert vit að umskera mann? Hvað svo ef manni líkar það ekki þegar maður er eldri? Mega foreldar neyða mann í óþarfa lýtaaðgerð þegar maður hefur ekki aldur né vitsmuni til að neita því?
Komdu sæll
Í íslenskum lögum er ekki að finna ákvæði sem beinlínis bannar umskurð á drengjum. Í 218. gr. a í almennum hegningarlögum er hins vegar lögð refsing við því að fjarlægja kynfæri stúlku að hluta eða öllu leyti. Í raun er sjaldgæft að drengir séu umskornir á Íslandi nema þegar það er talið nauðsynlegt af heilsufarslegum ástæðum t.d. ef forhúðin er of þröng eða um alvarlega sýkingu er að ræða. Á Vísindavefnum getur þú lesið nánar um umskurð drengja.
Þegar umskurður er nauðsynlegur af læknisfræðilegum ástæðum er eðlilegt að foreldrar samþykki slíka aðgerð, eins og fram kemur í VI. kafla laga um réttindi sjúklinga. Meira álitamál er hvort foreldrar geti ákveðið að umskera barn af öðrum ástæðum, til dæmis trúarlegum. Eins og fyrr segir er þó ekkert í íslenskum lögum sem bannar slíka aðgerð. Þeir sem hafa vitneskju um að umskera eigi dreng ættu að tilkynna það til barnaverndarnefndar. Í slíkum tilvikum ber barnaverndarnefnd að kanna málið og hafa eftirlit með því að aðgerðin fari fram á sómasamlegan hátt varðandi hreinlæti, deyfingu o.fl. og valdi barninu ekki skaða.
Umskurði fylgir alltaf áhætta og telur umboðsmaður barna því nauðsynlegt að hann sé framkvæmdur af sérfræðingi sem hefur þekkingu á slíkri aðgerð. Þar sem um er að ræða töluvert inngrip í líkama barna telur umboðsmaður barna nauðsynlegt að kanna þetta mál betur með tilliti til réttinda barna. Bestu þakkir fyrir að vekja athygli á þessu máli.
Kær kveðja frá umboðsmanni barna.
Viðbót við svarið frá 2013:
Þessi fyrirspurn hér að ofan varð til þess að umboðsmaður barna hafði samband við aðra umboðsmenn barna á Norðurlöndum og í sameiningu var tekin ákvörðun um að gefa út álit.
Takk fyrir að hafa bent okkur á þetta mál.
Bestu kveðjur frá umboðsmanni barna