Trúnaður umsjónarkennara
stelpa
15
Hææ.. Heyrðu ég var að pæla það stendur nefnielga svo oft og er sagt að ef það er eitthvað að hjá manni og að fara tala við sem dæmi umsjónarkennarann sinn. En ég var að spá vinur minn fór og talaði við kennarann sinn og bað hann um að seigja ekkert frá því samtali en hann hringir svo í umboðsmann barna.. Hvernig getur maður þá treyst kennurunum eða einhverjum eftir þetta??
Komdu sæl
Umboðsmaður barna leiðbeinir öllum þeim sem til hans leita með erindi sem varða réttindi og hagsmuni barna. eins og hann getur. Stundum leitar fólk sem vinnur með börnum til umboðsmanns barna til að fá ráð eða upplýsingar um hvað má og hvað má ekki samkvæmt lögum og reglum. Umboðsmaður eða starfsfólk hans biður ekki um að fá nöfn barnanna sem um ræðir og viðkomandi (kennarar, ráðgjafar, heilbrigðisstarfsfólk eða hver sem er) eru því ekki að bregðast trúnaðarskyldu sinni með því að leita eftir leiðbeiningum frá umboðsmanni barna. Umboðsmaður barna er líka bundinn trúnaði gagnvart þeim sem til hans leita, hvort sem það eru börn eða fullorðnir.
Gæti kannski verið að þú sért að ruglast á umboðsmanni barna og barnaverndinni?
Í barnaverndarlögum er fjallað um skyldur manna að tilkynna barnaverndarnefnd ef þeir verða þess vísir að barni sé misboðið, uppeldi þess vanrækt eða aðbúnaði þess sé svo áfátt að barninu geti stafað hætta af. Þessi skylda hvílir á okkur öllum. Sérstakar skyldur hafa þeir sem stöðu sinnar vegna eru líklegir til að þekkja til aðstæðna barna að gera barnaverndarnefnd viðvart. Hér getur verið um að ræða kennara, presta, lækna, hjúkrunarfræðinga, þjálfara, félagsráðgjafa og fleiri. Það er því þannig að þrátt fyrir trúnað kennara við nemendur sína þá eru þeir ekki undanþegnir tilkynningarskyldu til barnaverndarinnar. Sama gildir um umboðsmann barna.
Vonandi svarar þetta spurningum þínum.
Kær kveðja frá umboðsmanni barna